Athugasemdir:
|
Starfshópur um framtíðarhorfur og framtíðarhlutverk Íbúðalánasjóðs var skipaður í framhaldi af vinnu starfshóps um stöðu og horfur um efnahag Íbúðalánasjóðs. Síðarnefndi starfshópurinn var skipaður af fjármála- og efnahagsráðherra þann 13. september 2012 og hafði það hlutverk að fara yfir stöðu og horfur um efnahag sjóðsins. Í skilabréfi þess hóps, dags. 23. nóvember 2012, kemur fram sú meginafstaða starfshópsins að staða og horfur í rekstri sjóðsins væru verri en áður hefði komið fram. Það felst meðal annars í ófullnægjandi vaxtamun sjóðsins, áframhaldandi vexti vanskila, aukinni afskriftarþörf og áframhaldandi uppgreiðslu veittra lána. Þá er yfirtaka fullnustueigna farin að valda sjóðnum verulegum skuldbindingum og kostnaði. Í skilabréfinu segir enn fremur: „Jafnframt telur starfshópurinn mikilvægt að velferðarráðuneytið beiti sér fyrir ítarlegri skoðun á framtíðarhorfum og -hlutverki sjóðsins, meðal annars með tilliti til athugasemda ESA um að lánastarfsemi sjóðsins eigi fyrst og fremst að beinast að því að veita þjónustu í almannaþágu.“ Þessi ítarlega skoðun hefur nú farið fram og er skýrsla þessi afrakstur hennar. |