Útdráttur:
|
Rannsóknin fjallar um heterósexíska orðanotkun íslenskra framhaldsskólanemenda sem hefur ýmsar birtingarmyndir. Erlendar rannsóknir benda til að orðanotkunin valdi nemendum óþægindum en fáar íslenskar rannsóknir fjalla um efnið. Markmiðið var að skoða tilteknar íslenskar birtingarmyndir orðanotkunarinnar, svo sem notkun orðanna faggi/faggalegt um óviðeigandi hegðun og gay um heimskulega/asnalega hegðun/fyrirbæri. Algengi orðanotkunarinnar var skoðað, kynjamunur, aðstæðurnar sem orðanotkunin fór fram í innan skóla, á netinu og annars staðar samanborið við utan skóla og áhrif orðalagsins á líðan nemenda. Gagna var aflað með spurningalista sem var lagður fyrir nemendur 18 ára og eldri (n=149) í þremur framhaldsskólum með bekkja- eða áfangakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Algengi orðanotkunarinnar var misjafnt, transa/tranný yfir trans fólk var sjaldgæfast (5%) en faggi/faggalegt yfir óviðeigandi hegðun var algengast (54%) og því næst kynskiptingur yfir trans fólk (34%). Strákar voru líklegri en stelpur til að hafa notað sum form heterósexísks orðalags. Hærra hlutfall þátttakenda taldi að þeir væru líklegri til að nota heterósexískt orðalag utan skóla en í búningsklefanum, í íþróttatíma eða í skólastofum. Hlutfall þátttakenda sem upplifði óþægindi af að heyra orðanotkunina var misjafnt. Hæst hlutfall þátttakenda upplifði óþægindi af að heyra trukkalessa um stelpu sem hegðaði sér ekki kvenlega (65%), 64% upplifðu óþægindi af að heyra gay yfir heimskulega/asnalega hegðun og 63% af að heyra faggi yfir strák sem hegðaði sér ekki karlmannlega. Fæstir þátttakendur upplifðu óþægindi af að heyra orðið kynskiptingur um trans fólk (32%). Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að íslenskir framhaldsskólanemendur noti heterósexískt orðalag í mismiklum mæli en margir upplifi óþægindi af að heyra það... |