Útdráttur:
|
Harðar saga og Hólmverja telst til svokallaðra útlagasaga eins og Grettis saga og Gísla saga Súrssonar þó hún sé um margt frábrugðin þeim. Hún gerist á 10. öld og segir sögu Harðar Grímkelssonar, sem ungur heldur utan og hlýtur þar vegsemdir, fær Helgu jarlsdóttur af Gautlandi, en þegar hann kemur aftur heim til Íslands lendir hann í vígsmálum og er dæmdur til útlegðar. Gerist hann foringi fyrir stigamannaflokki, sem býr um sig í Geirshólma í Hvalfirði uns á endanum að hann er veginn. Ekkjan, Helga Jarlsdóttir, syndir síðan til lands með syni þeirra tvo fjögurra og átta ára og komast þau undan. Styrmir fróði Kárason (d. 1245) hefur verið nefndur sem höfundur frumgerðar sögunnar en það eru þó bara getgátur. Sagan þykir á margan hátt endurspegla rósturtíma Sturlungaaldar og hafa margir séð ákveðin líkindi með Herði og Sturlu Sighvatssyni. |