Útdráttur:
|
Allt fer á annan endann í friðsælli þorpsveröldinni þegar Freyja birtist skyndilega einn góðan veðurdag, komin alla leið frá Ameríku. Og ekki að undra þegar önnur eins kona er á ferðinni. Hárið er þykkt og svart og nær niður á mjaðmir, augun ísblá og stingandi, varirnar rjóðar og vöxturinn fullkominn. Hún borðar ekki kjöt, á sjö koffort af flíkum og er kaldari viðmóts en lík. Brátt verður hús afa og ömmu vettvangur flókinna ástamála og undarlegrar atburðarásar þegar hið rótgróna kvennasamfélag fer allt úr skorðum. Með öllu fylgist hin hnýsna Agga vökulu auga og tekur gjarnan til sinna ráða á mikilvægum augnablikum. Mávahlátur er fysta bók Kristínar Marju Baldursdóttur, saga sem iðar af hugkvæmni og frásagnargleði. Sögusviðið er sjávarpláss á 6. áratug síðustu aldar, persónurnar ljóslifandi og eftirminnilegar. Þetta er allt í senn þorpssaga, kvennasaga, glæpasaga, ástarróman og um leið trúverðug aldarfarslýsing á tímum sem margir muna. |