#

Byggðaþróun : ástand og horfur : fylgirit með tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010-2013

Skoða fulla færslu

Titill: Byggðaþróun : ástand og horfur : fylgirit með tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010-2013Byggðaþróun : ástand og horfur : fylgirit með tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2010-2013
URI: http://hdl.handle.net/10802/3231
Útgefandi: Byggðastofnun
Útgáfa: 12.2009
Efnisorð: Byggðastefna; Byggðaþróun; Stefnumótun
Tungumál: Íslenska
Athugasemdir: Stefnumótandi byggðaáætlun „skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum“ segir í 7. grein laga nr. 106/1999 um Byggðastofnun. Iðnaðarráðherra skal vinna að byggðaáætlun samkvæmt þessari lagagrein í samvinnu við Byggðastofnun, ráðuneyti, sveitarfélög og fleiri og leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Í byggðaáætlun skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu, áætlunum um aðgerðir, tengslum byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu.

Byggðastefna íslenskra stjórnvalda mótast mjög af því að Ísland er hluti alþjóðlegs samfélags, markaðar og regluverks. Byggðastefna Evrópusambandsins stefnir að „byggðalegum fjölbreytileika“ og líkri stefnu fylgja Norðurlönd.

Á vettvangi norrænna byggðarannsókna og norræns samstarfs um byggðamál hefur athygli beinst að þróun byggðastefnu yfir í þriðju kynslóð byggðastefnu með áherslu á sérkenni svæða og „byggðalegan fjölbreytileika“. Fyrsta kynslóð byggðastefnu á Norðurlöndum var samkvæmt þessum viðhorfum mótuð á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar og miðaði að því að jafna efnahagsskilyrði innanlands með hagrænum aðgerðum, styrkjum og undanþágum. Önnur kynslóð byggðastefnu óx smám saman á 10. áratugnum, framyfir aldamót, undir áhrifum vaxandi samkeppni við nýja þátttakendur í alþjóðavæðingunni, einkum lönd í Suðaustur-Asíu. Þessu fylgdu kröfur um meiri samkeppnishæfni og vöxt og þá færðust áherslur yfir á að efla svæðabundinn vöxt til þess að mynda vöxt á landsvísu. Samkvæmt því var m.a. víða gripið til gerðar svæðabundinna vaxtarsamninga. Áherslan á svæðin, á vöxt á landshlutavísu, og starfið á þeim grunni hefur leitt til fleiri tækifæra til ábyrgðar á landshlutastigi. Því hefur umræða um stefnumótun beinst að mikilvægi öflugs framkvæmdafólks og skilvirkrar forystu á landshlutastigi. Með breyttu samstarfi um stefnumótun og „stækkun svæða“, sameiningum, hefur verið leitast við að efla frumkvæði, forystu og ábyrgð landshlutanna. Hér virðist vegurinn fyrir 3. kynslóð byggðastefnu vera varðaður. Athyglinni verði beint að sérstöðu hvers einstaks landshluta og vaxtarskilyrðum hans, stefnan þarf að vera sveigjanleg og þeir sem bera ábyrgð á henni líka. Alþjóðavæðingin virðist þannig koma í veg fyrir eina stefnu fyrir alla byggð hvers lands og mikilvægt að marka stefnu og áætlanir til framtíðar á þessum skilningi. Hin hraðvirku áhrif í alþjóðlegu efnahagskerfi hafa orðið Íslendingum augljós á árunum 2008 og 2009.

Lífskjör á Íslandi voru um langt árabil með því besta sem þekkist í hinum vestræna heimi. Hagvöxtur hefur verið mikill, verðbólga fremur lág og lítið sem ekkert atvinnuleysi. Á síðari hluta árs 2008 urðu hins vegar alger og snögg umskipti. Ísland hefur orðið sérstaklega illa úti í þeirri heimskreppu sem nú geisar á alþjóðlegum fjármálamörkuðum, og stærstu bankastofnanir landsins hafa orðið gjaldþrota, en saman mynduðu þeir um 85% af bankakerfi landsins. Gjaldeyrismarkaður heima fyrir þornaði upp og alvarleg röskun varð á greiðslumiðlun til og frá landinu. Margt hefur verið rætt og ritað um orsakir þessa, en ljóst er að íslensku bankarnir höfðu vaxið mjög hratt á undangengnum árum. Þetta leiddi til þess að í árslok 2007 var íslenska bankakerfið orðið eitt hið stærsta í heimi í samanburði við verga landsframleiðslu. Það var því ljóst að fall þeirra myndi skapa djúpstæða kreppu á Íslandi. Fall íslensku krónunnar og háir vextir hafa leitt mikla erfiðleika yfir atvinnulífið. Mörg fyrirtæki hafa farið í þrot og atvinnuleysi hefur margfaldast. Skráð atvinnuleysi á árinu 2009 varð með 9,1% í maímánuði en lækkaði síðan stöðugt til septembermánaðar þegar það fór niður í 7,2%. Atvinnuleysi jókst hins vegar lítillega í októbermánuði og mældist þá 7,6%. Atvinnuleysi ársins 2009 samsvarar því að stærstur hluti þeirra fjölgunar á störfum sem varð frá árinu 2000 hafi tapast. Á tímabilinu 2000-2008 fjölgaði hins vegar íbúum landsins um tæplega 37.000 eða um 13%. Þetta hefur leitt til þess að þjóðarbúskapurinn hefur færst inn í tímabil mikils samdráttar, stóraukins fjárlagahalla og mikillar aukningar opinberra skulda. Í kjölfar bankahrunsins sömdu íslensk stjórnvöld um lánafyrirgreiðslu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á grundvelli áætlunar sem hefur þríþætt markmið: Í fyrsta lagi að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði og stuðla að hækkun á gengi íslensku krónunnar, í öðru lagi að móta stefnu í ríkisfjármálum fyrir árin eftir 2009 sem viðbrögð við fyrirsjáanlegum halla í ríkisrekstrinum, og í þriðja lagi að endurreisa fjármálakerfið. Mikill vandi blasir við í ríkisfjármálunum þar sem stöðva þarf hallarekstur ríkissjóðs. Það er mat Fjármálaráðuneytisins að ná þurfi fram allt að 40-50 milljarða króna sparnaði í ríkisrekstri á fjárlögum ársins 2010. Það svarar til 10% af útgjaldaveltu ráðuneytanna.

Grunnstoðir íslensks efnahagslífs eru þó sterkar. Landið býður uppá aðgengi að hreinum orkugjöfum, ríkulegum auðlindum í hafinu og velmenntað vinnuafl auk þess sem grunnstoðir samfélagsins eru að öðru leyti sterkar. Í þessum aðstæðum felast tækifæri þjóðarinnar til þess að vinna sig upp úr kreppunni til sjálfbærrar þróunar og þessar aðstæður - ásamt því að íbúafjöldi virðist vaxa utan höfuðborgarsvæðisins - rökstyðja að svipaðar áherslur verði lagðar í byggðaþróun nú og við síðustu byggðaáætlanir, að byggja á frumkvæði, auðlindum og mannauði í landshlutunum eins og gert er í vaxtarsamningunum, breyta byggðalegum fjölbreytileika í styrkleika eins og annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópusambandinu. Skilgreina þarf sérkenni svæðanna, samfélög, auðlindir, sóknarfæri og veikleika og byggja áherslur og markmið á niðurstöðunum, samhæfa opinberar áætlanir og miða þær að sömu markmiðum og framtíðarsýn og draga þannig úr líkum á ágreiningi og hámarka samvirkni.

Undirbúningur fyrir þingsályktunartillögu um stefnumótandi byggðaáætlun hófst haustið 2008 með fundum iðnaðarráðuneytis, Byggðastofnunar og annarra undirstofnana ráðuneytisins, um það leyti sem íslenska bankakerfið hrundi. Einmitt þá má segja að skyggni til framtíðar hafi verið minnst um langan tíma, örðugt hafi verið að meta framtíðarhorfur og hverjar áherslur og aðgerðir ættu að einkenna tillögur um stefnumótandi byggðaáætlun.

Ráðuneytið fól Byggðastofnun að vinna að mótun áætlunarinnar og var ákveðið að hafa vinnsluferilinn opinn og leita víða eftir viðhorfum. Því gekkst Byggðastofnun fyrir málþingi undir heitinu Byggðaþróun við breyttar aðstæður föstudaginn 28. nóvember í Reykjavík og bauð til þess fulltrúum allra ráðuneyta, atvinnuþróunarfélaga, samtaka sveitarfélaga og fjölda stofnana sem Byggðastofnun taldi áríðandi að hafa samráð við um áætlunina. Í framhaldinu vann Byggðastofnun úr viðhorfum sem fram komu á máþinginu og lagði til kynningar á vefsíðu sinni ásamt gögnum málþingsins.4 Tillögur mótuðust áfram í samstarfi Byggðastofnunar og iðnaðarráðuneytisins og í mars 2009 voru drög að aðgerðartillögum lögð til kynningar og umsagnar á vefsíðu Byggðastofnunar. Starfsmenn Byggðastofnunar héldu síðan fundi um þau seinni hluta marsmánaðar í samstarfi við átta atvinnuþróunarfélög í jafnmörgum landshlutum auk fundar með starfsmönnum og formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga í Reykjavík. Til funda í landshlutunum voru boðaðir sveitarstjórnarmenn, stjórnir landshlutasamtaka sveitarfélaga og stjórnir og starfsfólk atvinnuþróunarfélaganna, drögin kynnt og rædd, fundarmenn beðnir um ábendingar og athugasemdir sem síðan var skilað til Byggðastofnunar í apríl og raunar fram í maí. Í júní og júlí 2009 voru tillögur þróaðar áfram í samstarfi iðnaðarráðuneytisins og Byggðastofnunar og stofnunin lagði þá fram fylgirit með tillögunni, Byggðaþróun, ástand og horfur.

Í nóvember 2009 voru endurskoðaðar aðgerðartillögur sendar til umsagnar þeirra sem gert höfðu skriflegar athugasemdir á vormánuðum og fylgiritið birt á heimasíðu Byggðastofnunar. Í framhaldinu voru nokkur atriði þess uppfærð í byrjun desember, verkefnaskrár NPP- og NORA-áætlananna og upplýsingar um atvinnuleysi.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Fylgirit_Byggdaaaetlunar_11.09.pdf 2.081Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta