Útdráttur:
|
Ef maður hrindir af stað of stórum byltingum sviðnar jörð og rýkur úr rústum. Það verður mannfall og sér stórlega og jafnvel varanlega á umhverfinu. Mannsaldrar geta farið í að jafna sig eftir stórar byltingar og sjálfur skaðast maður oftast mest, tortímir jafnvel sjálfum sér. En ef maður gerir litlar byltingar, alla daga, ef maður gerir byltingar sem fæstir taka eftir, þá hreyfist veröldin með manni þangað sem förinni er heitið. Kennslukonan Glóa flýr kaldan klakann og sest að í lukkulandinu Danmörku. En þegar ellin færist yfir leitar hugurinn heim – til formæðra og áhrifavalda. Litlar byltingar eru sögur af tíu konum sem spanna í senn eitt kvöld, eitt ár og heila öld. Hér óma raddir mæðgna, systra og dætra sem dreymir um betri daga, sléttar götur, frjálsar konur og börn sem lifa. |