#

Ferðaþjónusta : uppbygging og afkoma

Skoða fulla færslu

Titill: Ferðaþjónusta : uppbygging og afkomaFerðaþjónusta : uppbygging og afkoma
Höfundur: Sigurborg Kr. Hannesdóttir 1959 ; Byggðastofnun
URI: http://hdl.handle.net/10802/5920
Útgefandi: Byggðastofnun
Útgáfa: 1993
Tungumál: Íslenska
Tengd vefsíðuslóð: http://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/ferdathjonusta.pdf
Tegund: Bók
Gegnir ID: 991011523549706886
Athugasemdir: Myndefni: töflur, kort, súlurit.
Útdráttur: Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vex hvað hraðast í heiminum og Ísland hefur ekki farið varhluta af því. Hlutdeild ferðaþjónustunnar hér á landi í útflutningi vöru og þjónustu hefur nánast tvöfaldast á einum áratug. Árið 1992 námu gjaldeyristekjur Íslendinga af erlendum ferðamönnum um 11,6 milljörðum króna, eða 9,4% af útfluttum vörum og þjónustu. Ef eyðsla Íslendinga í ferðalögum um eigið land er talin, má áætla að heildarvelta ferðaþjónustunnar hafi verið um 20-25 milljarðar á síðasta ári, eða sem nemur að lágmarki um 4% af heildarveltu þjóðarbúsins.

Á síðasta áratug kom einnig vaxtarkippur í uppbyggingu í ferðaþjónustu, ekki síst í gistirými. Samtals eiga opinberir sjóðir um 2,7 milljarða króna útistandandi hjá fyrirtækjum í ferðaþjónustu en þó hefur það háð atvinnugreininni að það lánsfé sem er í boði er að jafnaði til skemmri tíma.
Sú staðreynd að framboð gistirýmis hefur aukist umfram eftirspurn hefur leitt til versnandi afkomu ferðaþjónustufyrirtækja. Allt bendir til þess að atvinnugreinin hafi að meðaltali verið rekin með tapi undanfarin ár. Að sama skapi gerir mikil árstíðasveifla það að verkum að fjárfestingarnar eru illa nýttar stóran hluta ársins og að erfitt er að halda úti þjónustu um allt land allan ársins hring.

Þrátt fyrir slæma rekstrarafkomu ferðaþjónustufyrirtækja nú síðustu ár, hefur mikil vakning átt sér stað og margar athyglisverðar nýjungar þróast. Víða um land hafa verið ráðnir ferðamálafulltrúar til starfa og jafnframt verið komið á fót upplýsingamiðstöðvum fyrir ferðamenn, sem hvort tveggja hefur styrkt mjög stöðu atvinnugreinarinnar.
Á landsbyggðinni er ferðaþjónusta nánast eingöngu bundin við háannatímann og möguleikar til lengingar ferðamannatímabilsins eru mestir á suðvesturhorninu. Ferðaþjónusta getur því aðeins þróast við hlið annarra grunnatvinnugreina á landsbyggðinni. Af þessu þurfa byggðaaðgerðir á sviði ferðaþjónustu að taka mið.

Samkeppnisstaða Íslands á heimsmarkaði ferðaþjónustunnar er á margan hátt erfið og fátt bendir til þess að hún muni breytast til hins betra á næstu árum. Ferðalög aukast, en styttast að sama skapi og ferðamennirnir gera kröfur um aukin gæði, en jafnframt lægri verð. Nú þegar, er verð á ferðum til landsins mun hærra en gerist í samkeppnislöndum okkar. Tilkoma virðisaukaskatts á mikilvæga þjónustuþætti mun að öllum líkindum leiða til frekari verðhækkana og þar með veikja samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar.

Þau verkefni sem blasa við íslenskri ferðaþjónustu á næstu árum eru fyrst og fremst áhersla á uppbyggingu afþreyingar fyrir ferðamenn og markaðssetningu. Þar skiptir meginmáli að hvert svæði fyrir sig skapi sér sérstöðu til að byggja megi upp sem mesta fjölbreytni í þjónustu við ferðamenn. Breyttar aðstæður kalla á breyttar áherslur og stóraukið samstarf og skipulag atvinnugreinarinnar, ekki síst milli hagsmunaaðila og hins opinbera.

Viðhorf landsmanna til ferðamanna og uppbyggingar ferðaþjónustu ráða mjög miklu um hvernig til tekst um þróun atvinnugreinarinnar. Þjálfun, þekking og menntun eru því mikilvægir þættir til að efla meðvitund Íslendinga um gestgjafahlutverkið og byggja upp metnað til að því verði sinnt á sem bestan veg.

Þrátt fyrir ýmsar blikur á lofti ferðaþjónustunnar hefur Ísland sem áfangastaður margt til að bera sem skapar möguleika til eflingar þessarar atvinnugreinar. Lykilatriðið er að þeim fjölgar stöðugt sem sækjast eftir einhverju sem er náttúrulegt og einstakt frekar en því sem er fjöldaframleitt og staðlað. Þar vegur þyngst að Ísland er óvenjulegt land með hreina og óspillta náttúru. Ferðaþjónusta þarf því að byggjast upp sem sjálfbær þróun þar sem virðing fyrir náttúrunni, ferðamönnum og okkur sjálfum sem gestgjöfum, er höfð að leiðarljósi. Í því felst grunnurinn að farsælli þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Hér dugir ekki að tjalda til einnar nætur.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
ferdathjonusta.pdf 370.0Kb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta