#

Samfélagsáhrif lánveitinga Byggðastofnunar

Skoða fulla færslu

Titill: Samfélagsáhrif lánveitinga ByggðastofnunarSamfélagsáhrif lánveitinga Byggðastofnunar
Höfundur: Anna Lea Gestsdóttir ; Elín Gróa Karlsdóttir 1968 ; Jóhann Arnarson ; Pétur Grétarsson
URI: http://hdl.handle.net/10802/3262
Útgefandi: Byggðastofnun
Útgáfa: 01.2013
Efnisorð: Byggðaþróun; Atvinnumál; Atvinnulíf; Lánamál; Lánastofnanir
Tungumál: Íslenska
Tegund: Skýrsla
Útdráttur: Byggðastofnun hefur um langt árabil sérhæft sig í lánveitingum til fyrirtækja á landsbyggðinni og er þar af leiðandi vel í stakk búin til að meta áhættu af lánveitingum á þessum svæðum.

Mikilvægt er að taka tillit til mismunandi aðstæðna í einstökum landshlutum, atvinnugreinum og byggðarlögum. Þannig er áhættan af lánveitingum að jafnaði mest og veð ótryggust í þeim samfélögum og atvinnugreinum sem standa höllum fæti en þar er þörfin fyrir lánafyrirgreiðslu opinberra aðila jafnframt mest.

Hlutfallslega mestur hluti útlána Byggðastofnunar er nú á Norðurlandi eystra, um 27% af öllum útlánum. Þar á eftir koma Vestfirðir með um 20% af útlánum. Í samhengi við íbúafjölda á svæðunum er hlutfallslega stærsti hluti lánasafnsins á Vestfjörðum þar sem búa um 6% íbúa landsins en hlutfallslega minnst á Suðurnesjum þar sem búa um 18,3% íbúa.

Um 62% af lánasafni Byggðastofnunar liggur í þeim landshlutum þar sem hagvöxtur hefur verið minnstur undanfarin ár, á Norðurlandi og Vestfjörðum. Hæstar fjárhæðir liggja á vinnusóknarsvæðinu í Eyjafirði og í Skagafirði. Upphæðir lánasafnsins á vinnusóknarsvæði eru í ágætu samhengi við íbúafjölda vinnusóknarsvæðanna en mun fleiri fyrirtæki og meiri umsvif eru á stærri stöðunum.
Lánasafn stofnunarinnar dreifist á allar atvinnugreinar en ferðaþjónusta sem hefur verið vaxandi undanfarin ár á landsbyggðinni er nú stærstur hluti lánasafnsins, eða 28% og þar næst 27% í sjávarútvegi. Þessar tvær atvinnugreinar, sjávarútvegur og ferðaþjónusta sem yfir helmingur lánasafns stofnunarinnar liggur í eru meðal þeirra atvinnugreina sem eru mest gjaldeyrisskapandi á Íslandi en veiking krónunnar hefur styrkt þessar greinar mikið undanfarin ár. Hlutur landbúnaðar hefur aukist úr um 3% í 12% frá árslokum 2008 en stofnunin hefur aukið hlut sinn í landbúnaði síðastliðin ár.

Störf hjá fyrirtækjum sem eru í viðskiptum við Byggðastofnun eru um 3.200 og eru um 5,2 mkr á bak við hvert starf miðað við stöðu lánasafnsins 30. apríl 2012 en þá voru heildarútlán stofnunarinnar um 16.800 mkr.
Eftir hrun bankakerfisins hefur umsóknum um lán frá stofnuninni fækkað mikið. Árið 2008 voru teknar fyrir 146 umsóknir en einungis 38 árið 2011. Rétt rúmlega helmingur umsókna sem barst til stofnunarinnar á árunum 2008-2011 voru samþykktar. Mest var lánað á vinnusóknarsvæðið í Eyjafirði og þar næst til vinnusóknarsvæðisins í Skagafirði. Engar lánveitingar voru til fjögurra vinnusóknarsvæða þessi fjögur ár, Skaftárhrepps, Vestmannaeyja, Djúpavogs og Raufarhafnar.

Vísbendingar eru um að sum vinnusóknarsvæði séu orðin það veikburða að hefðbundið stoðkerfi atvinnulífsins s.s lánveitingar Byggðastofnunar nýtist þeim ekki og því þurfi að beita sértækum aðgerðum.
Ef skoðaðar eru lánveitingar Byggðastofnunar miðað við íbúafjölda landshluta og vinnusóknarsvæða má sjá vísbendingar um að lánveitingar stofnunarinnar rati inn á svæði þar sem þörfin er mest. Reiknuð var út lánsþörf og veitt lánaþjónusta og gefa útreikningarnir til kynna að þar sem þörfin er meiri er hlutfallslega meira lánað og þjónusta Byggðastofnunar því meiri á þeim svæðum.

Hæstu upphæðir í lánasafni stofnunarinnar liggja á vinnusóknarsvæðum þéttbýlis í Eyjafirði, norður– og suðursvæðum Vestfjarða og í Skagafirði. Atvinnuleysi hefur verið með minnsta móti á landinu á þessum svæðum en það sama er ekki að segja um atvinnutekjur og íbúaþróun hefur verið neikvæð undanfarin ár á þessum svæðum, að Eyjafjarðarsvæðinu frátöldu. Atvinnutekjur á þessum svæðum eru undir landsmeðaltali. Á þeim svæðum þar sem meðaltekjur eru hvað hæstar yfir landsmeðaltali hefur ekki verið sótt mikið í lán frá stofnuninni hin síðari ár, en það eru Snæfellsnes, Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar.

Ein leið til að meta hvaða árangri lánveitingar Byggðastofnunar hafi skilað fyrir samfélög á starfssvæði stofnunarinnar er að skoða hlutfall heildartekna vinnusóknarsvæðis að baki lána stofnunarinnar út frá fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og íbúafjölda á stöðunum. Út fæst hlutfallstala sem segir hve háu hlutfalli heildartekna á svæðinu lán Byggðastofnunar standa á bak við. Með öðrum orðum má segja að þetta sé kennitala fyrir umfang hagrænna áhrifa (e. Local economic impact) sem fjármagn frá Byggðastofnun hefur í hverju samfélagi. Eftir því sem fjær dregur höfuðborgarsvæðinu eru áhrifin meiri. Mest eru áhrifin á suðursvæði Vestfjarða en þar standa lánveitingar frá stofnuninni á bak við um 26% af heildartekjum á svæðinu.

Ennfremur sést að fjármagn Byggðastofnunar virðist hafa meiri áhrif á smærri vinnusóknarsvæðum en þeim stærri.

Í könnun sem Capacent gerði fyrir Byggðastofnun í ársbyrjun 2012 komu fram vísbendingar um að þau fáu fyrirtæki sem hyggja á einhverjar framkvæmdir á næstu tveimur árum séu stærri fyrirtækin, þau sem eru með fleiri starfsmenn en 31 og með yfir 400 mkr í veltu á ári. Jafnframt gefa niðurstöðurnar til kynna að það eru helst fyrirtæki í landbúnaði og sjávarútvegi ásamt ferðaþjónustu sem hafa hug á að ráðast í framkvæmdir á næstu tveimur árum.

Fátt bendir til annars en að í náinni framtíð verði mikil þörf fyrir aðkomu stoðkerfisins til að tryggja aðgengi fyrirtækja í dreifðari byggðum að lánsfé. Þrátt fyrir litla eftirspurn eftir nýjum lánum nú um stundir þá verður að gera ráð fyrir nýjum vexti á næstu árum og þá þurfa að vera til staðar verkfæri til að styðja við hann með virkum hætti.

Þörf er á að taka til endurskoðunar útlánahlutann í starfsemi Byggðastofnunar, bæði hvað varðar rekstrarlegar forsendur, en ekki síður þau verkfæri sem beitt er í stuðningi við atvinnulíf landsbyggðarinnar.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Samfelagsahrif_Lokautgafa.pdf 2.089Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta