#

Handbók um Skaftárhlaup : viðbragðsáætlun

Skoða fulla færslu

Titill: Handbók um Skaftárhlaup : viðbragðsáætlunHandbók um Skaftárhlaup : viðbragðsáætlun
Ritstjóri: Auður Atladóttir 1981
URI: http://hdl.handle.net/10802/4562
Útgefandi: Veðurstofa Íslands
Útgáfa: 04.2013
Ritröð: Veðurstofa Íslands., Skýrslur Veðurstofu Íslands ; VÍ 2013-003
Efnisorð: Vatnafræði; Flóð; Straumvötn; Skaftá; Skaftárhlaup; Almannavarnir
ISSN: 1670-8261
Tungumál: Íslenska
Tengd vefsíðuslóð: http://www.vedur.is/media/vedurstofan/utgafa/skyrslur/2013/2013_003_Skafta_handbok.pdf
Tegund: Skýrsla
Gegnir ID: 001307067
Athugasemdir: Myndefni: myndir, kort, töflur
Útdráttur: Skaftárhlaup eins og þau þekkjast nú hófust árið 1955 en til eru heimildir um eldri hlaup. Frá árinu 1955 hafa tæplega 50 jökulhlaup komið í Skaftá, sem jafngildir nær árlegu hlaupi að meðaltali. Þegar hleypur úr Eystri- eða Vestari Skaftárkatli rennur vatnið um 40 km undir Vatnajökli og síðan 28 km eftir farvegi Skaftár áður en það kemur að fyrsta vatnshæðarmæli við Sveinstind. Hámarksrennsli í hlaupum úr eystri katlinum hefur mest orðið um 1.500 m3/s. Rennsli Skaftár getur því vaxið úr eðlilegu rennsli að vetri, um 13 m3/s, og í leysingum síðsumars, um 200 m3/s, í stórfljót á innan við sólarhring.

Veðurstofa Íslands rekur þrjá vatnshæðarmæla í Skaftá (við Sveinstind, Skaftárdal og Kirkjubæjarklaustur) og einn í Eldvatni við Ása. Fartími milli vatnshæðarmæla var hér kannaður við upphaf hlaups. Einnig var metinn tími sem líður milli flóðtoppa fyrir lítil og stór jökulhlaup í Skaftá. Niðurstöður sýna að það tekur hlaupið 4–5 klst. að fara á milli mæla við Sveinstind og í Skaftárdal (40,3 km). Meðalframrásarhraði hlaupfaldsins er á milli 8,5 og 10,1 km/klst eða 2,4–2,8 m/s. Við upphaf hlaups berst hlaupið frá mæli í Skaftárdal að mæli í Eldvatni við Ása á 4–5 klst. (18,5 km). Meðalframrásarhraði er 4,0– 4,6 km/klst eða 1,1–1,3 m/s. Í stórum jökulhlaupum er tímamunur flóðtopps (hámarksrennslis) 19–22 klst. milli mæla við Sveinstind og Ása. Frá upphafi hlaups við Sveinstind og fram að hámarksrennsli við Ása líða u.þ.b. 48 klst. Milli mæla við Sveinstind og Skaftárdal munar 12–13 klst. Það skiptir töluvert miklu máli hve mikið er í ánni þegar hlaup byrjar. Ef rennsli er á bilinu 100 til 150 m3/s við Sveinstind þegar hlaup byrjar má gera ráð fyrir að það líði um 7 klst. áður en rennslið nær yfir 400 m3/s í Skaftárdal.

Reynslan sýnir að rennslið vex hægar í Skaftárdal en við Sveinstind, enda fer töluvert vatn út í hraunið þar í milli. Farvegur Skaftár í Skaftárdal tekur vel við 400 m3/s rennsli, en rennsli umfram það veldur því að vegir spillast og ófært verður inn í Skaftárdal. Myndir sem teknar voru úr lofti af hlaupum í júlí 1995 og júní 2010 eru lagðar til grundvallar mati á flóðahættu. Samtals reyndust 14 vegarkaflar, samanlagt 5,1 km, vera undir vatni í öðru eða báðum hlaupunum 1995 og 2010 og 15 vegarkaflar, samanlagt 8,4 km, taldir í hættu vegna hlaups. Fyrstu vegir geta farið að spillast við Hólaskjól um 2–2,5 klst. eftir að flóð hafa ná yfir 1000 m3/s rennsli við Sveinstind. Við dæmigerðan vöxt flóða sem ná yfir 1000 m3/s má gera ráð fyrir að vatn nái upp á vegi við Hólaskjól um 11 klst. eftir að flóð kemur fyrst fram við Sveinstind.

Hluti þessa verkefnis snýr að þróun viðbragðsáætlunar fyrir jökulhlaup í Skaftá, sem er ætluð til notkunar innan Veðurstofu Íslands. Áætlunin skiptist í fjóra meginþætti: Fyrstu viðbrögð; hættugreining og samskipti; jökulhlaup er hafið; og eftir fyrstu viðbrögð. Í áætluninni eru ítarlegar leiðbeiningar um viðbrögð við jökulhlaupi, allt frá fyrstu viðvörun frá sjálfvirkum mælum til tilkynninga til almennings.

Fyrsta tilkynning er send Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra þegar staðfest hefur verið að jökulhlaup sé hafið. Ef jökulhlaup er talið líklegt til að valda tjóni er viðvörun send fjölmiðlum með tilkynningu í tölvupósti. Þessu til viðbótar eru viðvaranir og reglulegar tilkynningar birtar á vefsíðu Veðurstofunnar.

Upplýsingum um yfirstandandi jökulhlaup er einnig dreift með tölvupóstlista til nokkurra stofnanna – t.d. Vegagerðarinnar, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Landgræðslunnar og Suðurorku. Drög að tengiliðaskrá var útbúin með greinargerðinni.

Unnið er að gerð annars konar áætlunar sem felur í sér viðbragð vegna rannsókna og mælinga í og við Skaftá vegna hlaups. Áætlunin nær til undirbúnings ferðar á vettvang hlaups, ítarlegrar upplýsingar um mælingastaði og áætlunar um samskipti við aðra vísindamenn. Búnaðarlisti vegna rannsóknarferðar á vettvang verður meðal annars gerður með það að markmiði að stytta viðbragðstíma.

Bætt verklag við undirbúning og áætlun ferðar á vettvang getur tryggt snögg viðbrögð af hálfu Veðurstofu Íslands, sem aftur tryggir tímanlegar og áreiðanlegar mælingar.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
2013_003_Skafta_handbok.pdf 9.157Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta