#

Rannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi. : áfangaskýrsla I : stöðulýsing og upphaf framkvæmda á Austurlandi

Skoða fulla færslu

Titill: Rannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi. : áfangaskýrsla I : stöðulýsing og upphaf framkvæmda á AusturlandiRannsókn á samfélagsáhrifum álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi. : áfangaskýrsla I : stöðulýsing og upphaf framkvæmda á Austurlandi
Höfundur:
URI: http://hdl.handle.net/10802/4662
Útgefandi: Byggðarannsóknastofnun Íslands
Útgáfa: 12.2006
Ritröð: Byggðarannsóknastofnun Íslands., Rannsóknarrit ; 3
Efnisorð: Álver; Orkuver; Þjóðfélagsbreytingar; Austurland
Tungumál: Íslenska
Tengd vefsíðuslóð: http://www.rha.is/static/files/Rannsoknir/2006/Samfelagsahrif_A-land_skyrsla_2006.pdf
Tegund: Skýrsla
Gegnir ID: 991007172589706886
Athugasemdir: Unnið af starfsfólki Rannsóknar- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri ásamt rannsóknaraðilum á Austurlandi.Höfundar: Enok Jóhannsson, Jón Þorvaldur Heiðarsson, Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, Valtýr SigurbjarnarsonMyndefni: kort, línurit, töflur
Útdráttur: • Þann 15. mars 2003 voru undirritaðir á Reyðarfirði samningar sem marka upphaf einhverra umfangsmestu framkvæmda í Íslandssögunni. Kjarninn í þessum framkvæmdum er annars vegar álver Alcoa og hins vegar Kárahnjúkavirkjun en heildarfjárfesting þessara tveggja framkvæmda nemur um 195 milljörðum króna.

• 11. mars 2003 var samþykkt þingsályktun um að fela Byggðarannsóknastofnun Íslands, í samvinnu við Þróunarstofu Austurlands, að fylgjast með samfélagsbreytingum og þróun byggðar og atvinnulífs á því landsvæði þar sem áhrifa álvers- og virkjunarframkvæmda á Austurlandi gætir mest. Rannsóknin fer fram á tímabilinu 2004-2009.

• Saga stóriðjuuppbyggingar á Austurlandi á sér langa sögu en aldrei náðist að hefja þar slíka starfsemi fyrr en með þeim framkvæmdum sem rannsóknin snýr að. Ýmsar hugmyndir um virkjun fyrir stóriðju í landshlutanum komu fram á undanförnum áratugum, m.a. 1973 um gríðarstóra virkjun í Fljótsdal. Þessar endurteknu tilraunir til uppbyggingar orkufreks iðnaðar í landshlutanum hafa sett sitt mark á samfélagið og eiga líklega sinn þátt í að skapa miklar væntingar til framkvæmdanna.

• Áhrifasvæði rannsóknarinnar skiptist í þrennt eftir vegalengd frá framkvæmdasvæðunum og er miðað við tveggja klukkustunda aksturstíma. Þetta eru miðsvæði Austurlands að Vopnafjarðarhreppi í norðri og að Breiðdalsvík í suðri, norðursvæði frá og með Vopnafjarðarhreppi til og með Þingeyjarsveit og suðursvæði frá og með Breiðdalshreppi til og með sveitarfélaginu Hornafirði. Rannsóknin byggir m.a. á gögnum úr tveimur almennum úrtakskönnunum á áhrifasvæði framkvæmdanna og einni á landsvísu, könnun meðal fyrirtækja, viðtalskönnunum meðal almennings og ýmsum opinberum gögnum.

• Þróun íbúafjölda á Austurlandi frá 1998 eftir undirsvæðum hefur verið þannig að miðsvæði Austurlands sker sig algerlega úr. Íbúafjölgun er nær algerlega bundin við Hérað og Fjarðabyggð.

• Aldurssamsetning mannfjöldans á Austurlandi hefur m.a. einkennst af því að hlutfall einstaklinga sem eru á virkustum vinnualdri (18-62 ára) er heldur lægra en á landinu í heild, m.a. vegna brottflutnings fólks á þessum aldri. Árið 1998 voru 25% íbúa á Austurlandi 18-62 ára samanborið við 30% á landinu í heild og 33% í Reykjavík. Þessi þróun hefur snúist við frá 2002 og hefur fjölgað áberandi í þessum aldurshópum. Mannfjöldapýramídi fyrir miðsvæði Austurlands árið 2005 gefur til kynna mikla fjölgun karla á aldrinum 25-65 ára.

• Búferlaflutningar frá útlöndum til svæðisins hafa verið afar miklir eða 2.100 manns frá árinu 1998 og síðastliðin ár er fyrst og fremst um erlenda starfsmenn við framkvæmdirnar að ræða. Búferlaflutningar gagnvart öðrum landshlutum hafa á miðsvæði Austurlands verið nánast í jafnvægi og nokkur aðflutningur umfram brottflutning árið 2003. Á norður- og suðursvæðum hafa brottfluttir hins vegar verið fleiri en aðfluttir frá öðrum landshlutum frá upphafi framkvæmdanna.

• Erlendum ríkisborgurum hefur fjölgað mjög á rannsóknarsvæðinu frá árinu 2000. Í árslok 2005 voru þeir tæplega 2.600, þar af tæplega 2.300 á miðsvæðinu. Fjölgun erlendra ríkisborgara er öll á miðsvæði Austurlands og mun meiri meðal karla en kvenna. Tíu karlar með útlent ríkisfang á miðsvæði eru á móti hverri konu með útlent ríkisfang.

• Atvinnutekjur á einstakling á vinnualdri hafði verið rétt undir landsmeðaltali á Austurlandi frá 1998 en árið 2005 varð hins vegar sú breyting að Austurland fór upp fyrir landsmeðaltal. Tekjur í úrvinnslu hækka mikið eftir 2002 en tekjur í frumvinnslu hafa farið lækkandi. Í einstökum atvinnugreinum hækka mjög tekjur í fasteigna- og viðskiptaþjónustu sem og mannvirkjagerð. Hvort tveggja er auðskiljanlegt og eðlilegt í ljósi framkvæmdanna á Austurlandi. Atvinnutekjur í aðalstarfi hækka töluvert meira á Austurlandi þessi ár en á landinu öllu.

• Samkvæmt úrtakskönnun árið 2004 er mikill munur á ánægju íbúa með atvinnutekjur sínar eða fjölskyldna sinna eftir svæðum. Ánægja með tekjur er áberandi mest á miðsvæði en minnst á norðursvæðinu.

• Aðspurðir um trú á bætta afkomu sína í tengslum við stóriðjuframkvæmdirnar skera íbúar miðsvæðis sig úr. Þar telur mun stærri hluti íbúanna að framkvæmdirnar bæti fjárhagslega afkomu þeirra en á öðrum svæðum. Góð fylgni er á milli fjarlægðar frá framkvæmdunum og afstöðu íbúanna til þessara þátta.

• Hvað varðar trú íbúa á Austurlandi á bættri afkomu sinni vegna reksturs álversins sker miðsvæðið sig einnig úr. Þar hafa 35% íbúanna frekar eða mjög mikla trú á bættri fjárhagslegri afkomu sinni vegna starfrækslu álvers á Reyðarfirði. Litlar væntingar eru um þetta annarsstaðar á rannsóknarsvæðinu en það vekur athygli að á öðrum svæðum (svæði utan rannsóknarsvæðis þangað sem hluti fólks í úrtakinu hafði flutt áður en spurt var) virðast vera töluverðar væntingar um þetta.

• Í viðtalskönnun sem gerð var árið 2002 kom fram að viðmælendur töldu hlutfallslega lág laun og einhæfni atvinnulífs neikvæða þætti hvað varðar vinnumarkað.

• Skráð atvinnuleysi hefur verið lægra en landsmeðaltal á Austurlandi undanfarin 10 ár og breyst í sama takti. Það hefur verið hverfandi lítið undanfarin 3 ár, eins og vænta mátti í því þensluástandi sem ríkt hefur. Munur á atvinnuleysi karla og kvenna hefur haldist í hendur. Framkvæmdirnar virðast því ekki síður hafa haft áhrif á atvinnu kvenna á Austurlandi en karla.

• Með því að skoða þá sem eru skráðir á vinnumarkaði (starfandi auk skráðra atvinnulausra) sem hlutfall af öllum á vinnualdri vekur athygli að svo virðist sem atvinnuþátttaka sé meiri á Austurlandi en á landinu öllu sem nemur um þremur prósentustigum og er þó atvinnuþátttaka á Íslandi með því hæsta sem þekkist.

• Í könnun haustið 2004 var spurt um hvert fólk sótti til vinnu. Eins og eðlilegt er sóttu langflestir vinnu á sama stað og þeir bjuggu, en mjög lítil atvinnusókn reyndist vera á milli landfræðilegra nálægra staða. Sú þróun sem víða hefur orðið, að fólk búi ekki endilega þar sem það vinnur, virðist ekki enn hafa átt sér stað á Austurlandi en mun greinilega breytast með tilkomu álvers þegar tekið er tillit til áhuga íbúa annarra bæja en Reyðarfjarðar á að sækja þar um vinnu.

• Í könnun haustið 2004 voru þátttakendur spurðir hvort þeim þætti það líklegt eða ólíklegt að þeim myndu sækjast eftir vinnu við álver í Reyðarfirði. Þegar niðurstöður eru greindar eftir aldri og búsetu telja um 3% fólks á aldrinum 18-27 ára, sem búsett er á Mið-Austurlandi, það mjög líklegt að það muni sækja um vinnu við álver í Reyðarfirði og um 16% til viðbótar telja það frekar líklegt. Ekki kemur á óvart að hlutfall þeirra sem telja þetta mjög eða frekar líklegt er langhæst í bæjunum í Fjarðabyggð eða 15-31% íbúa á aldrinum 18-62 ára.

• Fyrir framkvæmdir var verð á húsnæði lágt, og fyrir þá sem vantaði húsnæði var það gjarnan fyrsti valkostur að leigja í stað þess að kaupa. Lítið var byggt. Í könnun 2004 var spurt um væntingar til hækkunar húsnæðisverðs. Væntingarnar reyndust mestar nálægt álverinu en mun minni þegar komið var út fyrir atvinnusóknarsvæði þess.

• Húsnæðisverð hækkaði almennt á Austurlandi eftir 2003. Hornafjörður sker sig þó úr. Þar hefur verðið stöðugt lækkað frá 1999. Verð á Fljótsdalshéraði hefur alltaf verið hærra en í Fjarðabyggð. Árið 2005 minnkaði þessi munur verulega. Verð íbúðarhúsnæðis á Mið-Austurlandi virðist stefna í að verða svipað og á Akureyri en er þó enn aðeins lægra. Minni gerjun virðist hafa átt sér stað á markaði með atvinnuhúsnæði og hefur ekki verið byggt áberandi meira af því síðastliðin 2-3 ár en árin þar á undan.

• Áhrif á rekstur sveitarfélaga virðast fyrst og fremst eiga sér stað á mesta áhrifasvæði framkvæmdanna. Í grófum dráttum má segja að þeirra gæti aðeins með beinum hætti í Fjarðabyggð, Fljótsdalshreppi og Fljótsdalshéraði og að hluta til í Austurbyggð. Samkvæmt skoðanakönnunum og viðtölum við einstaklinga eru áhrifin staðbundnari en flestir höfðu reiknað með. Þetta á sérstaklega við um skammtímaáhrif en meiri óvissa er um áhrifin til lengri tíma litið.

• Samhliða fjölgun íbúa, auknum umsvifum og samgöngubótum hefur verslun á miðsvæði Austurlands orðið fjölbreyttari og samkeppnishæfari, íbúum til hagsbóta enda mikilvægur þáttur í búsetuskilyrðum. Þá hafa margar sérvöruverslanir og þjónustufyrirtæki sett upp útibú á undanförnum árum.

• Ferðaþjónusta hefur sótt í sig veðrið á Austurlandi. Milli áranna 2001 og 2004 fjölgaði gistinóttum um 29 % á Austurlandi samanborið við 24% á landinu öllu og 12% á Norðurlandi eystra. Nærtækt er að álykta að þessi aukning skýrist fyrst og fremst af stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi en fleira gæti komið til, s.s. að ný Norröna hóf siglingar til og frá Seyðisfirði vorið 2003

• Þegar sjónum er beint að andanum í samfélaginu, eða þeirri óáþreifanlegu upplifun sem fólk hefur af sínu nánasta umhverfi, má ráða að stóriðjuframkvæmdirnar á Austurlandi hafi haft og muni hafa mikil áhrif í samfélaginu, þegar til lengri tíma er litið. Í því sambandi er mikilvæg sú alda bjartsýni sem fór um samfélagið á MiðAusturlandi við upphaf framkvæmdanna og sem gæti mögulega virkjað sköpunarkraft einstaklinga á svæðinu en hann er talinn veigamikill þáttur til að skýra mismunandi nýsköpunarvirkni á ólíkum landssvæðum.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Samfelagsahrif_A-land_skyrsla_2006.pdf 3.933Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta