#

Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra : Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur

Skoða fulla færslu

Titill: Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra : Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbæturVernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra : Lagaleg og stjórnsýsluleg staða og tillögur um úrbætur
Höfundur: von Schmalensee, Menja ; Kristinn H. Skarphéðinsson ; Hildur Vésteinsdóttir 1983 ; Tómas G. Gunnarsson ; Páll Hersteinsson 1951-2011 ; Auður Lilja Arnþórsdóttir 1961 ; Hólmfríður Arnardóttir 1964 ; Sigmar B. Hauksson 1950
URI: http://hdl.handle.net/10802/3382
Útgefandi: Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Útgáfa: 03.04.2013
Efnisorð: Villt dýr; Dýravernd; Dýraveiðar
Tungumál: Íslenska
Tegund: Skýrsla
Athugasemdir: Fyrir um 19 árum tóku gildi lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994 (hér eftir nefnd villidýralög), en markmið þeirra er að tryggja viðgang og náttúrulega fjölbreytni villtra dýrastofna, skipulag veiða og annarrar nýtingar dýra, svo og aðgerðir til þess að koma í veg fyrir tjón sem villt dýr kunna að valda.
Á síðustu áratugum hefur Ísland staðfest ýmsa alþjóðlega samninga sem lúta að verndun dýra og búsvæða þeirra og kalla sumir þeirra á breytingar í íslenskri löggjöf eða endurskoðun á stjórnsýslu málaflokksins. Auk þess hafa komið fram á sjónarsviðið alþjóðlegar tilskipanir og viðmið varðandi vernd og veiðar villtra dýra sem æskilegt er að hafa til hliðsjónar eða innlima hér á landi eftir því sem ástæða þykir til (sjá 2. kafla).
Villidýralögunum hefur verið breytt næstum árlega frá því að þau tóku gildi eða alls 19 sinnum, án þess að einstakir kaflar þeirra eða lögin sjálf hafi verið skoðuð í heild. Í ljósi þess og breyttra aðstæðna frá því að villidýralögin tóku gildi, ásamt því að komið hafa fram annmarkar á þeim, var orðið tímabært að víðtæk endurskoðun þeirra færi fram.
Hinn 9. júlí 2010 skipaði umhverfisráðherra nefnd sem samkvæmt erindisbréfi var ætlað að varpa skýru ljósi á lagalega stöðu villtra spendýra og fugla á Íslandi, m.a. með tilliti til dýraverndarsjónarmiða, og leggja fram tillögur um úrbætur með það að leiðarljósi að uppfylla markmið gildandi laga og þeirra alþjóðlegu samninga sem Ísland er aðili að og varða verndun villtra spendýra og fugla og veiðar á þeim. Vinna nefndarinnar átti ekki að einskorðast við að rýna framkvæmd villidýralaganna, heldur átti hún að taka til skoðunar vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, þar með talið selum og hvölum, í víðu samhengi. Nefndin átti því einnig að skoða önnur lög er tengjast viðfangsefninu eftir því sem ástæða þótti til. Þá átti nefndin að vinna eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum, sem byggir á meginreglum umhverfisréttar með sérstaka áherslu á náttúruvernd, og að staða hennar innan stjórnarráðsins verði styrkt til muna. Einnig átti nefndin að taka fugla- og vistgerðartilskipanir Evrópusambandsins til sérstakrar skoðunar.
Nefndin var þannig skipuð:
Menja von Schmalensee (líffræðingur og sviðsstjóri á Náttúrustofu Vesturlands), formaður, skipuð án tilnefningar.
Auður Lilja Arnþórsdóttir (dýralæknir og sérfræðingur á sviði heilbrigðis og velferðar dýra hjá Matvælastofnun), tilnefnd af Dýralæknafélagi Íslands.
Hildur Vésteinsdóttir (umhverfis- og auðlindafræðingur og sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun), tilnefnd af Umhverfisstofnun.
Hólmfríður Arnardóttir (sérfræðingur og framkvæmdastjóri Fuglaverndar), skipuð án tilnefningar.
Kristinn Haukur Skarphéðinsson (líffræðingur og sviðsstjóri á Náttúrufræðistofnun Íslands), tilnefndur af Náttúrufræðistofnun Íslands.
Páll Hersteinsson (líffræðingur og prófessor í spendýrafræði við Háskóla Íslands), skipaður án tilnefningar.
Sigmar B. Hauksson (fjölmiðlamaður og formaður Skotveiðifélags Íslands), tilnefndur af Skotveiðifélagi Íslands.
Tómas Grétar Gunnarsson (líffræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Suðurlandi), tilnefndur af frjálsum félagasamtökum á sviði náttúruverndar.
Þórunn Elfa Sæmundsdóttir, ritari umhverfis- og auðlindaráðherra, var starfsmaður nefndarinnar.
Breytingar urðu á nefndinni er leið á starf hennar, vegna óvænts og mjög sorglegs fráfalls tveggja nefndarmanna, sem báðir létust eftir skammvinn veikindi. Páll Hersteinsson lést þann 13. október 2011 og Sigmar B. Hauksson þann 24. desember 2012. Enginn nýr nefndarmaður var skipaður í stað Páls en Arne Sólmundsson, varaformaður Skotveiðifélags Íslands, varð tengiliður nefndarinnar við félagið eftir fráfall Sigmars. Bæði Páll og Sigmar höfðu á ævi sinni mótandi áhrif á vernd og veiðar á villtum dýrum og er þeirra sárt saknað.
Vinna nefndarinnar er fyrsti áfanginn í því ferli að semja nýtt lagafrumvarp sem tekur til verndar, velferðar og veiða á villtum fuglum og spendýrum. Tilgangurinn var að stefna saman sérfræðingum með þekkingu á náttúruvernd, náttúrufræðum, veiðum og alþjóðasamningum á sviði veiða og náttúruverndar til að taka saman heildaryfirlit um lagalega stöðu villtra fugla og spendýra og setja fram tillögur um úrbætur. Skýrsla þessi, sem í efnismeðferð svipar til hvítbókar (sbr. Hvítbók um náttúruvernd frá 2011), er afrakstur þeirrar vinnu. Ætlunin er að lögfróðir sérfræðingar hafi skýrsluna að leiðarljósi við að semja sjálfan lagatextann í frumvarp að nýjum villidýralögum, en vakin er athygli á því að enginn lögfræðimenntaður einstaklingur átti sæti í nefndinni og er mögulegt að textinn litist að nokkru leyti af því. Er með þessu fyrirkomulagi gerð tilraun til að tryggja að ný lög verði eins og best verður á kosið bæði efnislega og í lagalegu tilliti. Þrátt fyrir að almenn sátt ríki í nefndinni um efni skýrslunnar er vert að benda á að hér er um að ræða niðurstöður umræðna og oft á tíðum málamiðlana og er því ekki víst að allar tillögurnar endurspegli sjónarmið einstakra stofnana, samtaka eða einstaklinga að öllu leyti.
Við vinnu sína hafði nefndin það að leiðarljósi að veita sem víðtækasta yfirsýn um þau málefni sem henni var ætlað að skoða. Auk þess var lögð áhersla á umfangsmikið samráð við bæði fagaðila og hagsmunaaðila. Nefndin fundaði samtals 38 sinnum. Fundir voru yfirleitt heilsdagsfundir, en undir lok vinnunnar var í einhverjum mæli notast við styttri símafundi. Segja má að vinna nefndarinnar hafi skipst í þrjár lotur:
1) Strax í upphafi vinnunnar var með samráðsbréfi óskað sérstaklega eftir ábendingum frá 77 aðilum. Nefndinni bárust skriflegar ábendingar frá 21 þeirra og auk þess átti hún 12 samráðsfundi með mismunandi aðilum. Í þessari fyrstu lotu vinnunnar var efni skýrslunnar kortlagt og farið yfir öll þau atriði sem nefndin taldi nauðsynlegt að skýrslan næði til. Auk samráðs á formi innsendra ábendinga og samráðsfunda áttu nefndarmenn óformlega fundi og samtöl um afmörkuð málefni við ýmsa aðra aðila. Þá lögðust nefndarmenn í ítarlega heimildavinnu og tóku til skoðunar þá alþjóðlegu samninga og viðmið sem málefninu tengjast, auk þess að fara í saumana á fjölda skýrslna, greinargerða, vísindagreina og mismunandi laga er málefninu tengjast. Heimildaskrá þessarar skýrslu gefur góða mynd af þeirri vinnu, en þar er vitnað til meira en 700 heimilda. Þá er í II. viðauka skýrslunnar að finna heildaryfirlit um þau lög sem skoðuð voru. Fyrstu drög að skýrslu nefndarinnar lágu fyrir við lok þessarar lotu.
2) Í annarri lotu mótaði nefndin fjölda meginreglna, sem byggðu á meginreglum settum fram í þeim alþjóðasamningum sem Ísland hefur fullgilt auk annarra upplýsinga sem nefndin hafði aflað sér og taldi æskilegt að hafa að leiðarljósi. Með hliðsjón af meginreglunum fór nefndin yfir allar sínar tillögur að nýju og mátaði þær við reglurnar. Með þessu móti skerptust tillögurnar og lá í lok þessarar lotu fyrir nokkuð fullmótuð skýrsla.
3) Í þriðju lotunni var, í anda þess að hafa sem víðtækast samráð, ákveðið að gefa 27 aðilum úr röðum sérfræðinga og valdra fulltrúa hagsmunaaðila kost á að lesa skýrsluna að hluta eða í heild og koma ábendingum til nefndarinnar um það sem að þeirra mati mætti betur fara. Barst nefndinni yfirlesinn texti með ábendingum frá 16 þessara aðila, auk athugasemda á öðru formi frá 5 aðilum til viðbótar. Með það fyrir augum að reyna að skapa sem besta sátt um tillögur nefndarinnar og fyrirbyggja
misskilning um einstök atriði fór hún ítarlega yfir allar innsendar athugasemdir og tillögur yfirlesara og voru í kjölfarið gerðar margvíslegar breytingar á texta skýrslunnar og tillögum nefndar.
Þess skal getið að í I. viðauka má finna nánari upplýsingar varðandi samráð nefndarinnar, s.s. eintak af samráðsbréfi, lista yfir samráðsaðila og samráðsfundi auk allra þeirra skriflegu ábendinga sem nefndinni bárust í fyrstu lotu vinnunnar. Einnig er þar að finna upplýsingar um þá aðila sem boðinn var yfirlestur í þriðju lotu og hverjir þeirra skiluðu yfirlesnum texta með ábendingum eða komu athugasemdum á framfæri við nefndina á annan hátt.
Þrátt fyrir að nefndinni hafi fyrst og fremst verið ætlað að skoða lagalega stöðu villtra fugla og spendýra kom fljótlega í ljós í starfi hennar að ýmissa annarra úrbóta var þörf til að bæta verndarstöðu villta fugla og spendýra, tryggja að nytjar á þeim séu sjálfbærar og að alþjóðasamningar séu uppfylltir varðandi þessa þætti. Þess vegna setur nefndin í einhverjum tilfellum einnig fram tillögur um stjórnsýslulegar úrbætur eða setur fram almennar ábendingar til stjórnvalda. Eðli málsins samkvæmt verður yfirlit sem þetta, þrátt fyrir að vera efnismikið, seint tæmandi. Samt sem áður hefur aldrei fyrr verið tekið saman jafn ítarlegt yfirlit um stöðu villtra fugla og spendýra á Íslandi m.t.t. verndar þeirrar og veiða og telur nefndin að skýrslan geti gagnast fleirum en þeim aðilum sem taka við keflinu við gerð nýs lagafrumvarps. Skýrslan hefur almenna skírskotun sem nýst getur við ýmiss konar stefnumótun yfirvalda og stofnana á sviði náttúrufræða og umhverfismála, auk mögulegrar nýtingar við kennslu og til annarrar fræðimennsku á þessu sviði.
Við skrif skýrslunnar var leitast við að hver kafli gæti staðið nokkuð sjálfstæður en efni sumra þeirra er hins vegar nátengt. Því er óhjákvæmilegt að einhverjar endurtekningar megi finna milli kafla, þótt reynt hafi verið að halda þeim í lágmarki og er þá vísað í aðra kafla eftir því sem við á. Innan hvers kafla skýrslunnar er að finna sérstaka undirkafla með heildartillögum um úrbætur, en auk þess má finna athugasemdir við einstakar lagagreinar núverandi laga í III. viðauka. Þá er í skýrslunni að finna þrjár gerðir af boxum, sem gerð voru til að auðvelda lestur. Í grænum boxum má finna stutta samantekt á núverandi stöðu mála, í rauðum boxum má finna atriði sem nefndin vill leggja sérstaka áherslu á og loks er í bláum boxum að finna stuttar rammagreinar um afmarkað efni, sem líta má á sem ítarefni. Nefndarmenn rituðu texta skýrslunnar og var hafður sá háttur á að einstakir nefndarmenn báru ábyrgð á ákveðnum köflum. Því ber skýrslan þess óhjákvæmilega merki að hún er unnin af mörgum og er framsetningin því að einhverju leyti frábrugðin milli eða jafnvel innan kafla. Þess skal þó getið að efnislega komu allir nefndarmenn að vinnu hvers kafla.
Nefndarmenn fengu ekki greitt fyrir setu sína í nefndinni og þá vinnu sem stunduð var milli funda, sem var umtalsverð. Í einhverjum tilfellum gátu þeir stundað hluta nefndarvinnunnar á sínum vinnutíma og er framlag þeirra stofnana sem um ræðir til þessarar skýrslu því verulegt. Þá lagði talsverður fjöldi fólks á sig vinnu í tengslum við samráðsferli og aðra vinnu nefndarinnar án þess að fá greiðslu fyrir. Var þetta til að mynda í tengslum við innsendar ábendingar til nefndarinnar, samráðsfundi og yfirlestur á skýrslunni, en einnig í tilfellum þegar nefndin leitaði sér upplýsingar, ráðgjafar eða annarrar aðstoðar, ýmist innan eða utan þeirra stofnana sem nefndarmenn störfuðu á. Er öllum þessum aðilum þakkað kærlega fyrir sitt framlag.
Um það leyti sem nefndin gekk endanlega frá texta skýrslunnar voru lagafrumvörp um náttúruvernd og dýravelferð til meðferðar á Alþingi. Lög þessa efnis voru samþykkt í lok mars 2013. Báðir þessir málaflokkar tengjast efni skýrslunnar og tillögum nefndarinnar. Var því reynt að uppfæra skýrsluna með hliðsjón af þessum nýju lögum eins og kostur var.
Framsetning skýrslunnar tekur mið af þeirri uppbyggingu nýrra villidýralaga sem nefndin telur æskilega. Nefndin leggur þannig til að ný lög taki ekki mið af kaflaskiptingu núgildandi laga, heldur að aðalefnistök þeirra verði í þrem megin köflum: vernd, velferð og veiðar. Því væri eðlilegt að ný villidýralög væru lög um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra, en nefndin telur eðlilegt að gera bæði verndar- og velferðarsjónarmiðum hærra undir höfði en nú er gert, án þess að það þurfi að koma niður á sjálfbærri nýtingu veiðistofna eða réttlætanlegar veiðar til að koma í veg fyrir tjón.
Vegna athafna mannsins hefur dýralíf á Vesturlöndum tekið miklum breytingum undanfarnar aldir. Á Íslandi hafa áhrif búsetu, einkum gróður- og jarðvegseyðing og framræsla votlendis án efa haft gríðarleg áhrif á útbreiðslu og stofnstærð margra tegunda. Breytt loftslag af mannavöldum kann að hafa enn stórkostlegri breytingar í för með sér á næstu áratugum. Þótt lagaumhverfi mótist jafnan af almenningsviðhorfi á hverjum tíma, er mikilvægt að hafa í huga að lög geta einnig haft mótandi áhrif á almenningsviðhorf og þannig umgengni manna við aðrar tegundir. Því er afar mikilvægt að ný lög um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra verði grundvöllur þess að Íslendingar geti lifað í sátt við villt dýralíf þessa lands með þekkinguna og sjálfbærni að leiðarljósi.
Útdráttur: Markmið þessarar skýrslu er að gefa heildaryfirlit um fjölbreytt laga- og stjórnsýsluumhverfi í tengslum við vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og spendýrum landsins. Farið hefur verið ítarlega yfir núverandi stöðu og eru hér settar fram tillögur um úrbætur sem ætlað er að tryggja öllum villtum fuglum og spendýrum viðunandi vernd fyrir fjölbreyttum umsvifum mannsins og að allar nytjar séu ávallt sjálfbærar. Skýrslan er hugsuð sem grunnur sem megi byggja nýja löggjöf á. Til samræmis við skipunarbréf nefndarinnar hefur verið reynt að líta á málaflokkinn í mjög víðu samhengi. Þar af leiðandi eru einnig í einhverjum tilfellum settar fram almennar tillögur til ábyrgðaraðila, enda væri erfitt að líta fram hjá slíkum atriðum þegar málaflokkurinn er skoðaður í jafn víðtæku ljósi og hér hefur verið gert. Tillögur nefndarinnar geta þannig beinst að ólíkum markhópum og átt við á mismunandi stjórnsýslustigum, en eru settar fram með það í huga að málefni villtra dýra myndi eina samhangandi heild, óháð núverandi stjórnsýslufyrirkomulagi.
Nefndin hafði víðtækt samráð á mismunandi stigum vinnunnar (sjá nánar í I. viðauka um samráð) og tók til skoðunar fjölda ólíkra sjónarmiða frá mismunandi aðilum er málinu tengdust, en leit auk þess til alþjóðlegra viðmiða og nýjustu þekkingar í vísindaheiminum. Í starfi sínu reyndi nefndin eftir bestu getu að samþætta öll þau ólíku sjónarmið sem fram komu við þessa rýnivinnu. Í tillögunum er bæði litið til hagsmuna mannsins og náttúrunnar, á þann veg að svigrúm sé fyrir umsvif mannsins að uppfylltum þeim kröfum sem felast í helstu meginreglum umhverfisréttar og þeim alþjóðasamningum á sviði náttúruverndar sem Ísland hefur fullgilt eða ætti að hafa til hliðsjónar.
Í þessari samantekt verður stiklað á stóru varðandi helstu niðurstöður nefndarinnar. Samantektin er tvískipt. Í fyrri hlutanum er leitast við að veita innsýn í mikilvægustu
áherslur nefndarinnar þvert á efnistök einstakra kafla skýrslunnar. Seinni hlutinn er nokkurs konar leiðarvísir um skýrsluna, þar sem farið er yfir meginatriði hvers kafla.
Bent er á að utan þessarar samantektar má í hverjum kafla skýrslunnar finna undirkafla með samanteknum niðurstöðum og tillögum nefndarinnar. Þá má í mörgum köflum skýrslunnar finna græn box með samantekt á núverandi stöðu mála en atriði sem nefndin vill leggja sérstaka áherslu á má m.a. finna í rauðum boxum.
Megináherslur nefndar
Nefndin telur mikilvægt að endurskoðuð löggjöf og stjórnsýsla taki mið af þremur lykilstoðum í málefnum villtra dýra: Vernd, velferð og veiðum. Hver þessara þátta á að mynda rammgerða undirstöðu sem frekari útfærslur byggja á. Í núverandi löggjöf er lögð áhersla á veiðar, og hafa almenn vernd og velferðarmál villtra dýra því að nokkru leyti orðið út undan, þó komið sé inn á þessa þætti í villidýralögum, lögum um dýravernd (dýravelferð), náttúruvernd eða öðrum lögum. Nefndin telur að gera þurfi vernd og velferðarmálum villtra dýra mun hærra undir höfði en nú er gert og að ný lög um villt dýr verði því „lög um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra“, þar sem hver stoð myndar lykilkafla í nýjum lögum. Þá telur nefndin mikilvægt að engar tegundir verði undanskildar þessum lykilstoðum og að ný lög ná til allra fugla og spendýra Íslands, þar með talið sela og hvala.
Einn mikilvægasti liðurinn í starfi nefndarinnar var mótun fjölda meginreglna, sem tillögur hennar byggjast á. Þessar meginreglur voru gerðar með hliðsjón af annars vegar a) alþjóðasamningum, s.s. Parísar-, Ramsar-, Bernar-, OSPAR-, CITES-, Árósa- og Bonn-samningnum, ásamt hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Auk þess hafði nefndin t.d. vatna-, fugla-, og vistgerðatilskipun Evrópusambandsins til hliðsjónar, en gerður var greinarmunur á samningum/tilskipunum sem Ísland hefur fullgilt og öðrum. Hins vegar var litið til b) valdra meginreglna umhverfisréttar, og þá helst meginreglna um sjálfbæra þróun, um samþættingu, um fyrirbyggjandi aðgerðir, auk varúðarreglunnar. Þar fyrir utan voru Addis Ababa- og Malawi-reglurnar hafðar til hliðsjónar, en þær taka til sjálfbærrar nýtingar líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfisnálgunar á stjórnun auðlinda.
Meginreglur nefndarinnar eru, eins og gefur að skilja, misjafnlega umfangsmiklar, en nokkrar þeirra leggja grunninn að heildarstefnu sem tillögur nefndarinnar endurspegla. Að mati nefndarinnar ættu meginreglurnar, ásamt framangreindum meginreglum umhverfisréttar, að vera hluti af markmiðum nýrra laga. Þær eru:
* Stuðla skal að því að náttúran fái að þróast eftir eigin lögmálum.
* Tryggja skal vernd villtra dýrastofna, þ.e. að öll villt dýr séu í grunninn friðuð og að litið sé á þau sem skyni gæddar verur, sem koma skuli fram við af virðingu og með velferð þeirra að leiðarljósi.
* Tryggja skal að ekki sé gengið á búsvæði villtra dýra í þeim mæli að það ógni viðgangi og náttúrulegri fjölbreytni þeirra.
* Tryggja skal að villt dýr njóti verndar fyrir hvers konar umsvifum mannsins eða annarra lífvera á hans vegum, sem ógnað gætu viðgangi og náttúrulegri fjölbreytni þeirra.
* Tryggja skal að: i) Aflétting friðunar og leyfi til veiða byggi á haldbærum upplýsingum um stofnstærð og veiðiþol viðkomandi stofns eða um tjón sem hann kann að valda. Skort á upplýsingum skal túlka villtum dýrum eða náttúru í hag, sbr. varúðarregluna. ii) Veiðiaðferðir taki mið af velferð og líffræði viðkomandi tegundar, m.t.t. ótta, sársauka og dauðastríðs, með það fyrir augum að lágmarka þessa þætti eins og kostur er. iii) Velferð og viðhald veiðistofna séu höfð í
fyrirrúmi umfram hefðir og sérhagsmuni, enda tryggi það sjálfbæra nýtingu og aðgang komandi kynslóða að þeim.
Með þessar og fleiri meginreglur að leiðarljósi ásamt öllum þeim upplýsingum sem nefndin aflaði sér á starfstíma sínum, eru í skýrslunni settar fram tillögur varðandi nýjar skilgreiningar á ýmsum hugtökum, markmið nýrra villidýralaga, umsjón málefna villtra dýra ásamt tillögum í tengslum við vernd, velferð, veiðar, rannsóknir, almenningsfræðslu og eftirlit er varðar villt dýr. Þá er í skýrslunni að finna sérstakan kafla um sjávarspendýr, en í þeim efnum leggur nefndin til algjöra endurskoðun á lagaumhverfi með það fyrir augum að þeim verði tryggð viðeigandi vernd og veiðistjórnun, m.a. með hliðsjón af alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.
Nokkrar umfangsmestu breytingarnar sem nefndin leggur til tengjast umsjón villtra dýra, en skilvirk og skýr umsjón er lykilatriði í því að tryggja viðunandi vernd villtra dýra og sjálfbærar nytjar á þeim. Nefndin telur að hér megi bæta ástandið til muna. Segja má að málefni villtra dýra falli í þrjá meginflokka og verður að tryggja að allir umsjónarþættir varðandi þá, s.s. opinber stefnumótun, rannsóknir og ráðgjöf, umsjón aðgerða, mat á ástandi eftir aðgerðir, almenningsfræðsla og eftirlit, séu vel skilgreindir og þeim sinnt af tilgreindum ábyrgðaraðilum. Meginflokkarnir eru a) vernd, b) sjálfbærar nytjar og c) aðgerðir til að fyrirbyggja tjón. Nefndin leggur til fyrirkomulag varðandi þessa þætti (5. kafli) og fjallar auk þess nánar um þá í sér köflum. Þá leggur nefndin mikla áherslu á að skilgreind verði opinber stofnstjórnunarmarkmið fyrir alla fugla- og spendýrastofna landsins sem geta verið eitt af eftirtöldu:
* Að endurheimta fyrri stofnstærð og/eða útbreiðslu
* Að viðhalda núverandi stofnstærð og/eða útbreiðslu
* Að minnka núverandi stofnstærð og/eða útbreiðslu
* Að útrýma stofni (staðbundið eða á landsvísu) – á eingöngu við um ágengar tegundir.
Þessu fylgir að skilgreind verði töluleg viðmið um hvaða stofnstærð og/eða útbreiðslu miða skuli við í hverju tilfelli. Óhjákvæmilega fylgir þessu einnig að vakta verður marga stofna mun betur en nú er gert til að hægt sé að setja slík viðmið og fylgja þeim eftir. Upplýsingar um stofnstærð og útbreiðslu eru hins vegar forsenda þess að unnt sé að grípa til aðgerða sýni stofn sem á að vernda eða nýta sjálfbært merki hnignunar eða ef stofn ágengrar tegundar sem halda skal í skefjum sýnir merki um þenslu.
Lykilstoðunum þremur; vernd, velferð og veiðum eru gerð ítarleg skil í skýrslunni:
Orðið vernd merkir í íslensku máli vörn, skjól eða hlíf. Óhjákvæmilega fylgir því hugtakinu að um er að ræða vörn fyrir tilteknu fyrirbrigði eða athöfn. „Náttúruvernd” hefur verið skilgreint sem vernd náttúrunnar fyrir manninum og þegar fjallað er um vernd villtra fugla og spendýra er því átt við vernd þessara lífvera fyrir hvers kyns athöfnum mannsins. Nefndin skilgreinir vernd á eftirfarandi hátt: „Varðveisla tegunda og stofna og líffræðilegrar fjölbreytni þeirra þannig að þau viðhaldist á náttúrulegum útbreiðslusvæðum sínum til langs tíma litið. Verndin felur í sér að veiðar eða aðrar aðgerðir, þar með talin skerðing á búsvæðum, lykilbúsvæðum eða lykilstöðum, sem haft geta áhrif á viðkomu eða vanhöld dýra af tiltekinni tegund eða stofni, sé hagað á þann hátt að þeim sé ekki stefnt í hættu.“
Í umfjöllun nefndarinnar um vernd villtra dýra er litið til fjölmargra þátta sem geta haft neikvæð áhrif á villt dýr. Er hér t.d. um að ræða ýmsa atvinnustarfsemi og athafnir sem henni tengjast, s.s. fiskveiðar, orkuframleiðslu og –dreifingu, framkvæmdir af ýmsum toga, landbúnað og náttúrulífstengda ferðaþjónustu. Þá er einnig litið til mengunar, annarra dýra á vegum manna (ágengar tegundir og gælu- og húsdýr) og neikvæð áhrif vegna umferðar. Í tillögum nefndarinnar er lögð áhersla á að úrræði þurfi að vera fyrir hendi til að veita villtum dýrum vernd fyrir þeim fjölbreyttu neikvæðu áhrifum sem stafað
geta af þessum umsvifum og að lagaumhverfi og stjórnsýsla taki mið af því að lágmarka neikvæðu áhrifin eins og kostur er.
Mikilvægustu tillögurnar snúa að vernd mikilvægra búsvæða fyrir villt dýr og endurspeglast þörf á aukinni búsvæðavernd í umfjöllun um flesta þá þætti sem geta haft neikvæð áhrif á villt dýr. Við ákvarðanatöku um vernduð svæði hefur hingað til oft verið litið til þeirra tegunda eða vistgerða sem eru sjaldgæfar eða viðkvæmar, en þetta eru ekki endilega þau svæði sem mikilvægust eru fyrir villt dýr þegar á heildina er litið. Til að vernda mikilvæg búsvæði villtra dýra verður því að beita annarri nálgun og hafa í huga að þótt ákveðin gerð búsvæðis sé tiltölulega algeng (s.s. mólendi eða fjara) getur það verið mikilvægt og skerðing á því haft neikvæðar afleiðingar á dýralíf. Nefndin setur fram fjölda tillagna sem taka mið af þessu og hvetur til þess að komið verði upp neti verndarsvæða sem taka sérstaklega tillit til þarfa villtra fugla og spendýra. Þá er nauðsynlegt að líta á landið í heild þegar ákvarðanir eru teknar sem breyta búsvæði villtra dýra (t.d. vegna ýmiss konar framkvæmda eða skógræktar) og tryggja að nægjanlegt framboð bæði á landsvísu og eftir landshlutum sé á nauðsynlegum búsvæðum til að dýrastofnar landsins geti viðhaldist.
Þegar litið er til verndar villtra dýra er einnig lögð mikil áhersla á skilvirka veiðistjórnun til að koma í veg fyrir ofnýtingu. Í því felst opinber stefnumótun, eins og rætt var hér að framan og að tól séu fyrir hendi til að stýra öllum gerðum af veiðum.
Þegar litið er til velferðar villtra dýra leggur nefndin áherslu á rétt þeirra til að öðlast „frelsin fimm“, þ.e. frelsi 1) frá þorsta, hungri og næringarskorti af völdum manna, 2) frá óþægindum vegna truflunar á umhverfinu af völdum manna, 3) frá ótta og streitu af völdum manna, 4) frá sársauka, skaða og sjúkdómum af völdum manna og 5) til eðlilegs atferlis. Þannig má segja að villt dýr eigi rétt á að geta lifað lífi sínu á náttúrulegan hátt án teljandi áreitis frá mönnum. Í nútímasamfélagi þar sem áhrifa manna gætir svo víða er hins vegar erfitt að uppfylla þetta að fullu, en markmið löggjafar sem tekur til velferðar villtra dýra verður samt sem áður að hafa það að markmiði að stefna að þessu og að frávik frá markmiðunum verði ávallt á þann veg að kappkostað sé að halda neikvæðum áhrifum í lágmarki.
Löggjöf varðandi velferð villtra dýra verður því að endurspegla að öll villt dýr séu skyni gæddar verur sem umgangast skuli af virðingu. Lögð er áhersla á að þetta eigi einnig við um tegundir sem veiddar eru til að fyrirbyggja tjón. Þetta ber ekki að skilja sem svo að óheimilt verði að veiða þessar tegundir, heldur að þær hafi sama rétt og önnur dýr til að komið sé fram við þau með velferð þeirra að leiðarljósi. Nefndin telur einnig mikilvægt að hafa í huga að öll villt dýr eiga sig sjálf, þ.e. enginn hefur eignarrétt yfir villtum dýrum. Landeigendur hafa heimild til að veiða, svokallaðan veiðirétt, og til að ráðstafa veiðum á landareign sinni samkvæmt 8. grein villidýralaganna, en landeigandi eða veiðimaður öðlast ekki eignarrétt yfir villtu dýri fyrr en hann hefur veitt það. Þá fyrst telst það eign hans svo fremi sem veiðarnar brjóti ekki gegn fyrirmælum laga.
Með framangreint í huga er í tillögum nefndarinnar m.a. lögð áhersla á mannúðlegar veiðiaðferðir, að allir sem umgangast villt dýr (s.s. veiðimenn, rannsóknarmenn og ferðaþjónustuaðilar) hafi fengið viðeigandi fræðslu um villt dýr og velferð þeirra og hafi tilskilin leyfi, að til staðar séu úrræði til að koma bágstöddum villtum dýrum til hjálpar og að villt dýr skuli í engum tilfellum hafa í haldi nema með leyfi yfirvalda eða sem liður í því að fagaðilar veiti villtum dýrum tímabundna aðhlynningu.
Stór hluti skýrslunnar fjallar um veiðar. Tillögur nefndarinnar taka mið af fjölda meginreglna varðandi veiðar á villtum dýrum sem nefndin mótaði í starfi sínu og byggja á framangreindum alþjóðasamningum og meginreglum umhverfisréttar. Helstu almennu meginreglurnar varðandi veiði eru:
* Allir fuglar og öll spendýr eru að grunni til friðuð og skal friðun einungis aflétt og veiðar leyfðar í tveimur tilfellum:
o Bráðin er nýtt (til átu eða annarra nota).
o Til að koma í veg fyrir raunverulegt, skilgreint tjón.
* Nytjaveiðar skulu ávallt vera sjálfbærar og úrræði þurfa að vera fyrir hendi til að stjórna þeim.
* Nytjaveiðar (frístunda- og hlunnindaveiðar) skulu að öllu jöfnu einungis vera stundaðar til einkanota en ekki í atvinnuskyni.
* Ekki skal veiða á æxlunartíma dýra nema í sérstökum, skilgreindum tilfellum.
* Veiðiaðferðir skulu miðast við að dýr séu aflífuð á skjótan og sem sársaukaminnstan hátt.
* Ekki skal selja veiðiafurðir nema í skilgreindum undantekningartilfellum.
* Allir sem stunda veiðar skulu hafa hlotið viðeigandi fræðslu og hafa tilskilin réttindi.
Varðandi nytjaveiði á fuglum bætast við meginreglur sem fela í sér að:
* Ekki skal veiða fugla á varptíma.
* Ekki skal veiða fugla er þeir snúa til baka frá vetrarheimkynnum (tímabilið milli komu og varps).
* Ekki skal veiða fugla þegar þeir eru ófleygir.
* Veiðimenn skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að finna og aflífa skotsærða fugla.
Tekið skal fram að nefndin gerir ráð fyrir að í afmörkuðum, skilgreindum tilvikum verði svigrúm fyrir undantekningar frá meginreglunum sem kæmi fram í laga- eða reglugerðasetningu. Það á t.d. við í sumum þeirra tilfella sem veitt er til að koma í veg fyrir tjón, ef ekki er unnt að nýta veiðitegund að öðrum kosti og varðandi tegundir sem leyft verður að selja afurðir af. Nánar er fjallað um veiðifyrirkomulag eftir tegundum í 8. kafla.
Fjallað er um almenn atriði varðandi veiðar (veiðistaði, veiðikort, fræðslu til veiðimanna o.þ.h.). Mikilvægustu tillögur hér snúa að þeim meginreglum að allir þurfi að hafa leyfi til að stunda veiðar og allar veiðar skuli skrá. Þessu fylgir að veiðikort þarf til minkaveiði og einnig er um talsverða breytingu að ræða vegna eggjatöku, en lagt er til að leyfi þurfi fyrir henni og að það sé háð skilyrði um að eggjatakan sé skráð. Einnig eru lagðar til breytingar á málefnum sjávarspendýra, en nefndin leggur áherslu á að veiðikort þurfi vegna veiða á þeim og að allar slíkar veiðar skuli skrá. Þá leggur nefndin til að veiðikortakerfið verði einfaldað og menntun veiðimanna aukin.
Fjallað er um nytjaveiðar, þ.e. hreindýraveiði, fuglaveiði og nýtingu hlunninda. Mikilvægustu tillögurnar snúa að fuglaveiði og nýtingu hlunninda, en í báðum tilfellum leggur nefndin áherslu á að nytjar séu almennt til einkanota og veiðiafurðir ekki seldar. Þó er gert ráð fyrir skilgreindum undantekningum varðandi sölu á veiðiafurðum ef um er að ræða mjög stóra stofna sem ekki sýna merki hnignunar og þola mikla veiði. Varðandi fuglaveiði er lögð áhersla á góða veiðistjórn og að fyrir hendi séu tæki og úrræði til að stýra veiðum. Tekið skal fram að tillögur nefndarinnar miðast við að lagaumhverfið endurspegli „eðlilegar“ aðstæður, þ.e. þegar stofn þolir veiðar og taka því ekki mið af tímabundnu slæmu ástandi ýmissa stofna. Með þetta að leiðarljósi, ásamt meginreglum um fuglaveiði, eru ekki lagðar til umtalsverðar breytingar á skotveiðitíma fugla sem veiddir eru til nytja. Einu breytingarnar sem gerð er tillaga um í þeim efnum er að stytta skotveiðitíma á skörfum og svartfuglum á þann veg að heimilt verði að skjóta skarfa frá 1. september til febrúarloka og að skotveiðitími að vori hjá svartfuglum, þ.m.t. lunda, nái til 15. mars, en hjá öllum þessum tegundum gildir að annars væru skotveiðar stundaðar á varptíma (sjá skilgreiningu á varptíma í 3. kafla skýrslunnar). Nefndin bendir einnig á nokkrar tegundir sem þörf er á að taka til sérstakrar skoðunar vegna mögulegra tímabundinna aðgerða.
Nefndin leggur áherslu á að nýting hlunninda sé ávallt sjálfbær og að hægt verði að stýra henni á sama hátt og annarri nýtingu villtra dýra. Aðrar helstu tillögur snúa að leyfi til eggjatöku og skráningu hennar (eins og fram kom hér að framan). Í einhverjum tilfellum er lagt til að heimildir til eggjatöku verði felldar niður fyrir viðkomandi tegund (súla, díla- og toppskarfur, skúmur, teista, lundi, hrafn og kjói) og byggist það á einu eða fleirum eftirfarandi atriða: Eggjatakan veldur mikilli truflun og getur verið skaðleg fyrir varp, eggin eru ekki nýtt eða að eggjatakan er almennt ekki stunduð í dag. Þá leggur nefndin til að ungatekja verði aflögð, að því undanskyldu að nefndin tekur ekki afstöðu til veiða á fullvöxnum og (nær) fleygum fýlsungum.
Loks fór nefndin ítarlega yfir þær aðstæður þar sem villt dýr eru veidd til að fyrirbyggja tjón. Nefndin leggur áherslu á að tiltæk ráð þurfi að vera fyrir hendi til að draga úr eða koma í veg fyrir tjón, hvort sem notast sé við veiðar eða aðrar aðgerðir. Að því sögðu er þó ljóst að þessi málaflokkur þarfnast mikillar endurskoðunar, en hér er ekki síður um að ræða þörf á ákveðinni hugarfarsbreytingu. Ekki fer milli mála að villt dýr geta valdið tjóni, en í því samhengi er nauðsynlegt að gera skýran greinarmun á a) raunverulegu tjóni og náttúrulegum ferlum, og b) tjóni af völdum upprunalegs villts dýrs og framandi dýrs. Farið er yfir þessa þætti og taka tillögurnar m.a. mið af þeirri meginreglu að náttúran fái að þróast eftir eigin lögmálum. Í heildina leggur nefndin áherslu á að tjón sé skilgreint og raunverulegt og að aðgerðir séu í samræmi við tjónið sem viðkomandi tegund veldur og skili tilætluðum árangri. Þannig er mikilvægt að aðgerðir stuðli í raun að minna tjóni, þ.e. að árangur aðgerða sé ekki mældur í fjölda veiddra dýra heldur í raunverulegri minnkun tjónsins, en þessir þættir fylgjast ekki endilega að. Með þetta í huga eru m.a. lagðar fram tillögur að bættri umsjón varðandi tjón almennt og bættri veiðistjórnun fyrir ref og mink með það að markmiði að nýta betur það fjármagn sem veitt er til þeirra veiða til að draga úr tjóni á landsvísu. Þá er gerð tillaga um endurskoðun á veiðifyrirkomulagi margra fuglategunda sem stimplaðar hafa verið sem tjónvaldar í gegnum tíðina. Þannig er t.d. lagt til að ófriðuðu tegundirnar svartbakur, hrafn, sílamáfur og silfurmáfur verði friðaðar eins og aðrar tegundir í samræmi við meginreglur en með þeirri undantekningu að heimilt verði að veiða þær til að verjast tjóni innan skilgreindra marka friðlýstra æðarvarpa á þeim tíma sem friðlýsing æðarvarpa nær yfir. Auk þess verði í lögunum svigrúm til að veita undanþágur til að verjast tjóni af þeirra völdum við aðrar aðstæður. Kjóa skal friða fyrir veiðum, nema innan marka friðlýstra æðarvarpa, en heimilt verði að sækja um undanþágur til að verjast skilgreindu tjóni af hans völdum. Hins vegar leggur nefndin til að almennt verði ekki heimilt að skjóta hettumáf, ritu, hvítmáf og fýl, enda eru þessar tegundir hvorki skotnar vegna nytja né til að verjast tjóni. Mögulegt verði þó að veita undanþágu til að veiða framangreindar níu tegundir vegna skilgreindra nytja, að uppfylltum helstu meginreglum vegna veiða.
Að lokum skal þess getið að núgildandi villidýralög eru svokölluð rammalög þar sem settar eru fram meginreglur en gert er ráð fyrir að framkvæmd byggi að verulegu leyti á setningu reglugerða. Nefndin telur að við endurskoðun laganna ætti að útfæra með ítarlegri hætti efni þessara reglugerða í lagatexta, setja skýrari línur um efni þeirra og eins styrkja lagaheimildir til að fylgja eftir efni þeirra.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða Lýsing
Vernd-velferd-og-veidar-2013.pdf 8.360Mb PDF Skoða/Opna Skýrsla
Vernd-velferd-veidar-I-vidauki-samrad.pdf 7.129Mb PDF Skoða/Opna Viðauki 1: Samráð
vernd-velferd-v ... og-og-althjodasamninga.pdf 130.7Kb PDF Skoða/Opna Viðauki 2: Listi yfir lög og alþjóðlega samninga
vernd-velferd-v ... kar-greinar-villidyral.pdf 309.2Kb PDF Skoða/Opna Viðauki 3: Athugasemdir við einstaka greinar villidýralista

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta