#

Matvörumarkaðurinn : Verðlagsþróun í smásölu 1996 til 2000

Skoða fulla færslu

Titill: Matvörumarkaðurinn : Verðlagsþróun í smásölu 1996 til 2000Matvörumarkaðurinn : Verðlagsþróun í smásölu 1996 til 2000
URI: http://hdl.handle.net/10802/3346
Útgefandi: Samkeppnisstofnun
Útgáfa: 01.06.2001
Efnisorð: Samkeppni í viðskiptum; Smásala; Matvöruverslanir; Verðlagseftirlit
Tungumál: Íslenska
Tegund: Skýrsla
Athugasemdir: 1.
Á fundi ríkisstjórnarinnar þann 30. maí árið 2000 var samþykkt tillaga viðskiptaráðherra þess efnis að fela Samkeppnisstofnun að kanna orsakir óhagstæðrar þróunar á verði matvöru hér á landi m.a. í ljósi breytinga sem orðið höfðu á gengi erlendra gjaldmiðla misserin þar á undan. Viðskiptaráðherra ritaði stofnuninni bréf þar um þann 31. maí 2000.

Mánuðina áður en ofangreind samþykkt var gerð hafði gengi íslensku krónunnar styrkst allnokkuð þannig að innflutningsverðlag hafði farið lækkandi í íslenskum krónum mælt. Sú lækkun virtist ekki skila sér í innlendu verðlagi ólíkt því sem gerst hafði á síðari hluta ársins 1998. Þvert á móti voru dæmi um allnokkra hækkun á verði til neytenda á vörum sem höfðu lækkað í verði í innkaupum. Átti þetta ekki síst við um innfluttar mat- og drykkjarvörur. Verð á þeim hafði á einu ári hækkað til neytenda um 5-6% á sama tíma og innflutningsverð hafði lækkað um 6% að mati Þjóðhagsstofnunar.

Ári áður en viðskiptaráðherra fól Samkeppnisstofnun að rannsaka óhagstæða þróun matvöruverðs hafði stofnunin hafið athugun á matvörumarkaðnum. Hafði þó aðeins reynst unnt vegna annarra verkefna stofnunarinnar að afla og vinna úr gögnum um stöðu og hlutdeild einstakra smásölufyrirtækja á markaðnum. Tilefni þeirrar athugunar sem hófst á árinu 1999 var aukin samþjöppun í smásöluverslun og kvartanir og aðrar athugasemdir innlendra framleiðenda og dreifingaraðila og samtaka þeirra um starfsaðferðir á markaðnum sem þeir töldu ekki samræmast góðum og eðlilegum viðskipta- og samkeppnisháttum.

2.
Samkeppnisstofnun ákvað í upphafi að könnunin, sem viðskiptaráðherra fól stofnuninni að gera, skyldi ekki aðeins taka til innfluttrar matvöru heldur almennt til þeirra vöruflokka sem eru seldir í matvöruverslunum. Þannig nær könnun stofnunarinnar til innfluttrar og innlendrar matvöru, þ.m.t. landbúnaðarafurða, drykkjarvöru og hreinlætis- og snyrtivöru, þ.e. þeirrar vöru sem tengist daglegum þörfum neytenda. Í þessari greinargerð eru þessir vöruflokkar nefndir dagvara. Þá ákvað Samkeppnisstofnun að kanna þróun verðmyndunar yfir lengra tímabil en vísað er til í bréfi viðskiptaráðherra til stofnunarinnar frá 31. maí sl. Meginhluti könnunarinnar miðast við tímabilið frá byrjun ársins 1996 til loka ársins 2000. Á þessu tímabili hefur orðið mikil samþjöppun á matvörumarkaðnum, einkum í smásölu, auk þess sem svonefnd birgða- eða aðfangahús, Aðföng og Búr, sem rekin eru í tengslum við nokkrar verslunarkeðjur, hófu umfangsmikla starfsemi. Könnunin er því mun umfangsmeiri en fyrrnefnd ríkisstjórnarsamþykkt gerir ráð fyrir. Samkeppnisstofnun taldi þetta nauðsynlegt til að fá mætti nokkuð heildstæða mynd af þróun verðlagningar í matvöruverslun, bæði á heildsölu- og smásölustigi, og samkeppnis- og viðskiptaháttum í greininni. Þá ber þess að geta að innlendir framleiðendur og samtök þeirra auk Neytendasamtakanna höfðu óskað eftir könnun á samkeppnisháttum í matvöruverslun.

3.
Við gerð þeirrar könnunar sem hér er til umfjöllunar var byggt á þeirri sundurliðun neyslu eftir vöruflokkum sem birtist í vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar út. Út úr þeim vöruflokkum sem m.a. mynda vísitölu neysluverðs var búinn til vöruhópurinn dagvara. Sá vöruhópur var lagður til grundvallar upplýsingaöflun frá dreifingaraðilum og eftir atvikum framleiðendum, hér eftir nefndir birgjar, og matvöruverslunum. Samkeppnisstofnun fékk mikilvæga aðstoð frá starfsmönnum Hagstofu Íslands við alla þá þætti sem lúta að upplýsingum og úrvinnslu gagna úr vísitölum sem Hagstofan reiknar út. Opinber gögn og upplýsingar fengust einnig frá Þjóðhagsstofnun og skattayfirvöldum.

Í könnuninni voru skoðaðar breytingar á heildsöluverði dagvöru annars vegar og smásöluverði hins vegar. Einnig voru teknar til skoðunar breytingar á viðskiptakjörum á markaðnum. Upplýsinga og gagna um þróun nettó heildsöluverðs, þ.e. heildsöluverðs að frádregnum afslætti, var aflað hjá um 70 af helstu birgjum á dagvörumarkaði. Sem mælikvarða á þróun verðlags í matvöruverslunum var hins vegar tekið mið af þróun dagvöruliða í vísitölu neysluverðs. Fulltrúar 40 birgja og flestra verslunarkeðja voru heimsóttir af starfsmönnum Samkeppnisstofnunar í tengslum við upplýsingaöflun stofnunarinnar.

Upplýsingar og gögn sem stofnunin aflaði hjá aðilum markaðarins voru veittar í trúnaði enda um viðkvæm viðskiptaleg mál að ræða. Í greinargerð þessari verður ekki birt neitt úr þeim upplýsingum sem aflað hefur verið sem skaðað getur hagsmuni þeirra sem upplýsingarnar veittu. Þær niðurstöður og ályktanir sem Samkeppnisstofnun birtir í greinargerðinni byggja hins vegar á þeim gögnum og upplýsingum sem stofnuninni hafa verið veittar eða hún hefur aflað á annan hátt.

Í byrjun september árið 2000 gerði Samkeppnisstofnun samanburðarkönnun á verði nokkur hundruð tegunda af dagvörum í Reykjavík og nokkrum borgum á Norðurlöndunum. Niðurstöður könnunarinnar eru birtar í þessari greinargerð í þeim kafla sem fjallar um þróun verðlagningar á síðustu árum.

4.
Á það verður að leggja áherslu að könnun sú sem um er fjallað í þessari greinargerð var gerð með það að markmiði að varpa ljósi á verðlagsbreytingar á dagvöru á matvörumarkaðnum á ákveðnu tímabili. Í því sambandi skal minnt á að verðlagning fyrirtækja er almennt frjáls hér á landi. Íhlutun samkeppnisyfirvalda í verðbreytingar er því aðeins heimil ef þær er hægt að rekja til brota á samkeppnislögum. Ásamt því að fjalla um verðlagsbreytingar er í greinargerðinni leitast við að lýsa matvörumarkaðnum, samkeppnisaðstæðum á honum og viðskiptaháttum. Könnuninni var ekki beint að tilteknum fyrirtækjum og í niðurstöðum felst ekki stjórnvaldsákvörðun eða íhlutun. Form könnunarinnar og greinargerðarinnar er ekki með þeim hætti. Stjórnsýslumál sem kann að verða tekið til meðferðar, með vísan til gagna eða annars sem könnunin hefur leitt í ljós, mun lúta reglum og formi slíks máls og hugsanlega, ef ástæða þykir til, leiða til íhlutunar í samninga eða háttsemi einstakra fyrirtækja.

5.
Efni greinargerðarinnar er þannig skipað að í kaflanum næst á eftir þessum inngangi eru niðurstöður könnunarinnar settar fram samandregnar. Í 3. kafla er fjallað um skilgreiningu þess markaðar sem könnunin tekur til. Í 4. kafla er fjallað um aðstæður á hinum skilgreinda markaði, s.s. markaðshlutdeild matvöruverslana og þróun hennar á því tímabili sem könnunin tekur til. Í 5. kafla eru birtar niðurstöður um breytingu verðlags á 25 flokkum dagvöru á tímabilinu frá ársbyrjun 1996 til síðustu mánaða ársins 2000. Fjallað er um samspil verðbreytinga annars vegar hjá birgjum og hins vegar matvöruverslunum í hverjum vöruflokki fyrir sig. Þá er og getið um þróun ýmissa þátta sem geta haft áhrif á verðbreytingar vöru, s.s. gengisþróun og verðlagsþróun í helstu viðskiptalöndum.

Ennfremur er í flestum vöruflokkum fjallað um niðurstöður á samanburði á meðalverði tiltekinna vörutegunda í Reykjavík og þremur borgum á Norðurlöndunum. Einnig eru birtar upplýsingar um áætlaða meðalálagningu á vörum í ýmsum vöruflokkum þar sem unnt reyndist að afla upplýsinga þar um. Loks er í 5. kafla samandregið mat Samkeppnisstofnunar á verðþróun og verðmyndun í hverjum flokki auk sérstakrar samantektar um heildarþróun á dagvörumarkaðnum. Í 6. kafla er fjallað um ýmsa þætti í viðskiptalegum samskiptum matvöruverslana og birgja. Í þeim kafla verður leitast við að varpa ljósi á ýmsa þætti sem hafa breyst á síðustu árum í viðskiptaháttum, s.s. hlutverkaskiptingu við vörudreifingu, hilluuppröðun og markaðsstarf.
Útdráttur: Almenn niðurstaða

Á seinni helmingi ársins 1998 var mikil samkeppni á smásölumarkaði fyrir dagvöru hér á landi, fyrst eftir að fyrirtækið Baugur var stofnað í núverandi mynd og verslunin Nettó tók til starfa í Reykjavík. Verð á dagvöru lækkaði um 4% á hálfu ári frá júlí 1998 til janúar 1999. Dagvara hækkaði hins vegar um 10% á rúmu ári, þ.e. frá byrjun árs 1999 til mars 2000, á sama tíma og aðrar vörur í vísitölu neysluverðs hækkuðu minna.

Samkeppnisstofnun dregur þá ályktun að í kjölfar samruna sem varð á matvörumarkaðnum á fyrri hluta ársins 1999 hafi samkeppni minnkað og það hafi leitt til aukinnar álagningar hjá smásöluverslunum. Reikningar verslunarfyrirtækja sýna að framlegð þeirra hefur farið hækkandi á síðustu árum, ekki síst á milli áranna 1998 og 1999.

Aðstæður á matvörumarkaðnum hafa gjörbreyst ef horft er einn til tvo áratugi aftur í tímann. Áður en stórmarkaðir tóku til starfa höfðu birgjar, þ.e. innflytjendur og framleiðendur, tögl og hagldir á markaðnum. Verslanir höfðu ekki til annarra að leita vegna innkaupa á vörum. Verð á dagvöru var þá almennt mjög hátt hér á landi í samanburði við önnur lönd. Þegar viðskiptafrelsi jókst og matvöruverslunum óx fiskur um hrygg, bæði með fjölgun stórmarkaða og stofnun lágvöruverðsverslana, hófu verslunarkeðjur að reyna fyrir sér með eigin innflutning á vörum. Við það jókst samkeppni í smásölunni og keðjurnar fóru að veita birgjum, einkum innflytjendum, aukið aðhald. Máttur birgja í samningum við verslanir dvínaði en samningsstyrkur verslunarkeðja jókst. Tölfræðileg gögn bera með sér að samkeppni í matvöruverslun var á tímabili, a.m.k. fram á miðjan síðasta áratug, mjög virk og neytendur nutu góðs af í hlutfallslega lækkuðu verði. Eftir þann tíma hefur samþjöppun aukist mjög á smásölustiginu sem hefur styrkt samningsstöðu verslunarkeðja enn frekar gagnvart birgjum eins og nánar verður rakið. Er nú svo komið, að mati Samkeppnisstofnunar, að matvörumarkaðurinn einkennist af kaupendastyrk verslunarkeðja sem hefur leitt til viðskiptahátta sem kunna í sumum tilvikum að vera andstæðir samkeppnislögum. Dagvöruverð hér á landi hefur hækkað álíka mikið og vegið meðalverð á öðrum liðum í vísitölu neysluverðs á tímabilinu frá janúar 1996 til loka ársins 2000. Hins vegar þróuðust vísitölurnar með mismunandi hætti þannig að dagvöruverð hækkaði mun hraðar þar til eftir mitt árið 2000. Þetta er ólíkt því sem gerst hefur í flestum öðrum löndum sem Íslendingar eiga viðskipti við þar sem mat- og drykkjarvara hefur hækkað minna en aðrar vörur og þjónusta.

Á milli þeirra tímapunkta sem könnun Samkeppnisstofnunar tekur til hefur verð á dagvöru (mat- og drykkjarvara og hreinlætis- og snyrtivara) samkvæmt vísitölu hækkað um það bil 15% í smásölu. Vegin hækkun á innkaupsverði verslana á þessum vörum var um það bil 8-9%. Sú hækkun er í samræmi við það sem vænta mátti með hliðsjón af erlendum verðhækkunum og gengisbreytingum. Draga má þá ályktun að smásöluálagning matvöruverslana, þ.m.t. álagning birgðahúsa, sem rekin eru í tengslum við nokkrar verslunarkeðjur hafi hækkað um sem nemur mismuninum á hækkun smásöluverðs og hækkun innkaupsverðs verslana. Miðað við umræddar forsendur má ætla að vara sem í ársbyrjun 1996 var seld með 20% smásöluálagningu hafi í árslok 2000 verið seld með 25-26% álagningu.

Álagning í smásölu hefur hækkað mismikið eftir flokkum dagvöru frá upphafi árs 1996 til loka árs 2000. Athygli vekur að vörur sem hafa fremur mikinn veltuhraða, eins og t.d. brauð og egg, eru seldar með 50-70% smásöluálagningu. Aftur á móti eru vörur með lítinn veltuhraða seldar með mun lægri álagningu. Væri höfð hliðsjón af kostnaði hefði mátt ætla að vörur með mikinn veltuhraða þyldu lægri álagningu en þær sem velta hægt.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
matvoruskyrsla2001.pdf 425.9Kb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta