Titill: | Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010 |
URI: | http://hdl.handle.net/10802/3458 |
Útgefandi: | Umboðsmaður Alþingis |
Útgáfa: | 10.2011 |
Efnisorð: | Stjórnsýsla |
ISSN: | 1670-3634 |
Tungumál: | Íslenska |
Tegund: | Ársskýrsla |
Athugasemdir: | Sú skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2010 sem hér fylgir er að tvennu leyti frábrugðin skýrslum síðustu ára. Kemur þar fyrst til að skýrslan hefur að geyma upplýsingar um mál sem bæði var lokið af settum umboðsmanni, Róbert R. Spanó, og mér sem kjörnum umboðsmanni. Í öðru lagi eru nú aðeins birtar reifanir vegna einstakra mála sem lokið var á árinu ásamt upplýsingum um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns. Af þessum sökum er skýrsla umboðsmanns til Alþingis fyrir árið 2010 minni að umfangi en síðustu ár.
Á árinu 2009 og fram til 1. júlí 2010 gegndi ég sem umboðsmaður störfum í rannsóknarnefnd Alþingis, sbr. lög nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Á sama tíma var Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, settur af hálfu forsætisnefndar Alþingis sem umboðsmaður Alþingis til að fara með yfirstjórn skrifstofu umboðsmanns, annast rekstur hennar og afgreiðslu mála meðan ég sinnti störfum í rannsóknarnefndinni. Jafnframt ákvað forsætisnefnd Alþingis samkvæmt beiðni minni að Róbert yrði áfram settur umboðsmaður Alþingis í tilteknum málum sem voru til lokaafgreiðslu þegar ég kom aftur til daglegra starfa umboðsmanns 1. júlí 2010. Róbert hefur því annast afgreiðslu á meiri hluta þeirra mála sem gerð er grein fyrir í þessari skýrslu og er vísað til hans þar sem tekið er fram í skýrslunni að settur umboðsmaður hafi komið að málinu eða lokið því. Ef aðeins er talað um umboðsmann er átt við undirritaðan sem kjörinn umboðsmann. Þessi skýrsla er samin af mér í samræmi við 12. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og eins og tekið var fram í upphafi þá er í henni gengið skrefinu lengra en í skýrslum síðustu ára að því er varðar umfjöllun um einstök mál. Látið er við það sitja, nema í algjörum undantekningartilvikum, að birta útdrátt eða reifun um einstök mál. Vilji menn kynna sér þau nánar er hægt að nálgast álit umboðsmanns og þær niðurstöður sem umboðsmaður hefur ákveðið að birta á heimasíðu umboðsmanns (sjá: www.umbodsmadur.is) en upplýsingar um afgreiðslu mála hjá umboðsmanni eru jafnan birtar þar skömmu eftir að þær liggja fyrir. Ég hef hins vegar lagt áherslu á að birta í skýrslu og greina Alþingi frá hver hafa orðið viðbrögð stjórnvalda við þeim tilmælum sem umboðsmaður hefur beint til þeirra í einstökum málum. Á grundvelli þeirra upplýsinga ætti Alþingi að vera betur í stakk búið til að taka afstöðu til þess hvort það telur tilefni til þess að fjalla frekar um þau viðbrögð. Uppbygging skýrslunnar er með sama hætti og undanfarin ár. Samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis skal prenta skýrslu umboðsmanns og birta árlega fyrir 1. september. Síðustu ár hefur verið lögð áhersla á að hraða vinnu við árskýrsluna þannig að hún geti legið fyrir fyrr á árinu. Við undirbúning að þessari skýrslu var í samræmi við það óskað eftir að svör stjórnvalda um viðbrögð við tilmælum umboðsmanns og stöðu mála bærust sem fyrst. Stjórnvöld brugðust mjög vel við þeirri ósk og var ætlunin að ganga endanlega frá skýrslunni til prentunar fyrir sumarið. Mikil fjölgun nýrra kvartana í samanburði við síðustu ár samhliða fækkun í röðum starfsmanna umboðsmanns leiddi hins vegar til þess að seinkun varð á endanlegum frágangi skýrslunnar. Hér þurfti að forgangsraða verkefnum og um leið og ég biðst afsökunar á því að hafa ekki getað skilað þessari skýrslu innan lögmæltra tímamarka vona ég að það komi ekki að sök við umfjöllun Alþingis um skýrsluna. Ég hef þá líka í huga stöðu mála við umfjöllun Alþingis um skýrslur umboðsmanns frá allra síðustu árum. Reykjavík, 1. október 2011. Tryggvi Gunnarsson. |
Skrá | Stærð | Skráartegund | Skoða |
---|---|---|---|
skyrsla_2010.pdf | 1.291Mb |
Skoða/ |