dc.description.abstract |
Í kjölfar aukinna fólksflutninga síðustu áratugi hefur innflytjendum fjölgað í háskólum á Íslandi. Þessi grein er byggð á niðurstöðum rannsóknarverkefnisins Væntingar og tækifæri innflytjenda á Íslandi til háskólamenntunar og áskoranir henni tengdar (2016-2018) sem styrkt er af Rannís. Meginmarkmið rannsóknarverkefnisins er að öðlast skilning á upplifunum, reynslu, áskorunum og stuðningi við innflytjendur í háskólanámi hérlendis. Í þessari grein eru kynntar helstu niðurstöður úr eigindlegri rannsókn með innflytjendum sem eru núverandi og fyrrverandi háskólanemar á Íslandi. Gagna var aflað í rýnihópaviðtölum og einstaklingsviðtölum við alls 41 nemanda í þrem háskólum á Íslandi. Markmið rannsóknarinnar sem greinin fjallar um er að öðlast skilning á reynslu og upplifun innflytjenda af kennsluaðferðum, áskorunum og stuðningi í þremur stærstu háskólunum á Íslandi, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík og Háskólanum á Akureyri. Niðurstöðurnar benda til þess að flestir þátttakendur upplifi að kennsluaðferðir í háskólunum séu nútímalegar. Þeir nefna hagnýtar kennsluaðferðir, svo sem umræðutíma og hópavinnu, og að byggt sé á þekkingu þeirra og reynslu. Skoðanir á þessum kennsluaðferðum eru þó mismunandi. Sumir þátttakendur telja hópavinnu vera góða, en aðrir upplifa hana sem tímasóun. Sumir sækjast eftir akademísku námi, á meðan aðrir vilja frekar læra eitthvað hagnýtt, sem þeir geti notað í framtíðarvinnu. Þá telja þátttakendur að jafnræði ríki milli nemenda og kennara í háskólunum, en það hafa þeir ekki alltaf upplifað í heimalöndum sínum. Niðurstöðurnar sýna einnig að nemendurnir eru langflestir jákvæðir gagnvart kennslu og stuðningi í íslenskum háskólum en þeir glíma við ýmiss konar áskoranir... |
is |