Útdráttur:
|
Miðlanotkun spannar sjónvarpsáhorf, tölvuleiki, netnotkun og snjalltækjanotkun. Í ljósi tækniþróunar er mikilvægt að rannsaka miðlanotkun barna allt niður í nokkurra mánaða aldur en það hefur ekki verið gert á Íslandi hingað til. Markmið rannsóknarinnar sem hér er lýst var að gefa yfirlit yfir miðlanotkun barna á Íslandi á aldrinum 0–8 ára og viðhorf foreldra til notkunarinnar. Hér er um fyrsta yfirlit að ræða. Tekið var lagskipt, handahófskennt úrtak 2000 barna á þessum aldri af öllu landinu úr Þjóðskrá, netföng fundust hjá foreldrum 1448 barna (72,4%) og óskað var eftir að þeir svöruðu rafrænum spurningalista að fyrirmynd Sænsku fjölmiðlanefndarinnar. Gild svör bárust frá foreldrum 860 barna sem er 59,4% þátttökuhlutfall en vegna affalla í upphafi er ekki hægt að líta svo á að niðurstöður hafi alhæfingargildi. Niðurstöðurnar gefa þó nokkurt yfirlit, en þær benda til þess að þegar fimm ára aldri hefur verið náð aukist líkur á að börnin eigi sín eigin tæki til miðlanotkunar, sérstaklega spjaldtölvur. Hins vegar deila börn oft snjalltækjum með öðrum í fjölskyldunni, t.a.m. er því svo farið með 62% barna í aldurshópnum 2–4 ára en í þessum aldurshópi notar 71% spjaldtölvu einhvern tíma. Allra yngstu börnin (0–1 árs) nota netið að nokkru marki (4% daglega) en um 80% þess aldurshóps nota netið aldrei. Foreldrar eru oft með börnunum við miðlanotkun en samveran minnkar með hækkandi aldri barnanna. Sjónvarpsáhorf er algeng miðlanotkun meðal 5–8 ára og reglur foreldra eru rýmri um hana en aðra notkun. Sumir foreldrar hafa engar reglur um miðlanotkun en mikill meirihluti þeirra telur að foreldrar beri mesta ábyrgð þegar kemur að því að vernda börn við miðlanotkun. Niðurstöður eru nokkuð í samræmi við niðurstöður úr rannsóknum Sænsku fjölmiðlanefndarinnar... |