#

Athugun á starfsemi Grunnskólans á Þórshöfn : Unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið desember 2011

Skoða fulla færslu

Titill: Athugun á starfsemi Grunnskólans á Þórshöfn : Unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið desember 2011Athugun á starfsemi Grunnskólans á Þórshöfn : Unnin fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið desember 2011
Höfundur: Árný Elíasdóttir 1952 ; Inga Björg Hjaltadóttir 1970
URI: http://hdl.handle.net/10802/3393
Útgefandi: Mennta- og menningarmálaráðuneytið
Útgáfa: 12.2011
Efnisorð: Stjórnsýsluúttekt; Grunnskólar
Tungumál: Íslenska
Tegund: Skýrsla
Athugasemdir: Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir úttekt á starfsemi Grunnskóla Þórshafnar. Úttekt þessi er unnin á vegum Attentus - mannauður og ráðgjöf fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið. Höfundar skýrslunnar eru Árný Elíasdóttir og Inga B. Hjaltadóttir.

Skýrsluhöfundar þakka stjórnendum, starfsfólki, nemendum, foreldrum, skólaráði, fræðslunefnd, sveitarstjórn og öðrum viðmælendum fyrir aðstoð við gagnaöflun og samstarf meðan á úttektinni stóð.
Útdráttur: Í þessari skýrslu er gerð grein fyrir athugun á afmörkuðum þáttum í starfsemi Grunnskólans á Þórshöfn. Markmiðið með athuguninni er m.a. að leggja mat á stjórnun skólans, skólabrag, samskipti innan hans og samskipti hans við foreldra, skólaráð og fræðslunefnd. Sérstaklega er athugað hvaða áhrif Þrepakerfið hefur haft og hvort það samræmist ákvæðum laga um grunnskóla, reglugerða við lögin og aðalnámskrár. Einnig skal athuga hvort Þrepakerfið samræmist ákvæðum stjórnsýslulaga.

Úttektin leiðir í ljós að skólastarf í Grunnskólanum á Þórshöfn hefur undanfarin ár ekki uppfyllt lög um grunnskóla, m.a. þar sem ekki hefur verið lokið við vinnu skólanámskrár né unnið fullnægjandi innra mat skólans. Lítið hefur verið um kannanir á líðan nemenda og viðhorfi nemenda, starfsmanna og foreldra.

Svo virðist sem stjórnun skólans hafi verið í miklum ólestri þegar núverandi skólastjóri tók við. Skólaráð var fyrst skipað s.l. vor og hefur aðeins fundað í tvö skipti. Fræðslunefnd og sveitarstjórn styðja vel við skólastjóra og skólann, en hafa á undanförnum árum ekki fylgt því nægilega vel eftir að skólinn uppfylli kröfur laga, s.s. um skólanámskrá. Nú er að frumkvæði fræðslunefndar í fyrsta sinn hafin vinna við skólastefnu sveitarfélagsins. Í sveitarfélaginu hefur verið gerður sáttmáli um bætt samskipti sem að koma fjölmargir aðilar. Sáttmálanum er m.a. ætlað að styðja við íþrótta- og skólastarf.

Núverandi skólastjóri hefur haft frumkvæði að því að byggja upp með samræmdum hætti, nánast frá grunni, faglegt starf við skólann. Mikil vinna við agamál og erfið úrlausnarmál einstakra nemenda hefur tafið það verk. Almenn ánægja er með núverandi skólastjóra, skólabragur hefur batnað og starfsandi er góður í skólanum.

Mikil starfsmannavelta hefur verið við skólann undanfarin ár en skólinn hefur nú á að skipa vel menntuðum starfsmönnum. Báðir stjórnendur og 77% þeirra sem sinna kennslu uppfylla kröfur um réttindi til kennslu á grunnskólastigi og allir utan einn hafa menntun á háskólastigi. Húsnæði skólans hefur verið endurnýjað talsvert á undanförnum árum og tölvukerfi og tölvukostur endurnýjaður. Lítið er um búnað til verklegs náms.

Kennsluhættir, sérstaklega á efri stigum, þar sem agavandamál hafa verið mikil, eru fremur einhæfir og lýðræðisleg þátttaka og val nemenda lítið. Endurmenntun starfsmanna hefur ekki verið markviss og nægilega tengd skólaþróun. Þó hafa einstaka kennarar haft frumkvæði að þróunarverkefnum sem þeir hafa nýtt í kennslu sinni og sótt fræðslu þar að lútandi. Þá er þörf á auknum faglegum stuðningi við skólann varðandi uppbyggu faglegs starfs og úrlausn erfiðra mála. Samningar sveitarfélagsins um sérfræðiþjónustu eru ekki nægilega vel skilgreindir og þörf á meiri og fjölbreyttari þjónustu en verið hefur.

Samstarf milli skólans, foreldra og grenndarsamfélags hefur verið lítið, en nú virðist gagnkvæmur vilji til að efla þau tengsl. Erfiðlega hefur gengið að fá fulltrúa grenndarsamfélagsins í skólaráð og deildarstjóri sérkennslu er formaður foreldrafélags skólans.

Úttektin leiðir í ljós að Þrepakerfið hefur reynst vel við að taka á erfiðum agavanda hjá efstu bekkjardeildum skólans. Hins vegar hentar kerfið ekki öllum nemendum og sérstaklega hefur einvist verið gagnrýnd og virðist ekki nægjanlega vel og faglega skilgreind. Einvist er túlkuð á mismunandi hátt eftir starfsmönnum sem rætt var við og að einhverju leyti ekki eins og sálfræðingur lagði upp með. Á meðan úttekt þessi stóð yfir var reglugerð nr. 1040/2011 sett og tók þá þegar gildi. Að virtum reglum sem þar koma fram er það mat úttektaraðila að Þrepakerfið standist ákvæði stjórnsýslulaga og grunnskólalaga, að því gefnu að lokið verði nú þegar við að skilgreina betur útfærslu einvistar og að skjölun verði bætt.

Skólinn hefur ýmsar aðgerðir til að taka á einelti en vísbendingar eru um að það sé enn of mikið. Úttektaraðilar hafa ítrekað rekið sig á erfiðleika í litlum sveitarfélögum við að finna úrræði við hæfi fyrir börn með alvarleg þroska- og hegðunarfrávik. Þetta á við á Þórshöfn.

Lagt er til að unnið verði áfram með Þrepakerfið um hríð en Uppbyggingarstefnan muni leysa það smám saman af hólmi. Þrepakerfið verði lagað betur að skólanum í samvinnu við nemendur og foreldra og með aðstoð sálfræðings sem verði skólanum til ráðgjafar allt skólaárið. Einvist verði endurskoðuð og reynt að tengja hana betur úrræðum skólans fyrir nemendur með hegðunar-og námsvandamál t.d. með námsveri sem stuðlar að uppbyggingu nemenda bæði félags- og námslega. Starfsmenn fái reglulega þjálfun og fræðslu um kerfið.

Lokið verði við skólanámskrá fyrir skólaárið 2012-2013 og skólinn hefji markvissa skólaþróun sem viðleitni til umbóta. Mótuð verði símenntunaráætlun fyrir skólann í heild og einstaka starfsmenn og að sveitarfélagið leiti áfram leiða til að styðja við starfsfólk sem vill öðlast kennararéttindi. Unnið verði að innra mati skólans í samvinnu við alla aðila skólasamfélagsins.
Sjálfsmatsskýrsla liggi fyrir vorið 2013. Aðkoma nemenda og foreldra að ákvarðanatöku verði aukin og einelti og líðan og viðhorf nemenda, foreldra og starfsmanna skólans verði kannað reglulega, m.a. í samstarfi við aðra skóla og sveitarfélög. Endurskoðaðir verði samningar sveitarfélagsins um sérfræðiþjónustu, þeir verði betur skilgreindir og sérfræðiþjónustu leitað víðar en nú er.


Skrár

Skrá Stærð Skráartegund Skoða
utt_grsk_thorshofn_2012.pdf 1.160Mb PDF Skoða/Opna

Þetta verk birtist í eftirfarandi flokki:

Skoða fulla færslu

Leita


Fletta