Athugasemdir:
|
Eins og að undanförnu fara sýningar Kvikmyndasafns Íslands fram í Bæjarbíói í Hafnarfirði. Oftsinnis hefur verið að því spurt hvort ekki sé hægt að sýna hverja mynd í dagskrá safnsins oftar en verið hefur. Ýmsar samverkandi ástæður hafa valdið því að hver mynd hefur einungis verið sýnd tvisvar. Nú hefur verið ákveðið að gera tilraun með breytt fyrirkomulag. Það byggist á því að einungis verði sýndar íslenskar kvikmyndir úr fórum safnsins á næsta sýningartímabili. Sýningar fara eftir sem áður fram á þriðjudögum kl. 20:00 og laugardögum kl. 16:00 eins og verið hefur en sýningartímabil hverrar myndar eða samsettrar syrpu úr mörgum myndum mun að jafnaði standi yfir í um einn mánuð. Nóvembersýningarnar teygja sig þó inn í miðjan desember og sýningar sem byrja að áliðnum janúar munu standa út febrúar. Sjá nánar um þetta fyrirkomulag í meðfylgjandi dagatalstöflum. Í maímánuði verða einungis þrjár sýningar en reynslan hefur sýnt að sá mánuður freistar ekki sýningargesta Kvikmyndasafns Íslands.
Drjúgur hluti íslenska safnkostsins frá fyrri tíð er ekki í nothæfu ástandi fyrir kvikmyndasýningar á bíótjaldi. Í sumum tilvikum er ekki á það hættandi að setja efnið í sýningavélar, óhentugt er að sýna 16mm filmur í bíói, gera þarf gamlar kvikmyndir upp svo þær séu sýningarhæfar og síðast en ekki síst þá er til talsvert safn af verðmætu og skemmtilegu heimildarmyndaefni sem safnið varðveitir óklippt og án hljóðs. Allt þetta efni er hægt að gera sýningarhæft með skönnun og lágmarks eftirvinnslu. Safnið hefur verið að fikra sig áfram á þeirri braut og hyggst nú nýta sér afrakstur þeirrar vinnu fyrir sýningamisserið sem í hönd fer. Lögð hefur verið sérvalin tónlist við allar þöglar myndir misserisins og heilu myndasyrpurnar hafa verið snurfussaðar eða klipptar og skýrðar með textaskiltum. Akureyrarefnið var t.d. klippt frá grunni við tónlist J. S. Bachs en án þess þó að líta megi á útkomuna sem fullgilda kvikmynd. Aðrar kvikmyndir voru fínklipptar og/eða samklipptar upp úr besta fáanlega frumefninu eins og við á um Sögu Borgarættarinnar, sem nú skartar einnig nýrri tónlistarrás. Starfsmenn safnsins önnuðust sjálfir alla þessa eftirvinnslu. Það verður síðan að koma í ljós hvernig þessi nýbreytini mælist fyrir hjá unnendum safnsins og þeim sem hafa áhuga á kvikmyndaarfleifð íslensku þjóðarinnar |