#

Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2010

Skoða venjulega færslu

dc.date.accessioned 2013-07-10T10:37:02Z
dc.date.available 2013-07-10T10:37:02Z
dc.date.issued 2011-04
dc.identifier.uri http://hdl.handle.net/10802/3031
dc.description.abstract Árið 2010 var mörgum ríkisstofnunum erfitt í rekstri. Í fjárlögum ársins voru útgjaldaheimildir skornar niður og þurftu stofnanir að grípa til aðgerða í því skyni að laga starfsemi sína að breyttum forsendum. Mánaðaryfirlit Fjársýslu ríkisins árið 2010 sýndu þó að allflestar stofnanir náðu að draga svo úr starfsemi sinni að fjárheimildir dugðu til að mæta kostnaði. Ekki er úr vegi að hrósa forstöðumönnum og starfs-mönnum stofnana fyrir almennt árangursríka starf-semi á árinu og viðunandi rekstrarniðurstöðu í árslok.
Ríkisendurskoðun tók í störfum sínum á árinu 2010 mið af þeim erfiðleikum sem við er að etja í ríkisrekstrinum um þessar mundir. Stofnunin reynir jafnan að laga starfsemi sína að aðstæðum og leitast við að taka mið af þeim við val og úrlausn verkefna. Á undanförnum misserum hefur verið lögð áhersla á stuttar og afmarkaðar skýrslur til að stuðla að því að Alþingi og stjórnsýslan fái tímanlegar upplýsingar sem nýst geta við ákvarðanatöku. Sem dæmi má nefna úttekt stofnunarinnar á innkaupamálum ríkisins sem tekur bæði til vöru- og þjónustukaupa (sjá bls. 23–25). Á síðasta ári gaf stofnunin út samtals fjórar áfangaskýrslur með niðurstöðum þessarar úttektar auk tveggja sjálfstæðra ábendinga. Þær síðarnefndu eru í raun stuttar skýrslur (einblöðungar) og nýjung í útgáfumálum stofnunarinnar. Ég tel að þetta form geti vel átt við þegar verkefni er afmarkað og kallar ekki á mjög ítarlega rannsókn og greiningu. Á sama tíma er lögð áhersla á að hvergi sé slakað á kröfum um gæði þeirrar athugunar sem að baki liggur.
Á síðasta ári beindi Ríkisendurskoðun einnig sjónum að sameiningu ríkisstofnana og birti þrjár skýrslur með niðurstöðum úttekta á því sviði (sjá nánar bls. 25–26). Þegar kreppir að þurfa stjórnvöld og stofnanir að leita nýrra leiða til að nýta takmarkaða fjármuni ríkisins sem best. Ríkisstofnanir hér á landi eru almennt mjög fámennar miðað við nágrannalöndin. Árið 2010 voru þannig 65 stofnanir og fjárlagaliðir með á bilinu 1–10 ársverk og 128 með á bilinu 1–30 ársverk. Stofnanir af þessari stærðargráðu eru óhagstæðar rekstrareiningar og því er brýnt að sameina og stækka þær til að nýta fjármuni betur. Ég tel að þetta eigi að vera forgangsverkefni ráðuneyta og að þau eigi ekki að leggja til að settar verði á stofn nýjar örstofnanir þegar augljóslega er hægt að koma verkefnum fyrir hjá stofnunum eða rekstrareiningum sem annast sömu eða skylda starfsemi.
Á undanförnum árum hefur Ríkisendurskoðun ítrekað bent á nauðsyn þess að ráðist verði í endurskoðun laga nr. 88/1997 um fjárreiður ríkisins. Á síðasta ári var fjársýslustjóri, Gunnar H. Hall, skipaður formaður ríkisreikningsnefndar og hafa hann og nefndin orðið ásátt um að efla starf hennar verulega og hefja vinnu við endurskoðun laganna. Nefndin hefur m.a. skipað starfshópa til að fjalla um einstök atriði sem lögin taka ekki á eða ágreiningur er um. Í þessu sambandi má t.d. nefna reglur er varða leigusamninga, samninga um einkaframkvæmd og skuldbindingar ríkisins í tengslum við þá, eignfærslu varanlegra rekstrarfjármuna og markaðar tekjur, svo dæmi séu nefnd. Ég vil nota tækifærið hér og fagna því að þessi vinna skuli vera hafin.
Árið 2009 ákvað Ríkisendurskoðun að hætta að prenta skýrslur sínar í sparnaðarskyni. Þær eru hins vegar birtar á vefsíðu stofnunarinnar. Einnig eru forseta Alþingis og hlutaðeigandi aðilum send útprentuð eintök. Forsetinn ákveður síðan hvaða nefnd Alþingis fær skýrsluna til umfjöllunar og eftir atvikum til afgreiðslu. Þegar nefndin tekur skýrsluna á dagskrá er ríkisendurskoðanda boðið að kynna efni hennar og niðurstöður. Þetta fyrirkomulag er núorðið í föstum skorðum og lýsi ég ánægju minni með það. Hins vegar tel ég að það væri árangursríkara ef þingnefndir skiluðu ávallt skriflegu áliti um skýrslur Ríkisendurskoðunar eftir að hafa fjallað um þær. Þetta hafa bæði fjárlaganefnd og menntamálanefnd gert með eftirtektarverðum hætti.
Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp til breytinga á lögum um þingsköp þar sem m.a. eru lagðar til breytingar á nefndaskipan þingsins. Lagt til að komið verði á fót stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem falið verði að fjalla um skýrslur Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis. Með þessu móti er ætlunin að styrkja eftirlitshlutverk þingsins en eftirlitsnefndir af þessu tagi starfa innan þjóðþinga ýmissa nágrannaríkja okkar. Eftir sem áður er þó gert ráð fyrir að fjárlaganefnd fjalli um skýrslur Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga og endurskoðun ríkisreiknings. Stofnunin er hlynnt þessari breytingu og vonar að hún nái fram að ganga.
Hinn 1. apríl 2010 tók gildi nýtt skipurit Ríkisendurskoðunar. Fagleg starfsemi hennar fer nú að mestu fram á tveimur fagsviðum, endurskoðunarsviði og stjórnsýslusviði. Stoðsviðin eru þrjú en ýmis eftirlits- og sérverkefni eru unnin á skrifstofu ríkisendurskoðanda. Að undanförnu hefur verið unnið að stefnumótun fyrir stofnunina sem byggð er á aðferðafræði stefnumiðaðs árangursmats (balanced scorecard). Standa vonir til þess að þeirri vinnu ljúki nú á vordögum.
Árið 2003 setti Ríkisendurskoðun sér siðareglur sem tóku mið af siðareglum Alþjóðasamtaka ríkisendurskoðana (International Organization of Supreme Audit Institutions – INTOSAI). Í byrjun síðasta árs var ákveðið að uppfæra siðareglur stofnunarinnar og var í þeirri vinnu m.a. höfð hliðsjón af tillögu starfshóps um siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðs Íslands. Hana er að finna í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráðið sem lagt var fram á Alþingi í febrúar 2010 og samþykkt í júní. Í sama mánuði tóku uppfærðar siðareglur Ríkisendurskoðunar gildi en þær má lesa á bls. 42–43 í þessari skýrslu.
Í nóvember 2010 samþykkti þing INTOSAI nýja endurskoðunarstaðla fyrir ríkisendur-skoðanir, svokallaða ISSAI-staðla (International Standards of Supreme Audit Institutions). Staðlar þessir byggja á alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum (Inter-national Standards of Auditing – ISA) sem Alþjóðasamtök endurskoðenda (Inter-national Federation of Accountants – IFAC) hafa gefið út. ISSAI-staðlarnir fela í sér aðlögun síðarnefndu staðlanna að opinberum rekstri en eðli hans er sem kunnugt er nokkuð frábrugðið rekstri einkafyrirtækja. Ríkisendurskoðun mun innleiða þessa staðla í starfsemi sinni á árinu 2011 og er sú vinna þegar hafin. Nánar má lesa um þessa staðla og áhrif þeirra á starfsemi Ríkisendurskoðunar á bls. 39–40 í þessari skýrslu.
Starfsemi Ríkisendurskoðunar á árinu 2010 mótaðist af þeim niðurskurði fjárveitinga sem Alþingi ákvað við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2010. Fjárheimildir stofnunarinnar lækkuðu þá um 34,5 m.kr. frá fyrra ári. Rekstraráætlun stofnunarinnar gerði ráð fyrir um 12 m.kr. tekjuhalla á árinu en reyndin varð um 16 m.kr. tekjuafgangur. Ástæða þessa viðsnúnings er annars vegar sú að þjónustutekjur urðu verulega hærri en áætlað hafði verið og hins vegar að það tókst að halda útgjöldum innan þeirra marka sem áætlunin gerði ráð fyrir.
Heildareignir Ríkisendurskoðunar námu 76,8 m.kr. í árslok 2010, skuldir 6,9 m.kr. og ónýttar fjárheimildir 69,9 m.kr. Fjöldi starfsmanna var þá 47 en tveir hættu á árinu. Ársverk 2010 mæld miðað við dagvinnulaun voru 44,9 og fækkaði um 1,9 frá fyrra ári.
is
dc.language.iso is
dc.publisher Ríkisendurskoðun is
dc.subject Stjórnsýsluúttekt is
dc.subject Endurskoðun is
dc.title Ársskýrsla Ríkisendurskoðunar 2010 is
dc.type Ársskýrsla is


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
arsskyrsla_2010-4.pdf 1.616Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða venjulega færslu

Leita


Fletta