#

Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar á Íslandi : Skýrsla um viðbrögð og starfshætti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna ásakana um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot vígðra þjóna og annarra starfsmanna kirkjunnar

Skoða fulla færslu

Titill: Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar á Íslandi : Skýrsla um viðbrögð og starfshætti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna ásakana um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot vígðra þjóna og annarra starfsmanna kirkjunnarRannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar á Íslandi : Skýrsla um viðbrögð og starfshætti kaþólsku kirkjunnar á Íslandi vegna ásakana um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot vígðra þjóna og annarra starfsmanna kirkjunnar
URI: http://hdl.handle.net/10802/2717
Útgáfa: 02.11.2012
Efnisorð: Ofbeldi; Kynferðisleg misnotkun barna; Rómversk kaþólska kirkjan; Ísland
Tungumál: Íslenska
Tegund: Bók
Athugasemdir: Að beiðni Péturs Bürcher, biskups kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, skipaði prófessor Róbert R. Spanó, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, hinn 29. ágúst 2011 sjálfstæða og óháða rannsóknarnefnd sem falið var að rannsaka starfshætti og viðbrögð kaþólsku kirkjunnar vegna ásakana á hendur vígðum þjónum og starfsmönnum kirkjunnar. Í nefndina voru skipuð Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari, formaður, Hrefna Friðriksdóttir dósent og Jón Friðrik Sigurðsson prófessor. Nefndin hefur nú lokið störfum og er niðurstöður hennar að finna í þessari skýrslu. Samkvæmt sérstökum starfsreglum sem rannsóknarnefndinni voru settar bar henni að rannsaka alla starfshætti og viðbrögð vegna ásakana sem fram hafa komið á hendur vígðum þjónum og starfsmönnum kaþólsku kirkjunnar um kynferðislegt eða annað ofbeldi og leggja mat á hvort mistök, vanræksla eða vísvitandi þöggun eða tilraun til þöggunar hafi átt sér stað í því sambandi. Einnig var henni ætlað að setja fram ábendingar og tillögur um breytingar á starfsháttum kirkjunnar vegna ásakana um kynferðisbrot eða önnur ofbeldisbrot. Vert er að leggja áherslu á að nefndinni var ekki falið að rannsaka eða taka afstöðu til sannleiksgildis ásakana sem fram hafa komið um kynferðisofbeldi eða önnur brot.Taka uppbygging og efnistök skýrslunnar mið af þessari afmörkun á hlutverki nefndarinnar. Þá ber að geta þess að hlutverk rannsóknarnefndar kaþólsku kirkjunnar er afmarkað með sambærilegum hætti og hlutverk rannsóknarnefndar sem kirkjuþing þjóðkirkjunnar skipaði árið 2010. Rannsóknarnefnd kirkjuþings skilaði ítarlegri skýrslu árið 2011 þar sem meðal annars er fjallað um afmörkun hlutverksins, eðli og afleiðingar ofbeldis og settar fram ábendingar og tillögur til úrbóta. Rannsóknarnefnd kaþólsku kirkjunnar hefur tekið nokkuð mið af þessari skýrslu þar sem það á við. Á undanförnum áratugum hefur verið stigvaxandi meðvitund um ofbeldi og illa meðferð sem börn hafa oft þurft að þola af hendi ýmissa sem falin hefur verið umsjón þeirra. Þá hefur stöðugt komið skýrar í ljós hversu alvarlegar afleiðingar ofbeldis geta verið fyrir þolanda. Ofbeldi af hálfu þess sem er í valdastöðu eða í trúnaðarsambandi við þolanda, svo sem trúarleiðtoga, prests, skólastjóra eða kennara, hefur nokkra sérstöðu. Við ofbeldið misnotar fagaðilinn sér það óskilyrta traust sem þolandi ber til hans og það vald sem stöðu hans fylgir. Við þessar aðstæður eiga þolendur oft mjög erfitt með að segja frá ofbeldinu og það getur varað í langan tíma. Ofbeldi af hálfu trúarleiðtoga eða starfsmanns trúfélags getur einnig haft langvarandi neikvæð áhrif á trú og trúariðkun þolanda og þar með sérstaklega alvarlegar afleiðingar fyrir sjálfsmynd og félagsþroska. Það er afar brýnt að trúarsamfélag setji sér skýr viðmið og verklag um öflugar forvarnir, virka fræðslu og markviss viðbrögð við ásökunum um hvers konar ofbeldi. Allir starfshættir trúarsamfélags verða að einkennast af virðingu og skilningi í samræmi við það hlutverk sem trúfélag hefur í samfélaginu. Þá er brýnt að allir starfsmenn trúarsamfélags þekki og fari eftir lögum landsins hverju sinni. Viðmælendur rannsóknarnefndarinnar sögðu sumir frá alvarlegu ofbeldi sem þeir hefðu orðið fyrir af hálfu starfsmanna kirkjunnar. Nokkrir sögðust áður hafa reynt að koma á framfæri ásökunum en aðrir voru að segja frá í fyrsta sinn. Það er flestum þolendum tilfinningalega erfið lífsreynsla að segja frá ofbeldi og afleiðingum þess. Rannsóknarnefndin vill sérstaklega þakka öllum þeim sem voru reiðubúnir til þess að koma á fund nefndinnar og segja frá reynslu sinni. Nefndin þakkar einnig biskupi og starfsmönnum kirkjunnar fyrir þá aðstoð sem veitt var við vinnu þessarar skýrslu. Í 1. kafla skýrslu rannsóknarnefndarinnar er fjallað um skipan, hlutverk og starfshætti nefndarinnar og þar er einnig að finna samantekt um helstu niðurstöður. Í 2. kafla er farið nokkrum orðum um uppbyggingu og helstu stofnanir kaþólsku kirkjunnar á Íslandi og gerð grein fyrir þeirri löggjöf sem mestu máli skiptir fyrir verkefni rannsóknarnefndarinnar. Í 3. kafla eru talin upp þau gögn og upplýsingar sem liggja til grundvallar niðurstöðum nefndarinnar. Þá er í 4. Kafla gerð grein fyrir þeim frásögnum sem fram hafa komið um ofbeldi gegn börnum og að hverjum þær beinast. Í 5. kafla er gerð grein fyrir frásögn um kynferðislega misnotkun fullorðins einstaklings. Í 6. kafla er fjallað um ásakanir sem komið var á framfæri við kirkjuna vegna ofbeldisbrota og sem gátu gefið kirkjunni tilefni til viðbragða. Í 7. kafla eru greind viðbrögð kirkunnar í kjölfar ásakana og þar er einnig að finna ályktanir rannsóknarnefndarinnar um mistök, vanrækslu eða þöggun. Loks er í 8. kafla gerð grein fyrir tillögum til úrbóta.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
Skyrsla.pdf 3.789Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta