#

Nýsköpunarvog RANNÍS : Nýsköpunarvog Rannís metur nýsköpunarvirkni fyrirtækja

Skoða venjulega færslu

dc.contributor.author Þorvaldur Finnbjörnsson 1952 is
dc.contributor.author Elvar Örn Arason 1972 is
dc.date.accessioned 2013-08-21T16:44:36Z
dc.date.available 2013-08-21T16:44:36Z
dc.date.issued 2009
dc.identifier.isbn 9979-887-05-2
dc.identifier.uri http://hdl.handle.net/10802/3338
dc.description Hér eru birtar niðurstöður fjórðu Nýsköpunarvogar Rannís, eða rannsóknarinnar á nýsköpun í íslenskum fyrirtækjum sem Rannís hefur átt aðild að. Fyrsta rannsóknin var s.k. Norræna nýsköpunarrannsóknin sem gerð var í kringum árið 1990 í samvinnu allra norrænu landanna. Það var fyrsta tilraun sem gerð hefur verið til að taka saman og birta samanburðarhæfar upplýsingar um nýsköpun í mörgum löndum. Frá 1992 og til þessa dags hafa ríki OECD og aðildarríki ESB gert 4 rannsóknir á nýsköpun og er hér fjallað um þá fjórðu í þeirri röð. Rannsóknin er kölluð Community Innovation Survey (CIS). Rannís og Hagstofa Íslands hafa jafnan átt í samstarfi um þessar rannsóknir.

Til að gera þessa rannsókn mögulega leitaði Rannís til fjölmargra aðila. Hagstofa Íslands lagði fram aðstoð við val á þýði og gerð úrvals fyrir rannsóknina. Félagsvísindastofnun vann að frumgagnaöflun en mesta starfið mæddi þó á Vésteini Ingibergssyni sem var verkefnaráðinn starfsmaður hjá Rannís en hann átti veg og vanda að allri gagnaöflun og úrvinnslu til Eurostat, sem er hagstofa Evrópusambandsins, en það er Eurostat sem safnar saman niðurstöðum CIS rannsóknanna frá þátttökuríkjunum.

Þess ber að geta að Vísindaskrifstofa menntamálaráðuneytisins gerði Rannís kleift að gera þessari rannsókn með því að afla verkefninu fjárhagslegs stuðnings. Það voru menntamálaráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og forsætisráðuneyti sem fjármögnuðu hver sinn hluta verkefnisins ásamt Rannís.

Ljóst er að nýsköpun er forsenda tækniþróunar og hagvaxtar í hverju landi. Því er mikilvægt að öðlast a.m.k. lágmarksupplýsingar um stöðu og þróun nýsköpunar, aðstöðu og aðgerðir fyrirtækja til að vinna að þessum málum. Stjórnvöld í ríkjum OECD og Evrópusambandsins nota CIS rannsóknirnar til stefnumótunar í nýsköpun. Ekki er aðgangur að samanburðarhæfum upplýsingum um nýsköpun á öðrum vettvangi. Sem dæmi um notkun á niðurstöðum CIS má nefna European Innovation Scoreboard þar sem borin eru saman bæði staða og þróun nýsköpunarvirkni og –aðstöðu og löndum raðað eftir velgengni á nýsköpunarsviðinu, samkvæmd fjölda vísbendinga. Þá má nefna OECD Science, Technology and Innovation Scoreboard sem gerir nýsköpunarvirkni góð skil. Loks ber þess að geta að á vegum Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar, NICe eru nokkur verkefni í gangi um greiningu á niðurstöðum CIS og hvernig megi nota betur þær upplýsingar sem koma fram.

Að gerð þessa heftis komu starfsmenn á greiningarsviði Rannís, Ásdís Jónsdóttir, Elva Brá Aðalsteinsdóttir og Elvar Örn Arason auk undirritaðs.

Það er von okkar hjá Rannís að þetta rit komi að gagni bæði við stefnumótun og úrvinnslu á vettvangi stjórnvalda og einnig sem vettvangur frekari rannsókna á nýsköpun og sem upplýsingarrit um nýsköpun á Íslandi.
is
dc.description.abstract Nýsköpunarvog Rannís Community Innovation Survey eða CIS) nær til allra aðildarríkja Evrópusambandsins, nánustu samstarfsríkja þess og nokkurra annarra stærri hagkerfa. Rannsóknin veitir mikilvægar upplýsingar um eðli og umfang nýsköpunar fyrirtækja í Evrópu, og samanburð við önnur hagkerfi svo sem Bandaríkin og Japan. Þetta er í fjórða sinn sem hagstofa Evrópusambandsins (ESB), Eurostat, stendur að þessari rannsókn og Rannís stóð að framkvæmd rannsóknarinnar hér á landi. Íslensk fyrirtæki með að minnsta kosti tíu starfsmenn voru spurð um ýmsa þætti er lúta að nýsköpun í rekstri þeirra á þriggja ára tímabil, þ.e. frá 2002 til 2004. Alls voru 400 fyrirtæki í úrtakinu. Svarhlutfall í rannsókninni var 53%. Þó að nokkur tími sé liðinn frá viðmiðunarárinu eru niðurstöðurnar taldar gefa góða mynd af stöðu og þróun nýsköpunar. Samfélag fyrirtækja breytist mjög hratt en samt taka breytingar jafnan nokkurn tíma að vinna sér sess. Þá má geta þess að aðstandendur CIS rannsóknanna hafa að leiðarljósi að minnka áreiti á fyrirtækju hvað varðar gagnaöflun.

Nýsköpunarvirkni fyrirtækja
Með nýsköpun er átt við nýja eða verulega breytta afurð eða aðferð við framleiðslu en einnig markaðssetningu eða nýtt skipulag í rekstri og viðskiptum fyrirtækja. Nýsköpun er ávallt að minnsta kosti ný fyrir fyrirtækið sjálft, en stundum einnig fyrir umhverfi fyrirtækisins eða er jafnvel nýtt fyrir heiminn allan. Til að nýmæli geti talist nýsköpun verður að takast að hrinda aðferðinni eða skipulaginu í framkvæmd eða selja afurðina á markaði. Á tímabilinu 2002 til 2004, stundaði rúmlega helmingur (52% ) íslenskra fyrirtækja nýsköpun af einhverju tagi. Framleiðslunýsköpun var algengasta tegund nýsköpunar (44%), þar næst kom aðferðanýsköpun (29%). Fimmtungur fyrirtækja nefndi að innan fyrirtækisins hafi átt sér stað nýsköpun sem ekki hafi verið lokið við á tímabilinu eða að ákvörðun hafi verið tekin um að hætta við fyrirhugaða nýsköpun. Þegar niðurstöður íslensku rannsóknarinnar eru bornar saman við niðurstöður annarra ríkja ESB kemur í ljós að nýsköpunarvirkni fyrirtækja hér á landi er fremur mikil, en ríflega helmingur fyrirtækja hér á landi stundar nýsköpun. Í ríkjum ESB voru það að meðaltali 4 af hverju tíu fyrirtækjum sem voru í einhverri nýsköpun. Hæsta hlutfall nýsköpunarfyrirtækja var í Þýskalandi (65%), Austurríki (53%), Danmörku, Íslandi, Írlandi og Lúxemborg (52%). Hlutfallið var lægst í Rúmeníu, Ungverjalandi og Möltu (20%) og í Búlgaríu (18%). Meira en þriðjungur evrópskra fyrirtækja sagðist hafa komið fram með nýja eða verulega bætta afurð sem þeim tókst að markaðasetja. Í flestum ríkjum ESB var meiri nýsköpunarvirkni hjá framleiðslufyrirtækjum en þjónustufyrirtækjum. Stærð fyrirtækja og tegund atvinnugreina hefur talsverð áhrif á umfang nýsköpunar hér á landi. Þannig er líklegra að fyrirtæki með 250 starfsmenn eða fleiri stundi nýsköpun en ef um minni fyrirtæki er að ræða. Á Íslandi nefndu 63% stórra fyrirtækja að þau hefðu lagt stund á nýsköpun, 60% meðalstórra og 50% lítilla fyrirtækja. Íslensk framleiðslufyrirtæki voru líklegri til að stunda nýsköpun en þjónustufyrirtæki.

Að jafnaði kom um 5% af veltu fyrirtækjanna frá nýjum eða verulega breyttum afurðum. Fyrirtækin vörðu að meðaltali 1,7% af veltu til nýsköpunar á tímabilinu.

Mikilvægustu markaðssvæði nýsköpunarfyrirtækja
Nýsköpunarfyrirtæki voru líklegri til að sækja á erlenda markaði en fyrirtæki sem ekki stunduðu nýsköpun. Íslensk nýsköpunarfyrirtæki nefndu þó innanlandsmarkað sem sitt helsta markaðssvæði (85%), þar næst Evrópska efnahagsvæðið (39%) og síðan önnur lönd utan EES (15%). Mikilvægustu markaðssvæði fyrirtækja sem ekki stunduðu nýsköpun var innanlandsmarkaður (77%) og Evrópska efnahagssvæðið (17%) og önnur lönd utan EES (9%). Helsti munurinn á framleiðslu- og þjónustufyrirtækjum fólst í því að hærra hlutfall þjónustufyrirtækja taldi innanlandsmarkað vera mikilvægasta markaðssvæðið.

Samstarfsaðilar nýsköpunarfyrirtækja
Um þriðjungur íslenskra nýsköpunarfyrirtækja átti í samstarfi um nýsköpun. Helstu samstarfsaðilar voru birgjar og viðskiptavinir (20% hvor hópur) og stjórnvöld eða opinberar rannsóknastofnanir (13%). Athygli vekur að eingöngu 5% íslenskra nýsköpunarfyrirtækja áttu í samstarfi við háskóla en meðaltal ESB landanna var 9%. Niðurstöðurnar virðast að gefa til kynna að tengsl atvinnulífsins og háskóla séu ekki nægjanlega sterk hér á landi. Einnig má leiða líkum að því að hugtakið “samstarf” sé vanmetið eða misskilið. Það hefur komið fram í greiningu á niðurstöðum frá mörgum öðrum löndum hve lágt hlutfall háskóla eigi í samstarfi við fyrirtæki um nýsköpun. Þetta verður vísast skoðað betur. Algengast var að samstarfsaðilar íslenskra nýsköpunarfyrirtækja væru staðsettir hérlendis (91%). Erlenda samstarfsaðila var helst að finna á Evrópska efnahagssvæðinu (66%), öðrum ríkjum utan ESB (27%) og í Bandaríkjunum (16%).

Uppspretta nýsköpunar
Samkvæmt rannsókninni var meginuppsprettu hugmynda að nýsköpun íslenskra fyrirtækja að finna innan fyrirtækisins sjálfs eða fyrirtækjasamsteypunnar (42%), meðal viðskiptavina (24%) eða birgja (11%). Háskólar, stjórnvöld eða utankomandi ráðgjafar voru nefndir sem uppspretta nýsköpunar í innan við 1% tilfella. Athygli vekur hversu sjaldan fyrirtæki sækja nýsköpunarhugmyndir sínar til háskóla. Hugsanlegt er að hér sé hugmynd að uppruna vanmetin eða misskilin en niðurstöðurnar kunna að beina sjónum að notandanum sem drífandi krafti sem kemur fram með hugmynd að nýsköpun. Ekki var spurt um notenda miðaða nýsköpun en með því er átt að notandi afurðar kemur fyrst fram með hugmynd sem síðan fyrirtækin bregðast við. Talsverður munur var á uppsprettu nýsköpunarhugmynda meðal framleiðslu- og þjónustufyrirtækja. Þjónustufyrirtæki sóttu nýsköpunarhugmyndir sínar helst til viðskiptavina og fyrirtækja innan fyrirtækjasamsteypunnar, meðan framleiðslufyrirtæki sóttu hugmyndir sínar í ríkari mæli til birgja.

Áhrif nýsköpunar
Fyrirtækin töldu veigamestu áhrif nýsköpunar felast í auknu vöruúrvali og þjónustu (31%), bættum gæðum vöru og þjónustu (23%), sókn á nýja markaði og aukna markaðshlutdeild (19%). Fyrirtækin nefndu síður að áhrif nýsköpunar hafi leitt til þess að tekist hafi að mæta kröfum eftirlitsaðila (9%), minnkað efnis- og orkunotkun á hverja framleiðslueiningu (6%) eða að draga úr áhrifum á umhverfi og bæta öryggi (3%). Hærra hlutfall þjónustufyrirtækja en framleiðslufyrirtækja nefndu að nýsköpunin hafi bætt gæði vöru og þjónustu, aukið aðgang að nýjum mörkuðum og aukið markaðshlutdeild. Hins vegar taldi hærra hlutfall framleiðslufyrirtækja að nýsköpunin hafi mætt kröfum eftirlitsaðila í tengslum við gæða- eða umhverfisstaðla.

Þættir sem torvelda nýsköpun
Íslensk nýsköpunarfyrirtæki nefndu kostnaðar- og fjármögnun sem stærstu hindrunina fyrir nýsköpunarstarfsemi. Skortur á fjármagni innan fyrirtækisins (21%), hár kostnaður við nýsköpun (19%) og skortur á fjármagni utan fyrirtækisins (17%) voru þeir þættir sem helst þóttu standa í vegi fyrir nýsköpun.

Fyrirtæki sem ekki stunduðu nýsköpun nefndu háan kostnað við nýsköpun (10%), óörugga eftirspurn eftir nýsköpunarafurðum (7%), erfiðleika við að finna samstarfsaðila (5%) og skort á fjármagni innan fyrirtækisins eða fyrirtækjasamsteypu (5%) sem helstu hömlur á nýsköpun.

Verndun hugverka
Nýsköpunarfyrirtæki voru mun líklegri til að sækja um vernd hugverka samanborið við fyrirtæki sem ekki stunduðu nýsköpun. Á tímabilinu sóttu 11% fyrirtækja með nýsköpunarstarfsemi um einkaleyfi, 26% létu skrá vörumerki sín, 7% skráðu hönnunarvernd og 7% gerðu kröfu um höfundarrétt. Aðeins 2% fyrirtækja sem ekki stunduðu nýsköpun skráðu vörumerki og 1% gerðu kröfu um höfundarrétt.

Frammistaða Íslands á sviði nýsköpunar í alþjóðlegum samanburði
EIS-nýsköpunarkvarðinn (European Innovation Scoreboard) er þróaður af Evrópusambandinu (ESB) í þeim tilgangi að meta frammistöðu ríkja sambandsins og annarra samstarfsríkja á sviði nýsköpunar. Frá því fyrstu mælingar EIS-kvarðans birtust árið 2000 hefur Ísland dregist nokku aftur úr þeim ríkjum sem standa fremst á sviði nýsköpunar. Á nýjasta EIS-nýsköpunarkvarðanum er Ísland komið í hóp ríkja sem eru í kringum meðaltal ESB. Þetta þýðir í raun að Ísland hefur misst það forskot sem það áður hafði þegar landið var í fremstu röð ríkja hvað varðar nýsköpun. Höfuðástæðan er sú að ekki hefur tekist að halda í við þær þjóðir sem lengst hafa náð og þær þjóðir sem voru aftarlega hafa sótt í sig veðrið að undanförnu. Íslendingar þurfa því að vera vel á varðbergi til að koma í veg fyrir að vera eftirbátar annarra þjóða.
Á heildina litið eru forsendur nýsköpunar góðar hér á landi, þar sem innviðir og möguleikar til framþróunar nýsköpunar eru miklir. Í alþjóðlegum samanburði stendur Íslands framarlega á þeim mælikvörðum sem meta innviði og fjárfestingu samfélagsins til rannsókna og þróunar og hér á landi er einnig þróttmikil frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun fyrirtækja. Útgjöld Íslendinga til rannsókna og þróunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa aukist verulega á undanförnum árum og eru með þeim hæstu í Evrópu. Árið 2007 námu útgjöldin 2,7% af vergi landsframleiðslu og á sama tíma námu útgjöld ESB-ríkjanna að jafnaði 1,77. Helstu veikleikar Ísland á EIS-nýsköpunarkvarðanum koma fram í mælikvörðum er meta útkomu nýsköpunar svo sem umsóknir um einkaleyfi, vörumerki og iðnhönnun. Þetta stafar fyrst og fremst af því að Ísland er í hópi ríkja sem framleiða og flytja tiltölulega lítið út af hátækniafurðum. Á hinn bóginn stendur Íslands framarlega í notkun upplýsinga- og hátækniafurða. Hér á landi eru því mikla möguleika á að hagnýta sér þessa nýju tækni til umbóta og framfara. Á tveimur mælikvörðum er varða menntun eru Íslendingar undir meðaltali ESB. Hér á landi er lægra hlutfall fólks á aldrinum 20 til 24 ára sem lokið hefur framhaldsskólaprófi (þ.e. menntaskóla, verklegu eða bóklegu námi neðan háskólastigsins) og lægra hlutfall sem útskrifast úr háskólum í raun- og tæknigreinum í samanburði við önnur Evrópulönd. Brýnt er að vinna bug á þeim veikleikum sem eru á íslenska þekkingar- og nýsköpunarumhverfinu með réttri stefnumótun og samstilltu átaki stjórnvalda, atvinnulífsins, háskólanna og annarra hagsmunaaðila. Varast skal að leggja áherslu á of þrönga þætti nýsköpunar svo sem að veita eingöngu sprotafyrirtækjum betri rekstrarskilyrði, heldur skal leitast við að gera umhverfi nýsköpunar jákvætt fyrir alla þá aðila sem hana stunda. Niðurstöður úr alþjóðlegum samanburði sýna að Ísland hefur alla burði til að komast í fremstu röð á sviði nýsköpunar. Eigi það að verða að veruleika þurfa að koma til samstillt átak allra þeirra sem að nýsköpun standa og að undirbúningi nýsköpunar. Mætti nefna að bæta þurfi skilvirkni og framboð menntakerfisins, draga úr brottfalli í framhaldsskólum, auka þarf vægi verk- og raunvísindagreina í útskriftum á háskólastigi, útgjöld atvinnulífsins til rannsókna og þróunar þurfa að hækka; og loks er mikilvægt að efla tengsl atvinnulífsins og háskólanna með myndun þyrpingar þekkingarfyrirtækja í sambúð við háskólaumhverfið sem hefur það að leiðarljósi að efla tengsl atvinnulífsins og háskólanna.
is
dc.language.iso is
dc.publisher Rannís is
dc.subject Nýsköpun í atvinnulífi is
dc.title Nýsköpunarvog RANNÍS : Nýsköpunarvog Rannís metur nýsköpunarvirkni fyrirtækja is
dc.type Skýrsla is


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
CIS_Nyskopunarvog_2009 v. 1.1_2087303397.pdf 1.034Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða venjulega færslu

Leita


Fletta