Útdráttur:
|
Jólin hafa löngum verið rithöfundum innblástur og getið af sér mörg klassísk bókmenntaverk, bæði sögur og ljóð. Hér bjóðum við upp á bók með völdu jólaefni úr ýmsum áttum, sem við teljum að endurspegli það besta sem slíkt efni kallar fram. Er annars vegar um að ræða efni eftir íslenska höfunda og hins vegar þýtt efni. Hvað íslenska efnið varðar, þá reyndum við að velja sögur sem hafa kannski ekki verið mikið lesnar á undanförnum árum þó þær eigi jafn mikið erindi við okkur í dag og þegar þær voru skrifaðar; sannkallaðar perlur úr fortíðinni. Eru það sögur eftir öndvegishöfunda á borð við Jónas Jónasson frá Hrafnagili, Jóhann Magnús Bjarnason og ein eftir Jón Trausta (Guðmund Magnússon). Þá er ekki hægt að gefa út jólabók nema ljóð Stefáns frá Hvítadal sé þar með. Þýddu sögurnar koma úr ýmsum áttum, en þar má finna sögur eftir ekki ómerkari höfunda en François Coppée, Fyodor Dostoyevsky og að sjálfsögðu er það líka að finna sögu H. C. Andersens, Litla stúlkan með eldspýturnar. |