#

Verktakagreiðslur við Háskóla Íslands (febrúar 2010)

Skoða fulla færslu

Titill: Verktakagreiðslur við Háskóla Íslands (febrúar 2010)Verktakagreiðslur við Háskóla Íslands (febrúar 2010)
URI: http://hdl.handle.net/10802/2864
Útgefandi: Ríkisendurskoðun
Útgáfa: 03.2013
Efnisorð: Háskólar; Háskóli Íslands; Verktakar; Opinber rekstur
Tungumál: Íslenska
Tegund: Skýrsla
Útdráttur: Í skýrslunni Verktakagreiðslur við Háskóla Íslands (febrúar 2010) beindi Ríkisendurskoðun athygli að allháum verktakagreiðslum Háskóla Íslands til nokkurra fastráðinna akademískra starfsmanna sinna og félaga sem þeir áttu eða sátu í stjórn. Greiðslurnar voru fyrir kennslu sem var skilgreind sem endurmenntun, var ekki hluti af starfsskyldum akademískra starfsmanna skólans og var innt af hendi utan venjulegs vinnutíma þeirra. Að mati Ríkisendurskoðunar báru þessar greiðslur ýmis merki „gerviverktöku“, þ.e. þær runnu án auglýsingar til einstaklinga sem höfðu kennslu við Háskóla Íslands að aðalstarfi, fengu þar endurgjaldslausa vinnuaðstöðu og aðgang að nauðsynlegum aðföngum, verkfærum og tækjum og nutu sömuleiðis endurgjaldslausrar aðstoðar frá öðrum starfsmönnum skólans. Ólíkt venjulegri verktöku stóð umrædd kennsla því ekki öllum þeim til boða sem höfðu getu og vilja til að sinna henni og fjárhagsleg ábyrgð verktakanna var lítil sem engin. Að auki náðu reglur Háskóla Íslands sem áttu að tryggja að viðamikil aukastörf akademískra starfsmanna hans kæmu ekki niður á aðalstarfi þeirra við skólann ekki til þessarar starfsemi þar sem þær beindust eingöngu að aukastörfum utan skólans. Í skýrslu sinni beindi Ríkisendurskoðun þremur ábendingum til Háskóla Íslands: Í fyrsta lagi þeirri að skólanum bæri að fylgja reglum um mun á verktakavinnu og launavinnu, í öðru lagi að tryggja þyrfti gagnsæi og jafnræði við ráðningu kennara þegar um umfangsmikil störf væri að ræða og í þriðja lagi að herða þyrfti á reglum skólans um helgun í starfi. Með nýjum og breyttum reglum sem háskólaráð samþykkti á fundi sínum 3. júní 2010 tók Háskóli Íslands fyrir að fastir starfsmenn hans væru jafnframt verktakar við skólann. Einnig var kveðið á um að háskólanum væri óheimilt að kaupa af starfsmönnum sínum þjónustu á starfssviði þeirra, þar á meðal kennslu og rannsóknir. Sama máli gilti um félög sem þeir eða fjölskyldumeðlimir þeirra ættu verulegan hlut í. Þá bæri að bjóða út verktakavinnu og innkaup ef áætlaður kostnaður færi umfram tilgreint hámark. Loks voru þar ákvæði til að tryggja að fastráðnir starfsmenn háskólans sem vinna á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands eða annarra stofnana hans uppfylli starfsskyldur sínar í aðalstarfi, þ. á m. kennsluskyldu og stjórnunarstörf. Með þessum reglubreytingum lítur Ríkisendurskoðun svo á að brugðist hafi verið með fullnægjandi hætti við öllum ábendingum hennar og að aðkomu stofnunarinnar að umræddum þætti í starfsemi Háskóla Íslands sé þar með lokið.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Verktakagreidslur_HI_skyrsla.pdf 279.2Kb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta