Útdráttur:
|
Vorið 2010 fól mennta- og menningarmálaráðuneytið Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, í samvinnu við Símenntun, Rannsóknir og Ráðgjöf (SRR) við sama svið, að gera þessa úttekt á fjarkennslu á framhaldsskólastigi. Markmið með úttektinni er að meta hvort nám með fjarkennslusniði í íslenskum framhaldsskólum uppfyllir kröfur gildandi laga, reglugerða og aðalnámskrár og hvort í náminu séu gerðar sambærilegar kröfur og í reglubundnu námi í dagskólum framhaldsskóla. Með úttektinni koma fram upplýsingar um verklag og umgjörð í fjarnámi og metin er þörf fyrir fjarnám á framhaldsskólastigi með tilliti til ólíkra námshópa. Einnig er lagt mat á kostnað, skilvirkni og hagkvæmni fjarnáms og skoðuð starfsþróun kennara m.t.t. undirbúnings og þjálfunar í fjarkennslu. Úttektin beinist fyrst og fremst að Fjölbrautaskólanum í Ármúla (FÁ), Verzlunarskóla Íslands (VÍ) og Verkmenntaskólanum á Akureyri (VMA). En þessir þrír skólar er samanlagt með um þrjá fjórðu hluta af nemendaígildum í fjarnámi hér á landi (Sigurbjörg Jóhannesdóttir, 2010). |