#

Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði

Skoða fulla færslu

Titill: Verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaðiVerðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði
URI: http://hdl.handle.net/10802/5557
Útgefandi: Samkeppniseftirlitið
Útgáfa: 2012
Ritröð: Samkeppniseftirlitið., Ritröð Samkeppniseftirlitsins ; 1/2012
Efnisorð: Samkeppni í viðskiptum; Verðlag; Matvöruverslanir
Tungumál: Íslenska
Tengd vefsíðuslóð: http://www.samkeppni.is/media/skyrslur-2012/Skyrsla_01_2012_Verdthroun_og_samkeppni_a_dagvorumarkadi.pdf
Tegund: Bók
Gegnir ID: 991004301859706886
Athugasemdir: Myndefni: línurit, töflurSamkeppnisaðstæður á matvörumarkaði hafa hvarvetna mikil áhrif á lífskjör. Það á ekki síst við um smáa, landfræðilega einangraða markaði eins og Ísland. Hér á landi hefur verð á matvörum hækkað mikið á undanförnum árum og þá ekki síst eftir gengis- og bankahrunið árið 2008. Nemur hækkun vísitölu neysluverðs á mat- og drykkjarvörum tæplega 47% á fjögurra ára tímabili frá upphafi árs 2008 til loka árs 2011 samkvæmt Hagstofu Íslands. Á þessu tímabili hefur það hlutfall ráðstöfunartekna almennings sem fer í kaup á mat- og drykkjarvörum einnig hækkað.

Við þessar aðstæður er mikilvægt að samkeppnisyfirvöld verji verulegum hluta af ráðstöfunartíma sínum í að greina og uppræta samkeppnishömlur á matvörumarkaði. Skýrsla þessi er liður í slíkri greiningu.

Skipulag matvörumarkaðar sem við búum við á Íslandi í dag mótaðist að verulegu leyti fyrir gildistöku samkeppnislaga. Þannig átti samruni Hagkaupa og Bónuss sér stað í nóvember 1992 en samkeppnislög tóku gildi 1. mars 1993. Verkefni samkeppnisyfirvalda hefur m.a. verið að fást við þær aðstæður sem þá urðu til.

Á fyrri hluta árs 2006 mótaði Samkeppniseftirlitið áherslur í eftirliti á matvörumarkaði sem fylgt hefur verið síðan og endurskoðaðar voru í lok ársins 2008. Margt hefur áunnist í þeim efnum. Samkeppniseftirlitið hefur ráðist í allmargar rannsóknir þar sem tekist hefur að uppræta brot og færa háttsemi til betri vegar. Stjórnvaldssektir vegna mála sem tengjast matvörumarkaði nema frá árinu 2008 tæplega 1.100 m.kr. eða um 40% af öllum sektum Samkeppniseftirlitsins á sama tímabili. Ennfremur hefur Samkeppniseftirlitið beint álitum og skýrslum til stjórnvalda og markaðarins þar sem mælt er með aðgerðum til að bæta samkeppnisaðstæður og hag neytenda.

Skýrsla þessi er áfangi á þessari leið. Í henni er sjónum beint að tvennu.

• Varpað er ljósi á verðþróun og verðmyndun á dagvörum sl. sex ár á framleiðslu- og heildsölustigi annars vegar og smásölustigi hins vegar. Leitast er við að svara þeirri spurningu hvort mikil verðhækkun á dagvörum á þessu tímabili stafi af áhrifaþáttum eins og bágri samkeppni eða ytri verðmyndandi aðstæðum.

• Lýst er þeim aðstæðum sem nýir og smærri smásalar dagvara standa frammi fyrir í verðsamkeppni. Smærri smásalar hafa kvartað yfir því að verð sem þeim býðst hjá birgjum sé mun hærra en verð frá birgjum til stærri verslanakeðja. Með þetta í huga hefur Samkeppniseftirlitið aflað ítarlegra upplýsinga um verð og viðskiptakjör dagvöruverslana frá birgjum og eru þessar upplýsingar birtar í skýrslunni. Einnig hefur upplýsinga verið aflað um smásöluálagningu verslana.

Skýrslan byggir á rannsókn sem hófst í lok árs 2010. Nær hún til innfluttrar og innlendrar dagvöru, þ.m.t. landbúnaðarafurða, drykkjarvöru og hreinlætis- og snyrtivöru. Þetta eru þær vörur sem tengjast daglegum neysluþörfum og fást alla jafna í dagvöruverslunum. Upplýsingar um heildsöluverð birgja til dagvöruverslana og viðskiptakjör miðast við árið 2010. Yfirlit um verðþróun nær hins vegar til sex ára tímabils frá upphafi ársins 2006 til loka ársins 2011.

Rannsóknin byggir á upplýsingum og gögnum frá um 70 birgjum og átta verslunum og verslanasamstæðum á dagvörumarkaðnum. Þá byggir skýrslan á gögnum og upplýsingum úr eldri stjórnsýslumálum og skýrslum Samkeppniseftirlitsins. Einnig var aflað upplýsinga frá Hagstofu Íslands (sbr. kafla 7.1. um aðferðafræði, myndir um verðþróun vöruflokka í kafla 7.2. og verð og viðskiptakjör í kafla 7.3.), Seðlabanka Íslands (sbr. upplýsingar um gengi í kafla 7.3) og Ríkisskattstjóra (sbr. upplýsingar um veltu minni dagvöruverslana í kafla 5).

Skýrslunni er skipt í fjóra hluta. Í fyrsta hluta eru inngangur, samantekt og niðurstöður. Í öðrum hluta er aðstæðum á dagvörumarkaði lýst; markaðurinn skilgreindur, gerð grein fyrir fyrirtækjum á honum og fjallað um markaðshlutdeild og samþjöppun á dagvörumarkaðnum auk þess sem farið er yfir stöðu birgja á dagvörumarkaði. Í þriðja hluta er verðþróun síðustu sex árin á dagvörumarkaði lýst og gerð grein fyrir kjörum dagvöruverslana hjá birgjum og álagningu dagvöruverslana. Í fjórða hluta er yfirlit yfir helstu aðgerðir Samkeppniseftirlitsins á dagvörumarkaði frá árinu 1998.

Skýrslunni og rannsókninni sem skýrslan byggir á er ekki beint gegn einstökum fyrirtækjum og í niðurstöðum hennar felst ekki stjórnvaldsákvörðun eða íhlutun. Í henni felst engin afstaða til þess hvort ákvæði samkeppnislaga hafi verið brotin.

Samkeppniseftirlitið mun óska sjónarmiða og athugasemda fyrirtækja á dagvörumarkaði við efni og niðurstöður skýrslunnar. Í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um frekari aðgerðir á grundvelli hennar.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Skyrsla_01_2012 ... eppni_a_dagvorumarkadi.pdf 6.551Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta