#

Samfélagsandi og nýsköpunarstarf : rannsókn á völdum landsbyggðarsvæðum

Skoða fulla færslu

Titill: Samfélagsandi og nýsköpunarstarf : rannsókn á völdum landsbyggðarsvæðumSamfélagsandi og nýsköpunarstarf : rannsókn á völdum landsbyggðarsvæðum
Höfundur: Elín Aradóttir 1973 ; Kjartan Ólafsson 1974
URI: http://hdl.handle.net/10802/4660
Útgefandi: Byggðarannsóknastofnun Íslands
Útgáfa: 2004
Efnisorð: Byggðaþróun; Nýsköpun í atvinnulífi
Tungumál: Íslenska
Tengd vefsíðuslóð: http://www.rha.is/static/files/Rannsoknir/2004/skyrsla-10nov04.pdf
Tegund: Skýrsla
Gegnir ID: 991001040639706886
Athugasemdir: Töflulisti: s. 1Myndalisti: s. 1-4Myndefni: línurit, töflur
Útdráttur: Skýrslan sem hér fer á eftir rekur niðurstöður rannsóknarverkefnis sem laut að upplýsingaöflun um valda menningar- og félagslega þætti samfélaga á tveimur landsbyggðarsvæðum. Skýrsluhöfundar hafa til hægðarauka valið að nota orðið samfélagsanda til að lýsa samsettri birtingarmynd hinna völdu þátta. Í rannsókninni var einnig mæld þátttaka fyrirtækja og einyrkja í nýsköpunarstarfi á sömu svæðum. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að rannsaka tengsl milli samfélagsanda og nýsköpunarstarfs fyrirtækja á svæðunum. Þau svæði sem fyrir valinu urðu voru Norðurland vestra og norðanvert Vesturland. Svæðunum tveimur var síðan skipt niður í samtals 11 undirsvæði. Framkvæmd gagnaöflunarinnar fólst í að framkvæmdar voru tvær spurningakannanir. Annarri var ætlað að safna gögnum um samfélagsanda á hinum völdu svæðum. Í þeirri könnun var sjónum sérstaklega beint að þremur þáttum, þ.e. 1) bjartsýni og upplifun af framtíðarhorfum, 2) hefð fyrir þátttöku í atvinnurekstri og 3) afstöðu til nýjunga. Hinni spurningakönnuninni var ætlað að safna gögnum um þátttöku fyrirtækja og einyrkja í nýsköpunarstarfi á sömu svæðum. Þar var sjónum einnig fyrst og fremst beint að þremur þáttum: 1) nýsköpunarvirkni, 2) áformum um nýsköpunarstarf og 3) þáttum sem hamla nýsköpunarstarfi. Gagnaöflunin leiddi af sér tvö gagnasett sem hvort um sig veitti mikilvægar upplýsingar um viðkomandi viðfangsefni. Með því að tengja gagnasettin tvö saman var síðan hægt að rannsaka tengslin milli viðfangsefnanna tveggja. Hér á eftir verða dregnar saman lykilniðurstöður rannsóknarinnar.

Félags- og menningarlegar hliðar nýsköpunarumhverfis: Líkur á því að fyrirtæki, sem starfað hafa um langan tíma, séu virk í nýsköpunarstarfi vaxa verulega með batnandi samfélagsanda. Tæplega helmingur þeirra fyrirtækja og einyrkja sem þátt tóku í könnuninni töldu ennfremur að skortur á stuðningi og hvatningu af hálfu almennings í nærumhverfi muni hafa mjög eða frekar mikil hamlandi áhrif á möguleika fyrirtækisins til að vera virkt í nýsköpunarstarfi á næstunni. Niðurstöðurnar hér að ofan styðja þá tilgátu að jákvæð tengsl séu milli þess anda er ríkir í hverju byggðalagi og þess hversu virkir þátttakendur fyrirtæki og einyrkjar eru í nýsköpunarstarfi. Niðurstöður benda jafnframt til þess að vert sé að beina sjónum sérstaklega að eflingu samfélagsanda í því umhverfi sem fyrirtæki og einyrkjar hrærast í. Þetta kallar á sérstaka athygli þeirra sem eru í forsvari fyrir eflingu atvinnulífs og skipulagningu þróunarstarfs almennt á landsbyggðinni, hvort sem þeir starfa á sveitarfélags-, landshluta- eða landsvísu.

Sérstaða byggðarlaga og hlutverk grasrótarstarfs: Rannsóknin leiddi í ljós að samfélagsandi er afar mismunandi milli byggðarlaga. Þessi mikli breytileiki bendir til þess að samfélagsandi ráðist að stórum hluta afaðstæðum í næsta umhverfi fólks (í flestum tilfellum sveitarfélagi) fremur en af aðstæðum í viðkomandi landshluta. Þessar niðurstöður má túlka sem svo að varast beri að fullyrða um stöðu byggðarlaga einungis út frá landfræðilegri legu þeirra eða þeirri staðreynd að þau séu staðsett á landsbyggðinni. Af þessum niðurstöðum má einnig draga þann lærdóm að meðal þeirra aðila sem vinna að eflingu byggðar, hafi aðilar sem starfa á sveitarfélagsvísu hvað mikilvægustu hlutverki að gegna þegar litið er til hugsanlegra aðgerða til eflingar bjartsýni, drifkrafts og jákvæðra viðhorfa. Því er eðlilegt að skipulagning og ákvarðanataka er varðar slíkt starf fari fram sem næst grasrótinni fremur en á landsvísu eða jafnvel landshlutavísu.

Sveitarfélög og aðkoma þeirra að þróunarstarfi: Yfir helmingur þeirra sem þátt tóku í fyrirtækjakönnuninni töldu að skortur á stuðningi, hvatningu og aðstoð af hálfu sveitarfélags muni hafa hamlandi áhrif á möguleika fyrirtækisins til að vera virkt í nýsköpunarstarfi.Ýmsan lærdóm má draga af þessum niðurstöðum. Í fyrsta lagi virðist sem þorri forsvarsmanna fyrirtækja sjái sveitarfélögin sem aðila sem beri að efla atvinnulíf og styðja við bakið á starfandi fyrirtækjum. Í öðru lagi virðist þorri forsvarsmanna fyrirtækja ekki telja að sveitarfélögin sinni þessu hlutverki á fullnægjandi hátt. Ákveðnar vísbendingar komu einnig fram um að sýnileiki þeirra tengsla sem sveitarfélög hafa við atvinnuþróunarfélög sé lítill og þar með einnig sýnileiki þeirrar þjónustu sem sveitarfélög veita á þessu sviði. Þetta ætti að vera forsvarsmönnum sveitarfélaga á þeim svæðum sem rannsóknin tók til umhugsunarefni. Það er mat aðstandenda rannsóknarinnar að sveitarfélögin ættu að gegna lykilhlutverki í skipulagningu þróunarstarfs, sem ætlað er að efla bjartsýni, drifkraft og jákvæð viðhorf meðal almennings. Til þess að sveitarfélögin geti á þróttmikinn hátt tekist á við slík verkefni er ljóst að þau þurfa á stuðningi frá öðrum aðilum að halda. Aukna áherslu ætta að leggja á tengsl atvinnuþróunarstarfs við starfsemi aðila og hópa sem vinna að því að auðga mannlíf og menningu á hverjum stað. Framfarafélög, ungmennafélög, kvenfélög, búnaðarfélög, atvinnugreinasamtök og/eða fulltrúar lykilatvinnugreina eru dæmi um hópa sem hlutverki hafa að gegna í þessu samhengi. Einnig er vert að íhuga hvort ekki væri eðlilegt að til kæmi samstarf við ríkisvaldið eða stofnanir þess, sérstaklega þegar litið er til þess hvernig tryggja megi slíkum verkefnum traustan fjárhagslegan grundvöll.

Staða landbúnaðarbyggða:. Samfélagsandi í dreifbýlishéruðum er að jafnaði neikvæðari en í þéttbýlu byggðarlögunum og lýsa bændur neikvæðustu afstöðunni af öllum starfsstéttum. Forsvarmenn fyrirtækja í dreifbýli upplifa að jafnaði skort á stuðningi og hvatningu af hálfu almennings í nærumhverfi fyrirtækisins sem meira hamlandi enforsvarsmenn fyrirtækja í þéttbýli. Framtíðarhorfur í landbúnaði, hvað nýsköpun varðar, virðast ennfremur síður en svo vera bjartar í samanburði við aðrar atvinnugreinar. Í tengslum við spurningakannanirnar tvær bárust ennfremur ýmsar athugasemdir frá svarendum í dreifbýli sem benda til þess að a.m.k. ákveðinn hluti bænda líti svo á að sá hugsunarháttur sem í nýsköpun felst, sem jafnframt hefur verið talinn ein af forsendum frekari þróunar atvinnulífs, komi þeim hreinlega ekki við. Það er mat aðstandenda rannsóknarinnar að hugsunarháttur sem byggir á því sjónarmiði að landbúnaður lúti ekki sömu lögmálum og aðrar atvinnugreinar skapi þá hættu að landbúnaður sem og það fólk sem hann stundar verði úr takt við þróun atvinnulífs og þankagangs í landinu, greinin staðni og þeir sem að henni komi verði eins konar jaðarhópur sem litla möguleika hafi til áhrifa. Það er því fyllsta ástæða er fyrir þá aðila sem koma að þróun greinarinnar að vera á varðbergi gagnvart slíkum hugsunarhætti.

Einyrkinn og nýsköpunarhugtakið: Rannsóknin leiddi í ljós að þátttaka fyrirtækja í nýsköpunarstarfi vex með auknum umsvifum fyrirtækja. Rannsóknin sýndi ennfremur að forsvarsmenn veltulágra fyrirtækja upplifa að jafnaði skort á heppilegum leiðum til fjármögnunar nýsköpunarstarfs sem meira hamlandi en forsvarsmanna veltuhærri fyrirtækja. Ætla má að fjárhagslegir þættir séu þó ekki einu hindranirnar í vegi smæstu fyrirtækjanna. Þær athugasemdir sem þátttakendur í fyrirtækjakönnuninni skiluðu gefa ákveðnar vísbendingar um að skilningur einhverra forsvarsmanna smæstu fyrirtækjanna á nýsköpunarhugtakinu markist af þeirri hugsun að nýsköpun sé nokkuð sem komi smáum fyrirtækjum í hefðbundinni atvinnustarfsemi ekki við. Þessar niðurstöður benda til þess að þrátt fyrir að hið opinbera hafi á undanförnum misserum staðið fyrir ýmsum aðgerðum til að efla nýsköpun á landsbyggðinni, þá þurfi að gera enn betur. Styrkja þarf enn frekar umræðu um mikilvægi nýsköpunar með það að markmiði að forsvarsmenn fyrirtækja í hvaða atvinnugrein sem er og af öllum stærðargráðum upplifi sig sem þátttakendur í þeirri umræðu. Stjórnvöld og stofnanir hins opinbera, s.s. Iðntæknistofnun, Byggðastofnun, Rannsóknamiðstöð Ísland, sem og háskólastofnanir, hafa ekki síst lykilhlutverki að gegna sem framgönguaðilar um þjóðfélagsumræðu á slíkum nótum.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
skyrsla-10nov04.pdf 1.298Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta