dc.description.abstract |
Þann 15. maí 2002 voru samþykktar breytingar á lögum nr. 38/1990 um stjórnun fiskveiða þar sem kemur fram að sjávarútvegsráðherra hefur til sérstakrar ráðstöfunar aflaheimildir sem nema 500 lestum af óslægðum þorski á fiskveiðiárunum 2001/2002 til og með 2005/2006. Þessum aflaheimildum skal ráðstafað til tilrauna með áframeldi á þorski í samráði við Hafrannsóknastofnunina sem fylgist með tilraununum og birtir niðurstöður um gang þeirra. Þann 27. júní 2002 gaf sjávarútvegsráðherra út reglugerð nr. 464/2002, um úthlutun aflaheimilda vegna tilrauna með föngun og áframeldi á þorski. Sama dag úthlutaði ráðuneytið 500 tonnum af þorski í þessu skyni til 11 fyrirtækja, en 24 umsóknir bárust ráðuneytinu. Á kvótaárinu náðust um 300 tonn til áframeldis og voru því um 200 tonn eftir til ráðstöfunar á fiskveiðiárinu 2002/2003. Ástæðan fyrir því að ekki náðist að fanga allan kvótann var að stórum hluta vegna þess að honum var ekki deilt út fyrr en seinni hluta júní og voru því aðeins um tveir mánuðir af fiskveiðiárinu sem unnt var að nota til föngunar á fiski. Með úthlutun á þorskeldiskvóta hefur átt sér stað mikil aukning í áframeldi á þorski hér við land. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki hafa nú hafið þorskeldi og má gera ráð fyrir verulegri framleiðsluaukningu á næstu árum, en á árinu 2002 voru framleidd um 205 tonn af eldisþorski. Mest af þorskinum var fangað í dragnót, en einnig var fiskur tekinn í leiðigildru, handfæri og línu. Veruleg afföll voru á þorski sem tekinn var á djúpu vatni en lítil afföll á fiski sem tekinn var á grunnu vatni. Í flestum tilvikum var fiskurinn sem fangaður var til áframeldis um tvö kg að þyngd. Á árinu 2002 var þorskeldi stundað á 13 stöðum við landið og gekk eldið að mörgu leyti nokkuð vel þó svo að ýmsa þætti þurfi að bæta til að tryggja betri rekstur. Í flestum tilvikum var loðna notuð sem fóður. Við fóðrunina voru m.a. notaðar fóðurkvíar sem í var sett frosið fóður sem fiskurinn síðan át þegar það þiðnaði. Í flestum tilvikum var fóðurstuðulinn yfir 4,0 en það er tiltölulega hár fóðurstuðull. Háan fóðurstuðul má í sumum tilvikum skýra með orkulitlu fóðri og yfirfóðrun. Dagvöxtur mældist allt frá 0,16% upp í 0,57%. Í lengri eldistilraunum (240-373 dagar) reyndist dagvöxturinn 0,27-0,38% en dagvöxturinn hefði átt að vera um 0,3% miðað við vaxtajöfnu fyrir þorsk. Besti dagvöxturinn var í stuttum eldistilraunum sem að hluta má skýra með uppbótarvexti hjá horuðum fiski í upphafi eldisins. Vel fóðraður eldisþorskur er belgmikill og mældist slóghlutfall á bilinu 18-30% af heildarþyngd. Hlutfall lifrar var 9-17% af heildarþyngd og er líklegt að mismunandi fituinnihald í fóðrinu skýri þennan mun að miklu leyti. Seinni hluta ársins var hærra hlutfall af sviljum en hrognum í fiski t.d. 15,5% á móti 5,3% í einni tilraunni. Helsta gæðavandamálið við vinnslu á eldisfiskinum var los í holdi. Svelti í lengri tíma á fiski sem hafði verið u.þ.b. hálft ár í eldi bar oftast takmarkaðan árangur. Líklegt er að fiskurinn þurfi að vera í lengri tíma í eldi til að hann nái að jafna sig eftir mikinn vöxt í upphafi eldisins. Við flökun á eldisþorski náðist hærri flakanýting og hærra hlutfall í dýrari pakkningar samanborið við villtan þorsk. Lagt er til að megináhersla við rannsókna- og þróunarvinnu á næstu árum verði lögð á að þróa betri aðferðir við föngun á þorski, bæta gæði eldisþorsks sérstaklega m.t.t. loss í holdi, bæta fóðurnýtingu, draga úr kynþroska og minnka líkur á því að eldisþorskur geti sloppið úr sjókvíum. |
is |