#

Þorskeldiskvóti : yfirlit yfir föngun og áframeldi þorsks á árinu 2003

Skoða fulla færslu

Titill: Þorskeldiskvóti : yfirlit yfir föngun og áframeldi þorsks á árinu 2003Þorskeldiskvóti : yfirlit yfir föngun og áframeldi þorsks á árinu 2003
Höfundur:
URI: http://hdl.handle.net/10802/4151
Útgefandi: Hafrannsóknastofnunin
Útgáfa: 2005
Ritröð: Hafrannsóknastofnunin., Fjölrit Hafrannsóknastofnunar ; 113
Efnisorð: Þorskur; Fiskveiðistjórnun; Þorskeldi
Tungumál: Íslenska
Tengd vefsíðuslóð: http://www.hafro.is/Bokasafn/Timarit/kvotask-04.pdf
Tegund: Skýrsla
Gegnir ID: 991002654509706886
Athugasemdir: Abstract: s. 6Myndefni: myndir, línurit, töflur
Útdráttur: Með úthlutun á árlegum 500 tonna þorskeldiskvóta hefur átt sér stað mikil aukning í áframeldi á þorski. Fyrsta úthlutun var fyrir fiskveiðiárið 2001/2002 og er nú lokið við þrjár úthlutanir af fimm. Á fiskveiðiárinu 2003/2004 sóttu 16 fyrirtæki um tæplega 830 tonna kvóta til áframeldis, en til ráðstöfunar voru 500 tonn, sem 12 fyrirtæki fengu að þessu sinni. Á árinu 2003 var slátrað um 390 tonnum af þorski úr áframeldi sem er veruleg aukning frá árinu 2002 en þá var slátrað um 205 tonnum. Birgðir af lifandi áframeldisþorski fóru úr um 145 tonnum í byrjun ársins upp í um 590 tonn í lok ársins. Gerður er greinarmunur á slátruðu magni og framleiðslu. Með framleiðslu er átt við lífþungaaukningu í eldinu. Á árinu 2003 var framleiðslan um 380 tonn en aðeins rúm 80 tonn á árinu 2002. Áætlað er að framleiðslan verði um 800 tonn á árinu 2004 og spá fyrir árið 2005 er um 1.300 tonn.

Skilyrði til þorskeldis m.t.t. sjávarhita voru góð á árinu 2003. Engin teljandi afföll urðu á fiski og aðeins lítils háttar tjón á búnaði. Erfiðlega hefur gengið að ná öllum kvótanum m.a. vegna þess að úthlutunin hefur komið of seint á kvótaárinu og að reynsla og þekking á því að fanga lifandi þorsk hefur ekki verið nægileg. Á árinu 2003 náðust aðeins um 450 tonn af þorski til áframeldis. Af úthlutun kvóta ársins 2002/2003 eru nú til ráðstöfunar á árinu 2004 um 245 tonn og með úthlutun kvótaársins 2003/2004 eru til ráðstöfunar samtals um 745 tonn. Mest af fiskinum var fangað í dragnót, einnig voru notaðar gildrur, handfæri, lína og rækjuvarpa.

Á árinu 2003 var þorskeldi stundað á 17 stöðum allt í kringum landið. Heildareldisrými stöðvanna var rúmlega 90.000 rúmmetrar. Áframeldisþorskur var aðallega fóðraður með loðnu og algengt að notaðar væru fóðurkvíar við fóðrun á fiskinum. Í flestum tilvikum var fóðurstuðullinn yfir 4,0 en háan fóðurstuðul má að nokkru leyti skýra með yfirfóðrun. Dagvöxtur á ómerktum 2-4 kg fiski sem fangaður var árið 2003 mældist allt frá 0,21-0,45%. Dagvöxtur á fiski sem fangaður var árið 2002 (meðalþyngd 2,5-7,0 kg) var jafnari eða frá 0,23-0,28%. Á merktum fiski mældist dagvöxturinn 0,17-1,11%, en e.t.v. má rekja hæstu tölurnar til uppbótarvaxtar og mæliskekkju. Það virtist draga verulega úr vaxtarhraða hjá stærsta fiskinum um sumarið þegar sjávarhitinn fór upp í 13-14°C við sunnan- og vestanvert landið. Stærsti hluti áframeldisþorska verða kynþroska fyrsta haustið en við það dregur úr vaxtarhraða og fóðurstuðullinn hækkar. Verið er að kanna áhrif ljósastýringar á kynþorska og vöxt hjá þorski. Þéttleiki á þorski í kvíum var mjög breytilegur en í flestum tilvikum á milli 10 og 20 kg/m³. Skoðað var samhengi á milli þéttleika og dagvaxtar án þess að hægt væri að sýna fram á áhrif þéttleika á vöxt, en mælingarnar eru ennþá of fáar til að draga ályktanir út frá fyrirliggjandi gögnum. Mestu afföll á þorski urðu við föngun, flutning og fyrstu dagana í aðlögun að eldisaðstæðum. Um 10.000 þorskar sluppu úr sjókvíum á árinu 2003 og vart varð við töluvert sjálfrán í kvíum þar sem stærðardreifing var mikil. Á árinu 2003 greindist víbróveiki (Vibrio anguillarum) og kýlaveikibróðir (Aeromonas salmonicida ssp. achromogenes ) í áframeldisþorski.

Hlutfall innyfla í áframeldisþorski var á bilinu 18-29% af heildarþyngd. Hæst var það 24-29% í mælingum í febrúar sem rekja má til þyngdaraukningar á kynkirtlum rétt fyrir hrygningu. Mikið los í holdi hefur oft einkennt þorsk úr áframeldi sérstaklega fiska sem hafa verið nokkra mánuði í eldi. Ef fiskurinn er hafður í lengri tíma í eldi hægir á vextinum og holdið styrkist. Þorskur úr áframeldi er holdmeiri en villtur þorskur og því verður nýting betri við flökun og flatningu. Þykkari flök á áframeldisþorski gefa hærra hlutfall í dýrari pakkningar.

Hjá Hagstofu Íslands er áframeldisþorskur ekki aðskilinn frá villtum þorski og liggja því ekki fyrir upplýsingar um útflutt magn og verðmæti. Þorskurinn var yfirleitt fluttur út ferskur heill eða sem flök. Í markaðskönnun kom fram að viðskiptavinir væru ekki tilbúnir til að greiða hærra verð fyrir áframeldisþorsk en villtan þorsk. Lagt er til að megináhersla við rannsókna- og þróunarvinnu á næstu árum verði að þróa betri aðferðir við föngun á þorski, draga úr fóðurkostnaði, þróa aðferðir til að draga úr kynþroska, auka nýtingu og verðmæti innyfla, rannsaka hvernig hægt er að draga úr stærðardreifingu í kvíum og leita leiða við að draga úr losi í holdi hjá áframeldisþorski.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
kvotask-04.pdf 1.506Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta