#

Áfangaskýrsla um þekkingarsetur á Íslandi

Skoða venjulega færslu

dc.date.accessioned 2013-08-06T11:07:36Z
dc.date.available 2013-08-06T11:07:36Z
dc.date.issued 2010-10-05
dc.identifier.isbn 978-9979-777-86-1
dc.identifier.uri http://hdl.handle.net/10802/3174
dc.description Á undanförnum árum hafa ýmsir aðilar komið á fót margvíslegum mennta-, menningar- og þekkingarsetrum víðsvegar um landið. Hlutverk setranna eru ólík og eins hefur fjármögnun þeirra verið á mismunandi máta.
Á fundi mennta- og menningarmálaráðherra og Samstarfsnefndar háskólastigsins þann 2. nóvember 2009 var lagt til að gert yrði yfirlit yfir þessa starfsemi á Íslandi, með það að markmiði að kortleggja fjármögnun, skipulag, hlutverk og rekstur þessara ólíku setra. Í framhaldi yrði skoðað nánar með hvaða hætti væri mögulegt að efla og styrkja slíka starfsemi, sérstaklega með auknum tengslum og samstarfi þessara aðila. Þá segir í skilagrein rýnihóps menntamálaráðherra um aðgerðir í háskóla- og vísindamálum frá 27. ágúst 2009: „Þekkingarstofnanir um land allt (rannsóknastofnanir, fræða- og háskólasetur og aðrar stofnanir sem stunda eða geta hýst rannsóknir) verði kortlagðar og myndað verði tengslanet með það markmið að koma á öflugu samstarfi við rannsóknir og kennslu og ná þannig verulegum samlegðaráhrifum“.
Þann 22. janúar 2010 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp sem fékk það erindi að taka saman yfirlit yfir þekkingarsetur á Íslandi.
Starfshópurinn var þannig skipaður:
Hellen M. Gunnarsdóttir, skrifstofustjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, formaður.
Rögnvaldur Ólafsson, forstöðumaður Fræðasetra Háskóla Íslands.
Skúli Skúlason, rektor Hólaskóla - Háskólans á Hólum.
Stefanía Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Þekkingarnets Austurlands.
Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri.
Viðar Hreinsson, framkvæmdastjóri Reykjavíkur Akademíunnar.
Þórarinn V. Sólmundarson, sérfræðingur, þróunarsviði Byggðastofnunar.
Starfsmaður starfshópsins var Guðbjörg Guðmundsdóttir.
Starfshópurinn var settur á fót í tengslum við endurskoðun á háskólakerfinu þar sem skoðað er aukið samstarf, verkaskipting og sameining verkefna til að auka skilvirkni og viðhalda gæðum. Jafnframt var talið æskilegt að hópurinn fjallaði um þekkingarsetur sem heyra undir önnur ráðuneyti, sjálfstæðar stofnanir eða sveitarfélög. Með því er gerð tilraun til að fá heildstætt yfirlit yfir slíka starfsemi um land allt.
Með stofnun starfshópsins er mennta- og menningarmálaráðuneytið jafnframt að framfylgja stefnu Vísinda- og tækniráðs 2010 - 2012 en í stefnunni segir: „Á Íslandi er fjöldi háskóla, stofnana, hugvitsmanna og fyrirtækja sem stunda rannsóknir og nýsköpun. Við núverandi aðstæður þarf að nýta sem best þá krafta sem fyrir eru og þá aðstöðu sem byggð hefur verið upp víðsvegar í landinu. Þó samstarf þessara aðila hafi aukist mikið á undanförnum árum verður að leita leiða til að efla það enn frekar“.
Heitið „þekkingarsetur“ er í þessari skýrslu notað sem samheiti yfir alla starfsemi sem lýtur að menntun, rannsóknum og þróun og menningu auk þjónustu og ráðgjafar, þ.m.t. stoðkerfi atvinnulífsins.
is
dc.description.abstract Í áfangaskýrslu þessari eru birtar niðurstöður sem byggðar eru á þeim grunnupplýsingum sem starfshópur um þekkingarsetur á Íslandi aflaði á tímabilinu febrúar til apríl 2010. Upplýsinga var aflað um viðfangsefni og áherslur setranna, starfsmannahald og menntunarstig, fjármögnun starfseminnar og samstarfsverkefni á árinu 2009. Alls bárust svör frá 189 starfsstöðvum með 864 starfsmönnum í 552,1 stöðugildi. Skil voru einstaklega góð og almennt voru aðilar jákvæðir gagnvart þátttöku í verkefninu og töldu það mikilvægt.
Ljóst er að um mjög fjölbreytta starfsemi er að ræða með tilheyrandi efnahagslegum og menningarlegum áhrifum á hverju svæði. Þekkingarsetrin voru greind í 19 flokka eftir tegund starfseminnar og kom í ljós að setur eru flokkuð sem sérhæfð þekkingarsetur, menningarstarfsemi, háskólasetur, símenntunarmiðstöðvar og aðilar tengdir stoðkerfi atvinnulífsins eru fyrirferðamest. Heildartekjur losa 5 milljarða og er skilgreint ríkisframlag um 50% þeirrar fjárhæðar, sveitarfélögin leggja til 542 milljónir eða 10,7% og sérstaka athygli vekur að tilgreindar aðrar tekjur eru 39,4% heildartekna eða tæpir 2 milljarðar og væri ástæða til að greina uppruna þessa þáttar í fjármögnun sérstaklega. Í samantektarkafla skýrslunnar er birt sundurgreining ofangreindra upplýsinga niður á svæðaskilgreiningu sóknaráætlunar 20/20 og í umfjöllun um einstaka landshluta eru þær brotnar niður á staðsetningu starfsstöðva.
Vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða eru mikilvæg viðbót við umfjöllun skýrslunnar um svæðisbundna þekkingarstarfsemi.
Aflað var upplýsinga um samstarfsverkefni þeirra 189 aðila sem tóku þátt í verkefninu, helstu samstarfsaðila, styrktaraðila og fleira. Eftir er að vinna úr þeim upplýsingum. Kortlagning verkefna sem þekkingarsetrin vinna að, auk yfirlits yfir samstarfs- og styrktaraðila, er mikilvæg, sérstaklega þegar kemur að því að greina virkni svæðisbundinnar þekkingarstarfsemi og tillögugerð um eflingu hennar, m.a. með aukinni samvinnu og samnýtingu.
Þekkingarstarfsemi á landsbyggðinni er margbrotin að samsetningu og einkennist af smáum en fjölbreyttum einingum. Ljóst er að háskóla- og rannsóknarstarfsemi ýmis konar og tengsl hennar við stoðkerfi atvinnulífsins og fyrirtæki er mikilvæg. Jákvæð áhrif slíkrar þróunar fyrir samfélög, t.d. á fjölbreytni í atvinnu- og mannlífi er vel þekkt. Menningarstarfsemi er einnig afar mikilvæg í þessu samhengi. Menningarleg kjölfesta býr í haginn fyrir nýsköpun þar sem hún eflir framtakssemi í atvinnulífi og gerir staði aðlaðandi til búsetu fyrir menntað vinnuafl.
Samstarf og samskipti eru lykillinn að því að umbreyta rannsóknum og þróunarvinnu í raunverulega nýsköpun, vöruþróun, viðskiptatækifæri, samfélagsumbætur og aukna velferð. Samskipti og samstarf eru þannig jafn mikilvæg og fjárfestingar í rannsóknum og þróun. Forsenda skilvirks nýsköpunarkerfis í þekkingarsamfélagi nútímans er flæði þekkingar á milli fyrirtækja, háskóla og rannsóknastofnana. Með enn frekara samstarfi þekkingarsetra sín á milli, við háskóla, rannsóknarstofnanir og fyrirtæki má nýta mannauð og aðstöðu enn betur og stórauka aðgengi nemenda og fræðimanna að auðlindum menningar og náttúru landsins.
is
dc.language.iso is
dc.publisher Mennta- og menningarmálaráðuneytið is
dc.subject Menntamál is
dc.subject Menntakerfi is
dc.title Áfangaskýrsla um þekkingarsetur á Íslandi is
dc.type Skýrsla is


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Afangaskyrsla_thekkingarsetur_05_10_2010.pdf 2.557Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða venjulega færslu

Leita


Fletta