#

Starfsumhverfi ferðamálafulltrúa : viðhorfskönnun meðal ferðamálafulltrúa á þáttum tengdum starfsumhverfi þeirra

Skoða fulla færslu

Titill: Starfsumhverfi ferðamálafulltrúa : viðhorfskönnun meðal ferðamálafulltrúa á þáttum tengdum starfsumhverfi þeirraStarfsumhverfi ferðamálafulltrúa : viðhorfskönnun meðal ferðamálafulltrúa á þáttum tengdum starfsumhverfi þeirra
Höfundur:
URI: http://hdl.handle.net/10802/5855
Útgefandi: Byggðastofnun
Útgáfa: 01.2001
Efnisorð: Ferðamálafræði
Tungumál: Íslenska
Tengd vefsíðuslóð: http://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/ferdamalafulltrua.pdf
Tegund: Bók
Gegnir ID: 991006945049706886
Athugasemdir: Höfundur: Sigríður E. Þórðardóttir ; Spurningalistar: Helga Dagný Árnadóttir, Guðrún Helgadóttir ; Kort: Ásgeir Heiðar Ásgeirsson.Myndefni: töflur, kort, línuritFerðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein á Íslandi og eru ferðamálafulltrúar/ atvinnumálaráðgjafar mikilvægir hlekkir í sambandi við hvernig þessi atvinnugrein kemur til með að þróast í framtíðinni. Upplýsingar um starfssvið þeirra og viðhorf og aðstæður eru mikilvægt framlag til hagnýtrar þekkingar á þessari atvinnugrein og þróun hennar hérlendis. Þar sem starfið er tiltölulega nýtt og lítt mótað liggur ekki fyrir ákveðin stefnumótun í mörgum tilvikum um starfssvið ferðamálafulltrúa og almennur skilningur á mikilvægi starfsins er ekki til staðar. Í lögum um skipulag ferðamála (1994) er ferðamálafulltrúa ekki getið og í þingsályktun um stefnu í byggðamálum 1999-2001 er ekki lögð mikil áhersla á ferðaþjónustu. Ferðaþjónusta tengist þó flestum áherslusviðum þingsályktunarinnar, því greinin tengist ýmsum öðrum atvinnugreinum og hefur þannig margföldunaráhrif. Í skýrslu Byggðastofnunar Byggðir á Íslandi (1999) og Byggðarlög í sókn og vörn (2000) koma fram ábendingar um aðgerðir til að styrkja ferðaþjónustu m.a. með því að stuðla að samvinnu aðila innan greinarinnar og vinna að heildarstefnumörkun varðandi markaðssetningu landsbyggðarinnar til ferðamanna.

Grundvöllur verðmætasköpunar á þessu sviði eru rannsóknir á ferðaþjónustu, vönduð markaðssetning þjónustu og að efla þekkingu ferðaþjónustuaðila og þeirra sem sinna ferðaþjónustu. Í þeirri vinnu eru ferðamálafulltrúar oft á tíðum lykilmenn á sínu svæði en mjög erfitt getur verið að fara af stað með atvinnuveg sem ekki er fyrir á svæðinu og lítil verkþekking og hefð er fyrir. Í nokkrum tilvikum þurfa fulltrúar að byrja á því að koma á samstarfi á milli ferðaþjónustuaðila á svæðinu og það getur tekið dágóðan tíma og barmafulla skál af þolinmæði. Hlutirnir gerast ekki á einni nóttu en oft er ætlast til sýnilegs árangurs á starfi ferðamálafulltrúans helst strax og hann tekur til starfa. Aftur á móti er ekki alveg ljóst hvernig á að mæla árangurinn. Hér gilda ekki sömu lögmál og í venjulegum fyrirtækjum þar sem menn geta sett sér mælanleg markmið í veltuaukingu því starf ferðamálafulltrúa er ekki tekjuskapandi í sjálfu sér heldur orsakar veltuaukingu hjá ýmsum öðrum. Erfiðlega gengur því að mæla árangur í svo víðtæku starfi þar sem áhrifa gætir á svo mörgum sviðum. Ekki er út í hött að álykta að þessir þættir skýri að einhverju leyti þá staðreynd að menn endast fremur stutt í störfum ferðamálafulltrúa og að þeir hreinlega ,,brenni út“ í starfi sínu sem slíkir.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að eitt birtingarform félagslegra álagsþátta er að fólk ,,brennur út“ í starfi. Þetta hefur verið kallað kulnun á íslensku (Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, 1999). Kulnun er einn angi vinnustreitu og gerir það að verkum að fólk gengur sér bókstaflega til húðar. Starfsmenn gefa of mikið af sér sjálfum og geta ekki endurhlaðið rafhlöðurnar. Rannsóknir sýna að allir geta brunnið út í starfi, þó eru tiltekin störf líklegri til að orsaka kulnun en önnur. Í því sambandi má nefna störf sem eru andlega og félagslega krefjandi, þar sem viðfangsefnið er fyrst og fremst annað fólk. Einnig eru þeir í áhættu sem eru félagslega einangraðir í vinnu, þeir sem vinna vaktavinnu eða óreglulegan vinnutíma. Þar að auki eru ákveðnir þættir í öllum störfum sem viðkoma vinnuskipulaginu sem ýta undir kulnun starfsmanna. Þessir þættir eru margir og má þar nefna hlutverkaárekstra, ef einstaklingur ræður ekki yfir þáttum sem nauðsynlegir eru til að ná settu marki, skort á umbun ofl. (Schaufeli og Enzmann, 1998).

Nýliðun hefur verið töluverð undanfarin ár í röðum ferðmálafulltrúa og oft koma nýir arftakar ekki til starfa fyrr en forverar þeirra hafa látið af störfum. Með þessu helst reynsla og þekking illa innan stéttarinnar en störf ferðamálafulltrúa mótast mikið af starfsreynslu viðkomandi. Í þeim tilgangi að auka þekkingu á starfsaðstæðum ferðamálafulltrúa var framkvæmd könnun sem hér verður greint frá. Í könnuninni var starfsheitið ferðamálafulltrúi notað og var það hugtak því notað í úrvinnslunni, þrátt fyrir að flestir þátttakendur hafi einnig sinnt öðrum málaflokkum. Enda þótt hér sé sett fram sú tilgáta að starf ferðamálafulltrúa einkennist af þáttum sem leitt geta til kulnunar, er ekki þar með sagt að kulnun sé eini orsakavaldurinn. Í því sambandi má nefna að almenn staða á vinnumarkaði hefur mikið að segja um hreyfanleika vinnuaflins. Þegar uppgangur er í efnahagslífinu er hreyfanleiki vinnuaflsins meiri en þegar samdráttur eða niðursveifla er í efnahagslífinu, þá dregur úr hreyfanleikanum. Og undanfarin ár hefur íslenskt efnahagslíf einkennst í meiri mæli af uppgangi en niðursveiflu.
Útdráttur: Helstu niðurstöður
• Afgerandi meirihluti ferðamálafulltrúa hafði starfað skemur en tvö ár.
• Flestir voru ánægðir með laun og skrifstofuaðstöðu.
• Meirihlutinn var ánægður með samskipti sín við opinberar stofnanir og einkafyrirtæki.
• Meirihlutinn taldi að það væri mikill árangur af starfi ferðamálafulltrúa.
• Tæplega helmingur ferðamálafulltrúa var óánægður með þá viðurkenningu sem þeir fá á starf sínu.
• Minnihluti ferðamálafulltrúa sagði að stefnumótun stjórnvalda í ferðamálum væri fylgt eftir á þeirra starfssvæði.
• Helmingur ferðamálafulltrúa vinnur eftir staðbundinni stefnumótun í ferðamálum.
• Helmingur ferðamálafulltrúa taldi hagkvæmast að starfsemi ferðamálafulltrúa væri svið innan atvinnuþróunarfélaga eða markaðsskrifstofa.
• Meirihlutinn hafði fremur lítil samskipti við þær stofnanir í stoðkerfinu sem tilteknar voru.
• Meirihluti ferðamálafulltrúa taldi samskipti við opinberar stofnanir mjög mikilvæg.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
ferdamalafulltrua.pdf 209.2Kb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta