#

Samkeppnin eftir hrun

Skoða fulla færslu

Titill: Samkeppnin eftir hrunSamkeppnin eftir hrun
URI: http://hdl.handle.net/10802/5546
Útgefandi: Samkeppniseftirlitið
Útgáfa: 2011
Ritröð: Samkeppniseftirlitið., Ritröð Samkeppniseftirlitsins ; 2/2011
Efnisorð: Samkeppni í viðskiptum; Atvinnulíf; Fyrirtæki; Bankar; Ísland
Tungumál: Íslenska
Tengd vefsíðuslóð: http://www.samkeppni.is/media/skyrslur-2011/Samkeppnin_eftir_hrun.pdf
Tegund: Bók
Gegnir ID: 991010763239706886
Athugasemdir: Niðurstöður á ensku s. 18-32Myndefni: línurit, töflurÍ nóvember 2008 beindi Samkeppniseftirlitið áliti til banka og stjórnvalda um mikilvægi þess að gæta að samkeppnissjónarmiðum við ákvarðanir sem lúta að framtíð fyrirtækja á samkeppnismörkuðum. Í sama mánuði birti eftirlitið skýrslu nr. 2/2008, Öflug uppbygging – opnun markaða og efling atvinnulífs, þar sem bent var á nauðsyn þess að hefja öfluga uppbyggingu í íslensku atvinnulífi í kjölfar bankahrunsins. Í því sambandi skipti miklu að viðhalda og eftir atvikum að efla samkeppni. Samkeppniseftirlitið benti á að samkeppnin er ekki takmark í sjálfu sér heldur er hún tæki til að efla velferð almennings. Þá leiðir samkeppnin til lægra verðs, skapar atvinnu, stuðlar að efnahagslegum framförum og hvetur fyrirtæki til að gera betur gagnvart viðskiptavinum sínum.

Í skýrslunni um öfluga uppbyggingu markaða voru settar fram 120 tillögur um opnun markaða og var þeim tillögum komið á framfæri við stjórnvöld og fyrirtæki. Skýrslunni var síðan fylgt eftir í desember 2009 með umræðuskjali um banka og endurskipulagningu fyrirtækja. Í henni voru kynnt 17 kjarnasjónarmið sem Samkeppniseftirlitið taldi að hafa ætti að leiðarljósi við endurskipulagningu fyrirtækja.

Nú eru liðnir 32 mánuðir frá bankahruni. Þessi tími hefur verið erfiður eins og vænta mátti. Heimili og fyrirtæki hafa barist við afleiðingar gengisfalls og bankahruns, stjórnvöld hafa tekist á við vanda ríkissjóðs í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, endurskipulagning bankakerfisins hefur reynst flókið og tímafrekt verkefni og uppgjöri við fortíðina er langt í frá lokið. Þá ríkir engin samstaða um efnahagsstefnu þjóðarbúsins til skemmri og lengri tíma og þjóðin hefur upplifað milliríkjadeilur og náttúruhamfarir sem beint hafa athygli heimsins að landi og þjóð.

Öflugt og skilvirkt atvinnulíf er forsenda fyrir efnahagslegri velferð þjóðarinnar. Atvinnulífið er sú uppspretta verðmæta sem greiðir vinnuafli laun og veitir stjórnvöldum afl til að halda uppi innviðum samfélagsins. Af þessum sökum er fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja lykilatriði í uppbyggingu hagkerfisins. Með þessari skýrslu vill Samkeppniseftirlitið lýsa sjónarmiðum sínum um stöðu atvinnulífsins, endurskipulagningu þess og samkeppnina. Markmiðið er að hvetja til umræðu um lausnir á vandanum við endurskipulagningu fyrirtækja og freista þess þar með að flýta nauðsynlegum aðgerðum.

Skýrslan er byggð á rannsókn Samkeppniseftirlitsins á fjárhagsstöðu og fjárhagslegri endurskipulagningu 120 stórra fyrirtækja á völdum samkeppnismörkuðum (II. hluti). Þá er í skýrslunni farið yfir fjárhagsstöðu og þróun atvinnugreina frá hruni (II. hluti), metið hvort tekið hefur verið tillit til kjarnasjónarmiða um endurskipulagningu fyrirtækja (III. hluti) og greint frá því hvernig miðað hefur með tillögur um opnun markaða sem settar voru fram í fyrrgreindri skýrslu um opnun markaða (IV. hluti).

Í skýrslunni er greint frá sjónarmiðum fyrirtækja sem Samkeppniseftirlitið leitaði til við vinnslu hennar. Auk skriflegra sjónarmiða frá fyrirtækjum hefur stofnunin fundað með um 70 forsvarsmönnum fyrirtækja, bankamönnum, ráðgjöfum, fræðimönnum og aðilum í stjórnsýslunni. Þá hefur Samkeppniseftirlitið aflað margvíslegra sjónarmiða banka í tengslum við rannsóknir mála er varða yfirtökur bankanna á atvinnufyrirtækjum. Segja má að skýrslan feli í sér skilaboð til banka og stjórnvalda um endurskipulagningu fyrirtækja og samkeppni á markaði.

Skýrslan og þær upplýsingar sem aflað hefur verið um stöðu einstakra fyrirtækja mun nýtast Samkeppniseftirlitinu í eftirliti með eignarhaldi banka á fyrirtækjum. Þá mun skýrslan nýtast sem grunnur í frekari vinnu um krosseignartengsl og viðskiptablokkir.
Útdráttur: Hrunið hefur haft mikil áhrif á samkeppni í einstökum atvinnugreinum og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja, nauðasamningar og gjaldþrot leiða til breytinga á stöðu fyrirtækja innbyrðis. Þetta er óhjákvæmilegt. Brýnir samfélagslegir hagsmunir eru fólgnir í því að brugðist sé hratt við skuldavanda rekstrarhæfra fyrirtækja.

Bankar ráða yfir 46% eignarhlutar á fyrirtækjum samkvæmt rannsókn Samkeppniseftirlitsins á 120 stórum fyrirtækjum á völdum samkeppnismörkuðum. Þá eru talin með fyrirtæki sem eru í mjög slæmri fjárhagslegri stöðu og ráða ekki örlögum sínum. Hlutur einstaklinga er 29%, skilanefnda 7%, lífeyrissjóða 7% og annarra 11%. Hlutur banka fór hæst í 68% strax eftir hrun. Staðan er því slæm en fer batnandi. Fjárhagsstaða tæplega helmings stærri fyrirtækja er mjög slæm að mati Samkeppniseftirlitsins en um fimmtungur fyrirtækja er í góðri stöðu. Tæplega þriðjungur fyrirtækja hefur lokið fjárhagslegri endurskipulagningu en sama hlutfall fyrirtækja telur sig ekki hafa þörf fyrir endurskipulagningu.

Vandi atvinnulífsins felst í of hægu ferli fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja, óánægju með framkvæmd hennar og skorti á trausti og gagnsæi. Þá er fjárhagsstaða margra fyrirtækja sem lokið hafa fjárhagslegri endurskipulagningu slæm. Sú hætta er fyrir hendi að samkeppni minnki verulega til lengri tíma litið vegna þess að nýja aðila skortir fjármagn til að komast inn á markaði og vegna sterkrar stöðu fyrirtækja á fákeppnismörkuðum sem mögulega geta nýtt stöðu sína til að hækka verð.

Rangir hvatar eru í kerfinu sem seinka fjárhagslegri endurskipulagningu fyrirtækja. Án réttra hvata til sölu munu bankarnir eiga fyrirtækin lengur en talist getur þjóðhagslega hagkvæmt. Til er orðin ný tímabundin atvinnugrein, endurskipulagning og sala eigna. Hagsmunir starfsmanna hennar af tekjuöflun og atvinnuöryggi vinna gegn hagsmunum samfélagsins af hraðri úrlausn. Hræðslan við að taka ákvörðun og gera mistök heldur aftur af mörgum við núverandi aðstæður. Kerfið umbunar ekki þeim sem tekur af skarið.

Krafan um algert jafnræði er ein ástæða þess að of hægt gengur í endurskipulagningu fyrirtækja. Þrátt fyrir fögur orð er vandinn sá að hið fullkomna réttlæti er ekki til og skilgreining á réttlæti og jafnræði er háð stöðu og mati hvers og eins. Engar tvær endurskipulagningar stærri fyrirtækja eru eins. Bankarnir verða að hafa svigrúm til að taka skynsamlegar ákvarðanir að gefnum fyrirframmótuðum reglum.

Samkeppniseftirlitið brýnir fyrir bönkum að halda sig við þegar tilgreinda sölufresti á fyrirtækjum og að losa um óbeint eignarhald á fyrirtækjum án ástæðulauss dráttar. Þá setur eftirlitið fram hugmyndir sem gætu aðstoðað við að leysa úr þessum vanda þó þær séu ekki á forræði Samkeppniseftirlitsins. Samkeppniseftirlitið gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa almennt ekki sýnt aðgerðum til þess að efla samkeppni nægilega athygli á liðnum árum. Of margar hindranir eru í vegi aðila sem vilja hasla sér völl á samkeppnismörkuðum.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Samkeppnin_eftir_hrun.pdf 2.712Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta