#

Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2011

Skoða fulla færslu

Titill: Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2011Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2011
URI: http://hdl.handle.net/10802/3459
Útgefandi: Umboðsmaður Alþingis
Útgáfa: 10.2012
Efnisorð: Stjórnsýsla
ISSN: 1670-3634
Tungumál: Íslenska
Tegund: Ársskýrsla
Athugasemdir: Sú skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2011, sem hér fylgir, er tekin saman og send Alþingi í samræmi við 12. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í skýrslunni er gerð grein fyrir starfsemi umboðsmanns á árinu 2011 þar sem leitast er við að draga saman upplýsingar um starfsemina og gera þær aðgengilegar fyrir Alþingi og birta um leið opinberlega. Álit og aðrar niðurstöður umboðsmanns eru að jafnaði birtar þegar þær liggja fyrir á heimasíðu umboðsmanns (sjá: www.umbodsmadur.is). Því er látið við það sitja að birta aðeins í skýrslunni reifanir og útdrætti einstakra mála sem umboðsmaður hefur fjallað um og talið er tilefni til þess að gera Alþingi grein fyrir.

Eins og áður hefur verið lögð áhersla á að afla upplýsinga um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum umboðsmanns og gera Alþingi grein fyrir þeim. Í skýrslunni er gerð grein fyrir álitum og bréfum sem ég lauk sjálfur en einnig koma fram í skýrslunni upplýsingar um mál sem Róbert R. Spanó, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, lauk á árinu 2011 sem settur umboðsmaður. Róbert var sumarið 2010 settur af hálfu forsætisnefndar Alþingis sem umboðsmaður Alþingis í tilteknum málum sem þá voru til lokaafgreiðslu og hann hafði unnið að sem settur umboðsmaður á meðan ég var í leyfi frá daglegum störfum umboðsmanns vegna starfa í rannsóknarnefnd Alþingis.

Á árinu 2011 fjölgaði þeim kvörtunum sem bárust umboðsmanni um 40% frá árinu 2010. Sambærilega þróun í aukningu mála mátti merkja fram eftir þessu ári. Þessi mikla aukning nýrra mála hefur sett mark sitt á starfsemi umboðsmanns síðustu tvö ár og leitt til þess að mikið álag hefur verið á mér og starfsfólki mínu. Af því leiðir að afgreiðslutími þeirra mála sem þarfnast ítarlegri athugunar við hefur lengst verulega umfram það sem ég tel ásættanlegt. Þá hefur þessi staða jafnframt leitt til þess að nánast ekkert hefur verið hægt að sinna frumkvæðismálum, hvorki þeim málum sem tekin hafa verið til athugunar né nýjum. Sama má segja um vettvangsathuganir í stofnunum, t.d. þar sem frelsissviptir eru vistaðir, eða athuganir á almennum starfsháttum stjórnvalda. Ég hef því talið rétt að gera Alþingi sérstaklega grein fyrir þessari þróun mála í meðfylgjandi skýrslu. Hins vegar verður það að vera verkefni Alþingis að taka afstöðu til þess hvaða umgjörð það vill búa starfi umboðsmanns Alþingis í formi starfsheimilda og fjárveitinga, og þar með hvernig hann á að vera í stakk búinn til þess að sinna því verkefni sem honum er falið af Alþingi við að greiða götu borgaranna í samskiptum þeirra við stjórnvöld og gæta að því að stjórnsýslan leysi úr málum þeirra í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti, og nú síðast tilteknar siðareglur.

Samkvæmt lögum um umboðsmann Alþingis skal prenta skýrslu umboðsmanns og birta árlega fyrir 1. september. Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið hafa annir í starfi umboðsmanns að undanförnu orðið til þess að seinka vinnu við frágang þessarar skýrslu. Hér þurfti að forgangsraða málum. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki skilað þessari skýrslu innan lögmæltra tímamarka og vona að það komi ekki að sök við umfjöllun Alþingis um skýrsluna.

Reykjavík, 1. október 2012.

Tryggvi Gunnarsson.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
skyrsla_2011.pdf 854.5Kb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta