Útdráttur:
|
Í þessari fyrstu áfangaskýrslu stjórnarskrárnefndar er gerð grein fyrir starfi nefndarinnar frá nóvember 2013, þegar hún var skipuð, og fram í júní 2014. Á þeim tíma hefur einkum verið fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, auðlindir og umhverfisvernd. Hvert og eitt þessara umfjöllunarefna er fyrst reifað almennt, þar á meðal gerð stutt grein fyrir gildandi rétti og þróun erlendis. Einnig er gefið yfirlit yfir vinnu undanfarinna ára, meðal annars tillögur stjórnlaganefndar og stjórnlagaráðs 2011, niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012, vinnu Alþingis 2012-2013 og starf þeirrar stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005-2007. Að lokinni reifun á almennum atriðum og forsögu er fjallað um afstöðu og umræður þeirrar stjórnarskrárnefndar sem nú starfar. Lögð er áhersla á meginatriði umræðunnar en ekki útfærslur einstakra efnisatriða. Tilgangur skýrslunnar er að efna til opinberrar umræðu og því setur nefndin fram spurningar og álitaefni sem vakin er sérstök athygli á. Gert er ráð fyrir að fleiri áfangaskýrslur verði birtar eftir því sem verkefni stjórnarskrárnefndar miðar áfram, enda er hlutverk hennar víðtækt og starfstími allt til loka kjörtímabilsins. Þegar er hafin umræða um kosningar og kjördæmaskipan, embætti forseta Íslands og störf og verkefni Alþingis. Jafnframt er fyrirhugað að næstu umfjöllunarefni nefndarinnar verði ríkisstjórn og ráðherrar, dómstólar og mannréttindi. Skýrslunni lýkur á bókunum nefndarmanna um áherslur þeirra og fyrirvara. |