Útdráttur:
|
Í skýrslunni er fjallað um niðurstöður sex aurburðarferða sem farnar voru á vegum Landsvirkjunar að vestari kvísl Skaftár, Sveinstindi, Ása-Eldvatni, Kirkjubæjarklaustri og Skaftárdal árið 2004. Í ferðunum voru tekin svifaurssýni á öllum stöðum og skriðaurssýni á öllum nema við vestari kvísl og Skaftárdal. Öll svifaurssýnin og hluti skriðaurssýnanna voru kornastærðargreind. Heildarstyrkur svifaurs var hæstur í sýnum frá vestari kvísl og næsthæstur við Sveinstind, en óverulegur munur var á heildastyrk sýnanna af neðra svæðinu þrátt fyrir að mikill munur væri á rennsli milli staðanna. Grófustu svifaurssýnin voru tekin við vestari kvísl þar sem sandur (>0,2 mm) var stór hluti sýnanna, en á öðrum stöðum var grófmór (0,06-0,2 mm) jafnstór eða stærri hluti sýnanna. Meðalflutningur skriðaurs var mjög misjafn innan farvegarins milli sýnatökusyrpa á hverjum stað fyrir sig en skriðaurinn samanstóð aðallega af sandi með fínmöl í nokkrum sýnum. Heildarflutningur skriðaurs var mestur við Sveinstind (5-30 kr/s), næstmestur við Ása-Eldvatn (5-20 kg/s) en minnstur við Kirkjubæjarklaustur (rúmlega 5-10 kg/s). |