#

Aðgerðir til að vinna gegn fátækt : Tillögur byggðar á skýrslunni Farsæld — baráttan gegn fátækt á Íslandi

Skoða fulla færslu

Titill: Aðgerðir til að vinna gegn fátækt : Tillögur byggðar á skýrslunni Farsæld — baráttan gegn fátækt á ÍslandiAðgerðir til að vinna gegn fátækt : Tillögur byggðar á skýrslunni Farsæld — baráttan gegn fátækt á Íslandi
URI: http://hdl.handle.net/10802/3296
Útgefandi: Velferðarráðuneytið
Útgáfa: 03.2013
Efnisorð: Fátækt; Stefnumótun; Áætlanagerð; Velferðarmál
ISBN: 978-9979-799-65-8
Tungumál: Íslenska
Tegund: Skýrsla
Athugasemdir: Skýrslan Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi var gefin út af Hjálparstarfi kirkjunnar og Rauða krossinum í Reykjavík í október 2012. Að þeirri vinnu komu fjölmargir aðilar, meðal annars fulltrúar háskólasamfélagsins, hagsmunasamtaka, hjálparsamtaka, sveitarfélaga og ríkisins. Skýrslan var unnin af hópi með breitt bakland frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands, Rauða krossinum og Hjálparstarfi kirkjunnar.

Í nóvember 2012 barst velferðarráðherra erindi frá hópnum sem vann að skýrslunni Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi, með beiðni um fund með ráðherra og samstarf. Talsmenn hópsins sem stóðu að fyrrnefndri skýrslu fengu fund með ráðherra þar sem skýrslan var kynnt og voru starfsmenn ráðuneytisins viðstaddir kynninguna.

Í kjölfarið lagði ráðherra til að skipaður yrði starfshópur innan ráðuneytis sem ynni tillögur á grundvelli skýrslunnar Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi, sem yrðu liður í aðgerðum til að vinna gegn fátækt. Í þeim starfshópi áttu sæti Sigríður Jónsdóttir af skrifstofu gæða og forvarna, sem stýrði starfi hópsins, Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir og Rósa Guðrún Bergþórsdóttir af skrifstofu velferðarþjónustu og Sigurjón Unnar Sveinsson af skrifstofu lífskjara og vinnumála. Starfshópurinn hafði að leiðarljósi að velja tillögur úr skýrslunni sem eru framkvæmanlegar, sem og að skoða tillögur velferðarvaktarinnar og fleiri aðila.

Lykilatriði skýrslunnar Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi er að virkja fólk til þess að nýta styrkleika sína og uppræta ölmusuhugsun. Langvarandi líf í fátækt eða við fátæktarmörk skemmi og ríkjandi hugmyndir um fátækt standi fátæku fólki fyrir þrifum, auk þess sem þær feli í sér einhæfa ásökun og aumkun. Samfélagsleg viðhorf séu mótuð af nauðhyggju og ölmusuhyggju, sem feli í sér þá sýn að fátækt sé náttúrulögmál en ekki afurð menningarbundinna viðhorfa og samfélagsskipunar. Skýrslan er tilboð um samtal svo vitnað sé í orð eins af talsmönnum hópsins sem vann skýrsluna, en í henni segir: „Við viljum að umræðan um almenna velferð og veruleika fátæktarinnar í samfélagi okkar komist frá því að vera upphrópanakennd og villandi, en verði gagnrýnin, uppbyggileg og markviss, svo takist að útrýma langvarandi fátækt einstaklinga og fjölskyldna með samstilltu hugarfari og almennri þekkingu á velferð.“

Í skýrslunni Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi snýr töluverður hluti tillagnanna að samfélagssáttmála þar sem lagt er til að gert verði fræðsluátak um hugtakið „velferð“ með áherslu á samfélagssáttmála sem felur í sér mannréttindi, félagsauð, valdeflingu og þátttöku allra. Einnig er lögð áhersla á að sett verði á fót sjálfboðamiðlun þar sem félög og stofnanir geti náð til fólks sem vill nýta krafta sína og hæfni í sjálfboðavinnu í því skyni að auka þátttöku og tækifæri til samhjálpar, sem og að skilgreindar verði leiðir af hálfu sveitarfélaga til að ívilna frjálsum félagasamtökum sem vilja taka þátt í samstarfi um tækifæri fyrir sjálfboðaliða. Einnig er lagt til að skilgreind verði þátttökuviðmið sem tryggja að samfélagið gefi öllum skýr skilaboð um að öllu fólki sé tryggt tækifæri til þátttöku og búist sé við þátttöku allra. Með þessu megi tryggja að grunnframfærsluviðmið og þátttökuviðmið haldist hönd í hönd.

Einn af rauðum þráðum skýrslunnar Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi er samhæfing þjónustunnar og heildarsýn í meðferð mála einstaklinga og fjölskyldna. Starfshópur ráðuneytisins tók þennan þráð og reyndi að fylgja honum, sem og öðrum þráðum sem renna í gegnum skýrsluna. Virkni, þátttaka, valdefling og samspil kerfa eru endurtekin stef í gegnum skýrsluna og er ítrekað bent á mikilvægi þess að fólki sé skapað svigrúm til þátttöku og horft sé á getu fólks en ekki vangetu. Í stað mats út frá skorti sé fólk metið út frá styrkleikum, til dæmis að í stað örorkumats komi starfsgetumat. Viðfangsefni skýrslunnar skal nálgast út frá sjónarhorni nægta fremur en skorts. Íslenskt samfélag er ríkt en gæðunum er misskipt. Lögð er áhersla á að til staðar þurfi að vera í samfélaginu grunnframfærsluviðmið sem enginn sé undir og sem sátt sé um. Mikil áhersla er lögð á að veita þurfi einstaklingsmiðaða ráðgjöf í samhæfðu þjónustukerfi og að ávallt sé skilgreindur samhæfingaraðili sem gegni hlutverki málstjóra þegar einstaklingar eða fjölskyldur fá aðstoð víðsvegar úr velferðarkerfinu.

Starfshópur ráðuneytisins hafði að leiðarljósi að einstaklingurinn væri í forgrunni og að þjónustan skuli sniðin að þörfum hans en ekki öfugt. Lögð er áhersla á samhæfingu þjónustunnar og þverfaglegt samstarf milli þjónustukerfa og samráð í ákvarðanatöku milli notanda og veitanda þjónustunnar. Markmiðið er að árangurinn skili þeirri útkomu að sem flestir séu virkir þátttakendur í samfélaginu.

Tillögur starfshóps velferðarráðuneytisins, sem kynntar eru nú í eftirfarandi skýrslu, byggjast á þeim þáttum skýrslunnar Farsæld – baráttan gegn fátækt á Íslandi sem eru aðgerðamiðaðar, framkvæmanlegar og að mestu verkefni sem snúa að málasviði ráðuneytisins. Starfshópurinn tekur undir þær hugmyndir sem þar komu fram um mikilvægi þess að ná þjóðarsátt um samfélagssáttmála, og að til þess þurfi fræðsluátak og samræður alls samfélagsins, í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og þriðja geirans þar sem unnið verði að sameiginlegri sýn á mikilvægi virkni og þátttöku allra. Bent er á að velferðarvaktin gæti verið heppilegur vettvangur til að koma af stað fræðslu og samstarfi um samfélagssáttmála og velferðarhugtakið. Það fellur bæði vel að hlutverki vaktarinnar og í henni eru fulltrúar allra helstu samfélagsafla og gerenda í íslensku samfélagi.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Adgerdir_gegn_fataekt.pdf 136.0Kb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta