dc.description.abstract |
Í greininni er fjallað um íslenskan hluta norrænnar rannsóknar á nýliðum í grunn- og framhaldsskólum – Nordment1 . Rannsóknin var unnin í samstarfi fræðimanna frá háskólunum í Osló, Gautaborg, Árósum, Turku og Akureyri. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig stuðningur í skólum, skólastjórnun og skipulag innan skóla hefur áhrif á það hvernig nýir kennarar aðlagast kennarastarfinu og hvernig þeir meta eigin færni og þær aðstæður sem skólarnir bjóða þeim. Þýði rannsóknarinnar var kennarar á 1.–3. starfsári eða sem höfðu nýlokið þremur starfsárum. Rannsóknin var megindleg og var sami spurningalisti notaður, þýddur og staðfærður, í öllum þátttökulöndunum. Hér á landi var spurningalistinn sendur til 280 kennara, um þriðjungur starfaði í framhaldsskóla og tveir þriðju í grunnskóla. Niðurstöður eru byggðar á svörum 239 kennara, svarhlutfall var rúm 85%. Meginmarkmið þessarar greinar er að gefa innsýn í þann hluta niðurstaðnanna sem lýtur að leiðsögn nýliða í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi. Skoðað er hvernig henni er háttað á fyrsta starfsári og hvort tengsl eru milli formlegrar leiðsagnar, tíðni funda með leiðsagnarkennara og mats nýliða á gagnsemi leiðsagnarinnar. Helstu niðurstöður eru þær að leiðsögn hefur áhrif á starfshætti og líðan nýliða ef hún er veitt af kennara sem hefur svipaðan faglegan grunn og nýliðinn og ef þeir funda reglulega saman á leiðsagnartíma. Um þriðjungur þátttakenda hafði hugleitt að hætta í starfi en aðeins tíundi hluti þeirra hafði þó leitað sér að öðru starfi. Ekki voru tengsl milli hugleiðinga þeirra um brotthvarf og þess stuðnings sem þeir fengu í starfi. |
is |